Lán

Til að geta fengið lán hjá Frjálsa er skilyrði að eiga séreign eða réttindi í sjóðnum sem myndast hafa með greiðslu skyldusparnaðar eða viðbótarsparnaðar.

Jafnframt þurfa umsækjendur að uppfylla annað af eftirfarandi tveimur skilyrðum:

 • Hafa greitt iðgjöld í sjóðinn vegna síðustu 6 mánaða
 • Hafa greitt iðgjöld í sjóðinn vegna samtals 36 mánaða

Sé maki sjóðfélaga meðlántaki þá þarf maki ekki að uppfylla ofangreind skilyrði.

Hámarkslán er 70 milljónir fyrir einstaklinga, hjón eða sambýlisfólk. Lánstími er 5 til 40 ár og öll lán eru án uppgreiðslugjalds.

Húseignir í smíðum þurfa að vera komnar með fokheldisvottorð (byggingarstig 4) og smíðatryggingu til að hægt sé að sækja um lán.

Nánari upplýsingar má finna í lánareglum Frjálsa.

Hægt er að óska eftir aðstoð eða bóka fund á lan@frjalsi.is.

Frjálsi býður upp á þrjú lánsform.

Verðtryggð lán með breytilegum vöxtum

 • Vextir nú 4,29%*

Verðtryggð lán með föstum vöxtum út lánstíma

 • Vextir nú 4,24%

Óverðtryggð lán með föstum vöxtum til 3ja ára

 • Vextir nú 9,59%

* Vaxtaendurskoðun á þriggja mánaða fresti.

Skoða vaxtaþróun Frjálsa 

 

Íbúðalánaferlið skref fyrir skref

Fyrsta skrefið

Greiðslumat

Lánsumsókn

Að lokum

Gott að vita

1
2
3
4
5
1

Fyrsta skrefið

Hvort sem þú ætlar að kaupa, endurfjármagna eða byggja er gott að byrja að áætla greiðslugetu.

Þegar þú veist hver áætluð greiðslugeta þín er þá er einfalt að nýta sér lánareiknivél Frjálsa til að sjá hvaða lánafyrirkomulag hentar þér best.

Áætla greiðslugetu

Vissir þú að hægt er að nýta viðbótarsparnað og/eða tilgreinda séreign skattfrjálst við íbúðakaup?
Nánar hér.

2

Rafrænt greiðslumat

Þegar þú hefur fundið eign eða vilt endurfjármagna* þá er næsta skref að fara í fullgilt rafrænt greiðslumat.

*Ef þú ætlar að endurfjármagna lán sem þú ert með hjá Frjálsa með nýju láni frá sjóðnum sem er með lægri greiðslubyrði og sama höfuðstól þarf ekki greiðslumat.

Hefja greiðslumat

3

Lánsumsókn

Að greiðslumati loknu fyllir þú út lánsumsókn með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan. Við metum umsóknina og verðum í sambandi við þig.

Sé umsóknin samþykkt þá útbúum við lánaskjölin og látum þig vita þegar þau eru tilbúin til undirritunar.

Sækja um lán

4

Að lokum

Þegar lánaskjölin hafa verið undirrituð, sendum við þau til Sýslumanns í þinglýsingu. Lánið er svo afgreitt eftir að Sýslumaður hefur þinglýst veðskuldabréfinu.

Þú getur fylgst með stöðu á þinglýsingu skjala á vef Sýslumanns en þinglýsing tekur alla jafna um 2-4 vikur.

Staða þinglýsinga

5

Gott að vita

Þú getur fylgst með stöðunni á láninu þínu og greitt inn á höfuðstólinn hvenær sem er, þér að kostnaðarlausu í Arion appinu, nánar hér.

Ef þú vilt nýta þér skattfrjálst úrræði 
viðbótarsparnaðar og/eða tilgreindrar séreignar
sækir þú um úrræði fyrstu íbúðar hér 
en almenna úrræðið hér.

Reikna lán


Útreikningur og niðurstaða reiknivélarinnar er aðeins til viðmiðunar og byggir eingöngu á þeim forsendum sem gefnar voru upp.

Ýmis úrræði standa lántökum til boða sem standa frammi fyrir skerðingu á tekjum, greiðsluerfiðleikum eða þungri greiðslubyrði. Á næstu mánuðum mun greiðslubyrði margra lána með föstum óverðtryggðum vöxtum hækka umtalsvert þegar fastvaxtatímabili lýkur. Frjálsi sendir lántökum bréf áður en fastvaxtatímabili lýkur. Ef fastvaxtatímabili á þínu láni er að ljúka og þú aðhefst ekkert munu vextirnir á láninu festast aftur til þriggja ára, á þeim kjörum sem í boði eru á slíkum lánum á þeim tíma. Upplýsingar um vaxtakjör á hverjum tíma má nálgast hér. Þú hefur jafnframt val um að færa þig í annað lánsform án kostnaðar hjá sjóðnum ef þú sækir um það a.m.k. 15 dögum áður en fastvaxtatímabili lýkur.

Lækka greiðslubyrði

Ef þú stendur frammi fyrir skerðingu á tekjum, greiðsluerfiðleikum eða talsverðri aukningu á greiðslubyrði lánsins og óskar þess að lækka hana gæti verið gagnlegt fyrir þig að skoða hvað sé til ráða.

Hér fyrir neðan höfum við tekið saman nokkra möguleika sem við hvetjum þig til að kynna þér ef þú vilt skoða leiðir til þess að lækka mánaðarlega greiðslubyrði. Hafir þú spurningar getur þú haft samband við okkur í gegnum netspjallið, á lan@frjalsi.is eða bókað tíma hjá ráðgjafa. Athugið að sækja þarf um mögulegar breytingar á láni.

Breyta úr óverðtryggðu yfir í verðtryggt

Endurfjármögnun úr óverðtryggðu yfir í verðtryggt íbúðalán getur lækkað mánaðarlega greiðslubyrði láns. Hægt er að endurfjármagna og færa bæði hluta láns eða allt lánið í verðtryggt form, allt eftir því hversu mikið þú vilt lækka greiðslubyrðina.

Í reiknivél okkar má sjá hver greiðslubyrðin er á mánuði fyrir verðtryggð lán og óverðtryggð m.v. núverandi vaxtastig. 

Við leggjum áherslu á að finna heildstæða lausn sem getur m.a. falið í sér endurskipulagningu á lánum þínum þannig að greiðslubyrði taki mið af greiðslugetu.

Jafnar afborganir eða jafnar greiðslur

Lán Frjálsa eru ýmist með jöfnum greiðslum eða jöfnum afborgunum. Hægt er að endurfjármagna lán með jöfnum afborgunum yfir í lán með jöfnum greiðslum og er tekið tillit til greiðslumats eins og þegar endurfjármögnun íbúðalána á sér stað.

Þegar greitt er af láni með jöfnum greiðslum er u.þ.b sama heildarfjárhæð greidd í hverjum mánuði. Ef lánið er verðtryggt þá breytist greiðslubyrði nokkurn veginn í takt við þróun verðlags yfir tímann. Greiðslubyrði af láni með jöfnum greiðslum er alla jafna lægri í upphafi en mánaðargreiðsla á sambærilegu láni með jöfnum afborgunum.

Þegar greitt er af láni með jöfnum afborgunum er sama fjárhæð greidd af höfuðstól lánsins í hverjum mánuði auk vaxta og verðbóta ef lánið er verðtryggt. Greiðslubyrði af lánum með jöfnum afborgunum er hærri í upphafi en þegar greitt er með jöfnum greiðslum, en lækkar með tímanum í takt við lækkun höfuðstóls.

Greiðsluhlé

Mögulegt er að sækja um greiðsluhlé að hluta eða öllu leyti í allt að 12 mánuði. Jafnframt er hægt að lengja lánstíma sem nemur greiðsluhléi. Ef ekki er óskað eftir því að lengja lánstíma sem nemur greiðsluhléinu, munu greiðslur af láninu hækka eftir að gildistíma samkomulags lýkur. Vextir, sem hefði átt að greiða á hverjum gjalddaga, leggjast á höfuðstól 12 mánuðum eftir upphaf vaxtatímabils greiðsluleyfis. Veðsetning íbúðalána má ekki fara yfir 70% af fasteignamati eignar þegar samkomulagi lýkur.

Lengja lánstíma lána

Með því að lengja lánstíma lána lækka afborganir að öðru óbreyttu. Lengsti lánstími lána Frjálsa er 40 ár. Áhrif þess að lengja í láni fer eftir núverandi lánstíma og vaxtastigi. Það má því segja að ef lánið er nýlegt og var tekið til hámarkslánstíma þá hefur lenging lánstíma lítil áhrif á greiðslubyrðina. Hafa ber í huga að ef lánstími er lengdur þá verður eignamyndun hægari og heildargreiðsla á lánstíma verður hærri.

 

Vakin er athygli á verðskrá Arion, auk kostnaðar vegna veðbókarvottorðs og þinglýsingar.

Lánareglur Frjálsa lífeyrissjóðsins

 1. Umsækjendur þurfa að eiga séreign eða réttindi í Frjálsa lífeyrissjóðnum sem myndast hafa með greiðslu þeirra á lágmarksiðgjaldi eða viðbótariðgjaldi af launum eða öðru endurgjaldi þeirra fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu í sjóðinn, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Jafnframt þurfa umsækjendur að uppfylla annað af eftirfarandi tveimur skilyrðum:

  • Hafa greitt iðgjöld í sjóðinn vegna síðustu sex mánaða.
  • Hafa greitt iðgjöld til sjóðsins vegna samtals 36 mánaða.

  Lántakendur hjá sjóðnum sem uppfylla ekki ofangreind skilyrði hafa rétt til að endurfjármagna lán sín við sjóðinn sbr. 11. gr. reglna þessa.

 2. Lántakendur geta valið um jafngreiðslulán (annuitet) eða lán með jöfnum afborgunum.

 3. Lántakendum stendur til boða þrjú lánsform eða blöndu af þeim:

  • verðtryggð lán með vöxtum sem eru breytilegir,
  • verðtryggð lán með föstum vöxtum út lánstímann og
  • óverðtryggð lán með föstum vöxtum til þriggja ára í senn.

  Verðtryggð lán – breytilegir vextir

  Breytilegir vextir verðtryggðra lána sjóðsins eru endurskoðaðir af stjórn sjóðsins á þriggja mánaða fresti, þann 15. febrúar, 15. maí, 15. ágúst og 15. nóvember. Tilkynnt er um vaxtabreytingar a.m.k. einum mánuði fyrir gildistöku, þ.e. 15. janúar, 15. apríl, 15. júlí og 15. október. Stjórn áskilur sér rétt til að breyta vöxtum með skemmri fyrirvara, að því marki sem slíkar breytingar leiða af þáttum sem sjóðurinn hefur ekki stjórn á.

  Við ákvarðanir á breytilegum vöxtum sjóðsins er tekið mið af meðalávöxtunarkröfu verðtryggðra skuldabréfa útgefinna m.a. af Íbúðalánasjóði, bönkum og fjármálastofnunum á Íslandi, ríkissjóði Íslands eða sveitarfélögum síðustu þrjá almanaksmánuði, að viðbættri álagningu sjóðsins vegna útlánaáhættu og rekstrarkostnaði í tengslum við lánveitingar sjóðsins. Stjórn áskilur sér jafnframt rétt til að líta til vaxta sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir á vefsíðu sinni, og breytinga á ávöxtunarkröfu á ríkisskuldabréfum á markaði. Gildandi vextir eru birtir á vefsíðu sjóðsins.

  Verðtryggð lán – fastir vextir

  Fastir vextir verðtryggðra lána eru ákvarðaðir af stjórn sjóðsins. Fastir vextir taka ekki breytingum á lánstíma. Gildandi vextir á nýjum lánum eru birtir á vefsíðu sjóðsins.

  Óverðtryggð lán

  Óverðtryggðir vextir lána eru ákvarðaðir af stjórn sjóðsins og eru þeir fastir til þriggja ára í senn. Að þeim tíma liðnum á lántaki rétt á að fá eftirstöðvum skuldarinnar breytt í annað lánsform hjá sjóðnum á sambærilegum kjörum og sjóðurinn býður á þeim tíma miðað við sambærilegar tryggingar, enda sé lánið í skilum og tryggingar þess en fullnægjandi að mati sjóðsins. Lántaki skal óska eftir breytingu samkvæmt þessu með a.m.k. 15 daga fyrirvara og skal breytingin vera honum að kostnaðarlausu. Gildandi vextir á nýjum lánum eru birtir á vefsíðu sjóðsins.

 4. Verði skuldaraskipti á láninu og nýr skuldari er ekki sjóðfélagi hækka vextir lánsins um 1,0 prósentustig.

 5. Lágmarksfjárhæð láns er 1 milljón kr. Hámarksfjárhæð láns til einstaklings, hjóna eða sambúðarmaka er 70 milljónir kr. samanlagt. Aldrei skal heildarlánsupphæð vera hærri en svo að ný lán að viðbættum eftirstöðvum eldri lána frá lífeyrissjóðnum, uppreiknuðum með verðbótum, sé hærri en hámarksfjárhæð skv. ofangreindu.

 6. Lánstími er 5-40 ár. Gjalddagar eru 2-12 á ári. Lántakendur greiða kostnað af greiðslu afborgana skv. verðskrá Arion banka, rekstraraðila sjóðsins.

 7. Lánin eru uppgreiðanleg án kostnaðar hvenær sem er á lánstímanum.

 8. Aðeins er lánað gegn veði í íbúðarhúsnæði í eigu skuldara eða íbúðarhúsnæði sem skuldari eignast samkvæmt þinglýstum kaupsamningi. Ef íbúðarhúsnæði sem setja á til veðtryggingar láninu er jafnframt að hluta eða að öllu leyti í eigu maka sjóðfélaga eða sambúðarmaka, er áskilið að viðkomandi eigandi verði meðlántaki (samskuldari) að umbeðnu láni. Meðlántaki þarf ekki að uppfylla skilyrði 1. gr., en þarf hins vegar að vera maki eða sambúðarmaki sjóðfélaga. Aðrir en maki sjóðfélaga eða sambúðarmaki geta ekki orðið meðlántakar.

 9. Veðsetning í íbúðarhúsnæði getur að hámarki verið 70% af kaupverði en í sérstökum tilfellum áskilur sjóðurinn sér þó rétt til að miða við fasteignamat frá Fasteignamati ríkisins og/eða verðmat löggilts fasteignasala.

  Veðsetning í íbúðarhúsnæði getur að hámarki verið 70% af fasteignamati þegar lánað er í öðrum tilgangi en að fjármagna kaup eða byggingu á íbúðarhúsnæði. Í sérstökum tilfellum áskilur sjóðurinn sér þó rétt til að miða við verðmat löggilts fasteignasala.

  Lífeyrissjóðurinn áskilur sér rétt til að tilnefna löggiltan fasteignasala til að framkvæma verðmat. Verðmatið er á kostnað lántaka en sjóðurinn getur ætíð lagt sjálfstætt mat á forsendur verðmats.

  Gerð er krafa um að lánum sjóðsins sé þinglýst fremst í veðbók viðkomandi fasteignar.

  Ekki er lánað gegn veði í ósamþykktu húsnæði, þ.e. krafa er að veðið sé íbúð sem fellur undir byggingarreglugerð sem íbúðarhúsnæði. Að jafnaði eru ekki veitt lán til lántaka með veði í fleiri en tveimur fasteignum. Veðsetning fullfrágenginna eigna má aldrei vera hærri en 100% af brunabótamati og lóðarmati.

 10. Heimilt er að lána til byggingar íbúðarhúsnæðis en þá að uppfylltum þeim skilyrðum sem fram koma í 9. gr. reglna þessara. Húseignir í smíðum þurfa að vera komnar með fokheldisvottorð (byggingarstig 2) og smíðatryggingu til að vera tækar til veðtöku.

 11. Við endurfjármögnun eldri lána Frjálsa lífeyrissjóðsins er ekki gerð krafa um færslu veðréttar fremst í veðbók, sbr. 9. gr. eða skilyrði um greiðslu iðgjalda sbr. 1. gr. Ef nýtt lán sjóðsins færist ekki framar í veðröð við endurfjármögnun skal það haldast á þeim veðrétti sem þau eldri voru á. Þrátt fyrir ákvæði um hámarksfjárhæð í 5. gr. reglna þessa er heimilt að endurfjármagna þá fjárhæð sem nemur allt að eftirstöðvum eldra láns sjóðsins sem á að greiða upp. Að öðru leyti gilda sömu reglur og gilda um nýjar lánveitingar skv. reglum þessum.

 12. Með umsókninni þurfa að fylgja þær upplýsingar og þau gögn sem farið er fram á í lánsumsókn sjóðsins. Sjóðurinn greiðslumetur umsækjendur og metur lánshæfi þeirra í samræmi við lög um fasteignlán til neytenda nr. 118/2016 ásamt tilheyrandi reglugerð. Umsækjandi skal útvega sjóðnum öll fylgigögn vegna greiðslumats og heimilar sjóðnum að leita eftir fjárhagsupplýsingum frá Creditinfo. Lántakandi greiðir kostnað við lánshæfismat og greiðslumat. Komi í ljós að lánshæfi sé ábótavant eða skuldastaða sé með þeim hætti að vafi leiki á greiðsluhæfi lántakanda getur sjóðurinn lækkað umbeðna lánsfjárhæð eða hafnað lánveitingu.

 13. Lántökugjald og annar kostnaður við lántöku og skilmálabreytingar er skv. verðskrá Frjálsa lífeyrissjóðsins og Arion banka.

  Þrátt fyrir ofangreindar lánareglur áskilur Frjálsi lífeyrissjóðurinn sér rétt til að hafna lánsbeiðnum.

  Samþykkt á stjórnarfundi Frjálsa lífeyrissjóðsins 12. október 2023. Reglur þessar koma í stað eldri lánareglna og gilda um ný lán frá og með næsta virka degi sem og þegar veitt lán eftir því sem við á.
Lántökugjald 64.995 kr.

 Að öðru leyti gildir almenn verðskrá einstaklinga hjá rekstraraðila.