Frétt

Starfsemi Frjálsa árið 2023

Starfsemi Frjálsa árið 2023

Enn og aftur metfjöldi greiðandi sjóðfélaga

 
Rekstur Frjálsa gekk vel á árinu 2023 og aldrei hafa fleiri greitt í sjóðinn. Ársreikningur sjóðsins fyrir árið 2023 liggur nú fyrir og er aðgengilegur hér. Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:

  • Hrein eign Frjálsa nam 454,5 milljörðum kr. og stækkaði sjóðurinn um 54 milljarða kr. eða um 13,5%. Hrein eign séreignardeildar var 303,6 milljarðar kr. og hrein eign tryggingadeildar var 150,9 milljarðar kr.
  • Heildariðgjöld voru 31,1 milljarðar kr. og hafa aldrei verið hærri en hækkunin nam um 16,6% á milli ára.
  • Metfjöldi sjóðfélaga greiddi iðgjöld í sjóðinn á árinu, þ.e. 26.401. Fjöldi sjóðfélaga sem átti séreign eða réttindi í lok árs var 69.877.
  • Lífeyrisgreiðslur hækkuðu um 25,5% milli ára og námu 8,2 milljörðum kr. Lífeyrisþegar voru 6.710. Greiddir voru 1,5 milljarðar kr. af viðbótarsparnaði inn á höfuðstól lána eða til öflunar íbúðarhúsnæðis.
  • Afgreidd voru 214 lán til sjóðfélaga að fjárhæð 6.348 milljónir kr. Af nýjum lánum voru 61% óverðtryggð og 39% verðtryggð.
  • Töluverðar sveiflur einkenndu erlenda og innlenda fjármálamarkaði og verðbólga innanlands reyndist nokkuð þrálát. Hreinar fjárfestingartekjur sjóðsins námu 33,4 milljörðum. Nafnávöxtun fjárfestingarleiða sjóðsins var á bilinu 5,9% til 8,4% og fimm ára meðaltal nafnávöxtunar var 5,5% til 9,3%. Raunávöxtun fjárfestingarleiða sjóðsins var á bilinu -2,0% til 0,4% en fimm ára meðaltal raunávöxtunar var -0,1% til 3,5%. Nánari upplýsingar um þróun markaða og ávöxtun sjóðsins er að finna hér.
  • Kostnaðarhlutfall sjóðsins, þ.e. hlutfall rekstrarkostnaðar og beinna fjárfestingargjalda af meðalstöðu hreinnar eignar hélst óbreytt á milli ára og var 0,22%.
  • Við mat á tryggingafræðilegri stöðu tryggingadeildar sjóðsins er stuðst við spá um lífslíkur mismunandi árganga. Þannig er gert ráð fyrir því að lífslíkur fari vaxandi með hækkandi fæðingarári. Tryggingafræðileg staða Frjálsa lífeyrissjóðsins er innan lagalegra marka. Núvirtar eignir tryggingadeildar umfram áunnar skuldbindingar voru -8,8% (áfallin skuldbinding) og núvirt framtíðariðgjöld umfram núvirtar framtíðarskuldbindingar voru 1,5% (framtíðarskuldbinding). Núvirtar eignir og framtíðariðgjöld umfram heildarskuldbindingar voru -3,5% (heildarskuldbinding).

Nánari upplýsingar um ársuppgjörið er að finna í ársreikningnum.

Lykilupplýsingar hafa nú verið uppfærðar á vefsíðu sjóðsins til samræmis við upplýsingar í ársreikningi.