Frétt

Fjölmennur fræðslufundur um ávöxtun og lagabreytingar

Fjölmennur fræðslufundur um ávöxtun og lagabreytingar

Rúmlega 100 manns sóttu fræðslufund Frjálsa lífeyrissjóðsins og Arion banka um ávöxtun sjóðsins og áhrif lagabreytinga vegna útgreiðslu séreignar sem var haldinn 26. október sl. í höfuðstöðvum bankans. Að auki fylgdist fjöldi einstaklinga með fundinum í beinu streymi á feisbókarsíðu Frjálsa.

Arnaldur Loftsson, framkvæmdastjóri Frjálsa lífeyrissjóðsins, stýrði fundinum sem hófst með erindi Hjörleifs Arnar Waagfjörð, forstöðumanns eignastýringar fagfjárfesta hjá Arion banka, um þróun verðbréfamarkaða og ávöxtun Frjálsa til skemmri og lengri tíma. Í máli Hjörleifs kom fram að m.a. stríðið í Úkraínu, vaxtahækkanir og há verðbólga hefði leitt til þess að ávöxtun flestra eignaflokka væri óhagstæð á árinu sem hefði haft neikvæð áhrif á ávöxtun fjárfestingarleiða sjóðsins. Aftur á móti væri langtímaávöxtun Frjálsa góð en töluverð óvissa væri um þróun mála næstu misseri.

Að því loknu steig Helga Sveinbjörnsdóttir, sérfræðingur í lífeyrismálum hjá Arion banka, í pontu og kynnti áhrif lagabreytinga vegna útgreiðslu séreignar sem taka gildi um næstu áramót. Í erindi Helgu kom m.a. fram að frá 1. janúar 2023 verði sú breyting á tekjutengingum að útgreiðslur séreignar skyldusparnaðar geti lækkað lífeyrisgreiðslur almannatrygginga. Lagði hún áherslu á mikilvægi þess að sjóðfélagar 60 ára og eldri skoði stöðu sína tímanlega því sumir eigi kost á að bregðast við fyrir 1. janúar 2023 til að ýmist koma í veg fyrir eða draga úr áhrifum tekjutenginganna. Nánar hér.

 

Arnaldur Loftsson, framkvæmdastjóri Frjálsa lífeyrissjóðsins

Hjörleifur Arnar Waagfjörð, forstöðumaður eignastýringar fagfjárfesta hjá Arion banka

Helga Sveinbjörnsdóttir, sérfræðingur í lífeyrismálum hjá Arion banka