Viðbótarsparnaður
Viðbótarlífeyrissparnaður er hentug leið til að spara og getur nýst bæði til að fjárfesta í húsnæði og til að auka ráðstöfunartekjur eftir 60 ára aldur. Viðbótarlífeyrissparnaður er séreignasparnaður þess sem leggur hann til.
Við starfslok lækka almennt ráðstöfunartekjur en viðbótarsparnaður er hagkvæm leið til að brúa bilið.
Viðbótarsparnaður og íbúðakaup
Helstu kostir:
- 2% launahækkun í formi mótframlags
- Erfanleiki
- Skattalegt hagræði
- Hagkvæm fjármögnun á húsnæði
Viðbótarsparnaður margborgar sig.
Ertu enn í vafa?
Reiknaðu dæmið hér fyrir neðan!
Reiknaðu út þinn viðbótarsparnað
Fyrirvari
Fjárfestingarleiðir
Frjálsi býður upp á fjórar misáhættumiklar fjárfestingarleiðir fyrir séreign sem sjóðfélagar geta valið um. Flestir sjóðfélagar velja Ævilínu, en þá færist inneign þín sjálfkrafa á milli fjárfestingarleiða 1-3.
Þú getur líka breytt um fjárfestingarleið hvenær sem er í Arion appinu eða á Mínum síðum Frjálsa.
Fjárfestingarstefna Eignasamsetning Ávöxtun
Frjálsi 1 - 54 ára og yngri
Þessi leið hentar fólki á aldrinum 54 ára og yngri sem þola skammtímasveiflur í ávöxtun.
Í Frjálsa 1 er hlutfall hlutabréfa hæst af þeim leiðum sem eru hluti af Ævilínu.
Frjálsi 2 - 55 ára og eldri
Þessi leið hentar fólki á aldrinum 55 ára og eldri sem vill lágmarka skammtímasveiflur í ávöxtun.
Í Frjálsa 2 er hlutfall skuldabréfa hátt og má því búast við að langtímaávöxtun verði jafnari en í Frjálsa 1.
Frjálsi áhætta
Þessi leið er ekki hluti af Ævilínu en er ætluð þeim sem eru tilbúin að taka áhættu með von um góða ávöxtun til langs tíma og þola skammtímasveiflur í ávöxtun.
Í Frjálsa áhættu er hlutfall hlutabréfa og hlutabréfatengdra afurða hæst og má því búast við að langtímaávöxtun verði hærri en í öðrum leiðum en að sami skapi eru meiri líkur á sveiflum í ávöxtun.
* Innlán eru flokkuð undir skuldabréf
Spurt og svarað
Hverjir eru helstu kostir viðbótarsparnaðar?
Kostir viðbótarsparnaðar eru fjölmargir enda eitt besta sparnaðarform sem völ er á.
- Mótframlag launagreiðenda er mikill kostur en sá sem er ekki með viðbótarsparnað er í raun að hafna þeirri launahækkun sem felst í mótframlagi launagreiðanda.
- Skattahagræði getur verið umtalsvert því viðbótarsparnaður er frádráttarbær frá tekjuskattstofni við innborgun, tekjuskattur er greiddur við útgreiðslu. Þessi tekjuskattfrestun getur komið sér vel. Ekki er greiddur fjármagnstekjuskattur eða erfðafjárskattur af viðbótarsparnaði.
- Sparnaðarformið er einkar þægilegt þar sem launagreiðandi sér um greiðslurnar.
- Ábyrgðarsjóður launa ábyrgist greiðslur og innheimtuþjónusta er frí.
- Það er óhætt að segja að viðbótarsparnaður sé einföld og hagkvæm leið til að auka fjárhagslegt sjálfstæði.
- Það er ekki hægt að gera fjárnám í viðbótarsparnaði, veðsetja hann eða framselja, enda er honum ætlað að tryggja framfærslu eftir starfslok eða við orkutap.
- Viðbótarsparnaður er þín séreign sem erfist að fullu.
- Undanfarin ár hefur ríkisstjórnin einnig boðið skattfrjálsa ráðstöfun viðbótarsparnaðar, sjá hér og fyrirframgreiðslur viðbótarsparnaðar vegna Covid-19, sjá hér.
Hvað má greiða mikið í viðbótarsparnað?
Launþegi getur lagt fyrir allt að 4% af launum í viðbótarsparnað að hámarki og fær 2% mótframlag frá launagreiðanda skv. flestum kjarasamningum. Dæmi eru um að launþegar geti samið við launagreiðendur sína um hærra mótframlag en launagreiðanda er heimilt að greiða í mótframlag sem nemur 12% af launum + 2.000.000 kr. árlega fyrir hvern launþega, samtals í skyldu- og viðbótarsparnað. Iðgjald launagreiðanda getur verið enn hærra hafi verið samið um það í kjarasamningum eða ef það er bundið í lög. Ef iðgjald launagreiðanda fer umfram þessi mörk telst það til tekna hjá launþega og verður skattlagt sem slíkt, sem er ekki skattalega hagkvæmt. Það fer eftir því hve hátt mótframlag launagreiðandi er nú þegar að greiða hvort skattalegt svigrúm er til frekari samninga um hækkun mótframlags til lífeyrissparnaðar. Það er umhugsunarvert fyrir launþega að kanna hvort samningsvilji er fyrir hendi hjá launagreiðanda og láta á það reyna að semja til framtíðar um hærra mótframlag til viðbótarsparnaðar í stað hefðbundinnar launahækkunar. Með því móti getur launþegi notið góðs af þeim hagstæðu skattareglum sem gilda um lífeyrissparnað. Þetta getur verið sérstaklega hagkvæmt fyrir þá sem greiða hluta tekjuskatts núverandi launa í hæsta skattþrep, en reikna með að eftirlaunin fari í lægra skattþrep. Þannig er möguleiki á lægri heildartekjuskattgreiðslum. Sjálfstæðir atvinnurekendur nýta gjarna þennan kost. Sjá umfjöllun í greininni Einyrkjar hafa meira frelsi en launafólk.
Get ég valið hvar ég ávaxta viðbótarsparnað?
Þú hefur frjálst val um hvar þú ávaxtar þinn viðbótarsparnað. Þú þarft ekki að greiða hann í sama sjóð og þú greiðir skyldusparnaðinn þinn. Til viðbótar við lífeyrissjóði er bönkum, verðbréfafyrirtækjum og líftryggingafélögum heimilt að ávaxta viðbótarsparnað.
Er viðbótarsparnaður aðfararhæfur?
Nei, viðbótarsparnaður er ekki aðfararhæfur og því ekki hægt að ganga að honum vegna fjárhagslegra skuldbindinga.
Ég var að byrja með viðbótarsparnað, af hverju er engin inneign í sjóðnum mínum?
Þegar þú gerir samning um viðbótarsparnað eða breytir um launagreiðanda þá sendir sjóðurinn samninginn á launagreiðanda samdægurs eða daginn eftir. Það getur hins vegar verið alveg eðlilegt að þú sjáir ekki inneign í sjóðnum þínum fyrr en 1-2 mánuðum síðar. Það fer svolítið eftir því hvort þú gerðir samning um viðbótarsparnað fyrir eða eftir miðjan mánuð þ.e. hvort það hefur náð inn í launavinnslu mánaðarins hjá launagreiðanda þínum.
- Fyrsta skrefið er að skoða launaseðilinn þinn, á honum sérðu hvort hluta launa þinna hafi verið ráðstafað í viðbótarsparnað á síðasta launatímabili.
- En jafnvel þó þú sjáir á launaseðli að iðgjald hafi verið dregið af launum þá er gjalddagi ekki fyrr en 10. dag næsta mánaðar á eftir launatímabili og eindagi síðasti dagur næsta mánaðar á eftir launatímabili. Að þeim tíma liðnum ættir þú að sjá inneign í sjóðnum.
- Sjáir þú ekki greiðslur í viðbótarsparnað á launaseðlinum þá er möguleiki að samningurinn þinn hafi ekki borist launagreiðanda fyrir launavinnslu launatímabilsins. Það gætir þú fengið staðfest hjá launafulltrúa.
- Hafi samningurinn ekki borist launagreiðanda þínum geturðu haft samband við sjóðinn þinn og óskað eftir að samningurinn verði sendur aftur.