Frétt

Áhrif lagabreytinga <br>1. janúar 2023

Áhrif lagabreytinga
1. janúar 2023

Breytingar á lögum sem varða lífeyrissjóði taka gildi 1. janúar 2023 og hafa í för með sér þó nokkrar breytingar fyrir sjóðfélaga. Með lagabreytingunum eru m.a. lögfest nokkur atriði úr lífskjarasamningi aðila vinnumarkaðarins frá 2019.

Helstu breytingar eru eftirfarandi:

  • Útgreiðslur hefðbundins viðbótarlífeyrissparnaðar sem takmarkast við allt að 4% framlag sjóðfélaga og 2% framlag launagreiðanda verða áfram undanþegnar skerðingum á ellilífeyri, tekjutryggingu örorkulífeyris og ráðstöfunarfé skv. lögum um almannatryggingar.
  • Aftur á móti munu útgreiðslur annarra tegunda séreignar ekki verða undanþegnar skerðingum almannatrygginga. Þeir sem hafa þegar hafið töku lífeyris almannatrygginga fyrir 1. janúar 2023 eru þó undanþegnir ofangreindum skerðingarreglum.
  • Lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs hækkar úr 12% af iðgjaldsstofni í 15,5%.
  • Lífeyrissjóðum er heimilt að bjóða sjóðfélögum að ráðstafa allt að 3,5% mótframlagi launagreiðanda í tilgreinda séreign sem er með þrengri útgreiðsluheimildir en frjáls séreign.
  • Sjóðfélögum er heimilt að ráðstafa tilgreindri séreign skattfrjálst í úrræði fyrstu íbúðar ef hámarksfjárhæð ársins, 500 þús. kr., næst ekki með skattfrjálsri ráðstöfun viðbótarlífeyrissparnaðar.
  • Þeim sem hafa ekki verið eigendur að íbúðarhúsnæði í fimm ár verður heimilt að nýta úrræði fyrstu íbúðar.

Lagabreytingarnar ná til laga um lífeyrissjóði, laga um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, til laga um tekjuskatt, til laga um almannatryggingar og til laga um málefni aldraðra.
Lagabreytingarnar eru aðgengilegar á vefsíðu Alþingis, sjá hér.

Nánari upplýsingar um áhrif breytinganna má finna í spurt og svarað.