Frétt

Aukin upplýsingagjöf Frjálsa lífeyrissjóðsins

Aukin upplýsingagjöf Frjálsa lífeyrissjóðsins

Tímarnir breytast og krafa sjóðfélaga um aukið gagnsæi og greiðari aðgang að upplýsingum með því. Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefur haft það að markmiði að taka virkan þátt í þessari vegferð. Sjóðurinn hefur til að mynda birt rekstrarsamning sjóðsins við rekstraraðilann Arion banka, framkvæmd hluthafastefnu er aðgengileg á heimasíðu sjóðsins ásamt því að Frjálsi heldur úti lykilupplýsingasíðu þar sem stöðugt er unnið að bættara aðgengi sjóðfélaga að lykilupplýsingum úr starfsemi sjóðsins. Eftir efnahagshrunið 2008 var Frjálsi fyrsti sjóðurinn til að birta ársfjórðungslega sundurliðun á einstökum fjárfestingum sjóðsins. Ennfremur má nefna fjölda greina sem ritaðar hafa verið um starfsemi og fjárfestingar sjóðsins, nú síðast umfjöllun um sérhæfðar fjárfestingar sjóðsins.

Nú hefur Frjálsi tekið frekari skref í bættri upplýsingagjöf sem er rakið hér að neðan:

Kostnaður

Fyrir sjóðfélaga skiptir langtímaávöxtun eftir kostnað mestu máli en ekki ávöxtun einstakra ára. Á vef Landssamtaka lífeyrissjóða er að finna samanburð á ávöxtun allra lífeyrissjóða til 5 og 10 ára. Kostnaður við starfsemi sjóðsins skiptir þó vissulega miklu máli og er honum gjarnan skipt í rekstrarkostnað, bein fjárfestingargjöld og áætluð fjárfestingargjöld. Rekstrarkostnaður er t.d. 60% af umsýsluþóknun til Arion, launakostnaður, lögbundin gjöld o.s.frv. Bein fjárfestingargjöld eru vörsluþóknun, kostnaður vegna verðbréfaviðskipta og 40% af umsýsluþóknuninni. Áætluð fjárfestingargjöld endurspegla svo kostnað við rekstur sjóða sem lífeyrissjóðurinn fjárfestir í hjá sjóðastýringafyrirtækjum. Yfirlit yfir beinan kostnað (rekstrarkostnaður, bein fjárfestingargjöld) og óbeinan kostnað (áætluð fjárfestingargjöld) Frjálsa hafa nú verið birt á lykilupplýsingasíðu á vefsíðu sjóðsins.

Viðskipti við verðbréfamiðlanir

Í viðskiptum með verðbréf fer Frjálsi eftir bestu framkvæmd viðskipta (e. Best execution) þar sem markmiðið er að tryggja að bestu kjara sé ætíð leitað fyrir hönd sjóðsins. Opið er fyrir viðskipti við allar verðbréfamiðlanir landsins og er mismunandi hver er hlutdeild hverrar miðlunar af heildarviðskiptum sjóðsins með einstök verðbréf. Upplýsingar um viðskipti við miðlanir eru nú aðgengilegar á vefsíðu sjóðsins.

Velta

Frjálsi er á íslenskan mælikvarða ungur sjóður þar sem fjöldi greiðandi sjóðfélaga og iðgjöld eru hlutfallslega há. Iðgjöldin þarf að ávaxta með fjárfestingum en breytingar á fjárfestingarstefnu fela einnig í sér veltu. Það er þó ekki þannig að greiða þurfi þóknanir fyrir alla veltu. Yfirleitt þarf Frjálsi ekki að greiða þóknanir þegar hann kaupir eða selur hlutdeildarskírteini í sjóðum hjá sjóðastýringarfélögum. Á heimasíðu Frjálsa hafa nú verið birtar upplýsingar um veltutölur sjóðsins, sundurliðað eftir því hvort þær feli í sér þóknanir eða ekki, ásamt því að birta upplýsingar um fjárhæð þóknana.

Fjárfestingar tengdar rekstraraðila

Frjálsi veitir í dag eignastýringu Arion umboð til að eiga viðskipti fyrir hönd sjóðsins í samræmi við þá fjárfestingarstefnu sem stjórn sjóðsins skilgreinir. Af þessu er ljóst að Arion ber margþætta ábyrgð í starfi sínu fyrir hönd Frjálsa. Í starfsemi Arion er til viðbótar við eignastýringu rekin fjölþætt fjármálastarfsemi þar sem snertifletir eru margir, hætta er á hagsmunaárekstrum og því mikilvægt að gera ráðstafanir til að þeir valdi ekki Frjálsa tjóni. Í þessu sambandi upplýsir Arion stjórn sjóðsins mánaðarlega um eignastöðu og viðskipti með verðbréf og aðrar afurðir tengdum bankanum og dótturfélögum. Á heimasíðu sjóðsins er nú birt árlegt yfirlit sambærilegt því sem lagt er fyrir stjórn sjóðsins.

Að lokum

Aukinn áhugi, þekking og vitund hjá sjóðfélögum er fagnaðarefni. Mikið hefur áunnist í upplýsingagjöf og gagnsæi hjá Frjálsa síðustu ár en alltaf má þó gera betur og stefnir sjóðurinn ótrauður á að halda áfram á þeirri vegferð. Það er von Frjálsa að þessar viðbætur mælist vel fyrir hjá núverandi og tilvonandi sjóðfélögum og að upplýsingarnar komi að góðum notum.