Frétt

Ársreikningur 2019 - Góð ávöxtun og mikill vöxtur einkenndi árið

Ársreikningur 2019 - Góð ávöxtun og mikill vöxtur einkenndi árið

Rekstrarniðurstöður Frjálsa fyrir árið 2019 liggja nú fyrir og er óhætt að segja að góð ávöxtun og mikill vöxtur hafi einkennt rekstur sjóðsins. Frjálsi 1, sem er stærsta og fjölmennasta fjárfestingarleið sjóðsins, skilaði hæstu raunávöxtun frá árinu 2003, eða 12,4%.

Fjárfestingarleiðin Frjálsi Áhætta, sem var stofnuð árið 2008, skilaði 13,7% raunávöxtun en það er næsthæsta ávöxtun frá stofnun leiðarinnar. Fjárfestingartekjur, iðgjöld launagreiðenda og lífeyrir til sjóðfélaga hafa auk þess aldrei verið hærri.

Helstu niðurstöður ársuppgjörs Frjálsa voru eftirfarandi:

  • Hrein eign Frjálsa í lok árs 2019 var 284,5 milljarðar kr. og stækkaði sjóðurinn um 20% á árinu.
  • Á árinu greiddu 22.515 sjóðfélagar um 20,9 milljarða kr. iðgjöld til sjóðsins og hefur fjárhæð iðgjalda í sjóðinn aldrei verið hærri.
  • Á árinu fengu 3.956 lífeyrisþegar greitt úr sjóðnum um 3,6 milljarða kr.
  • Árið 2019 einkenndist af mikilli hækkun á verðbréfamörkuðum sem skilaði Frjálsa fjárfestingartekjum sem námu 31,5 milljörðum og hafa þær aldrei verið hærri. Nafnávöxtun séreignardeilda sjóðsins var á bilinu 6,2% til 16,7% og 5 ára meðaltal nafnávöxtunar var 6,2% til 8,7%.
  • Tryggingadeild sjóðsins skilaði 11,9% nafnávöxtun m.v. markaðsvirði og 5 ára meðaltal nafnávöxtunar var 7,8%. Tryggingafræðileg staða lækkaði um 0,5 prósentustig en eignir umfram heildarskuldbindingar í lok árs voru 1,6%. Nýtt mat á lífslíkum, sem tekur mið af reynslu áranna 2014-2018, og aðrir þættir höfðu 1,7 prósentustigs neikvæð áhrif á tryggingafræðilega stöðu en góð ávöxtun hafði jákvæð áhrif sem nemur 1,2 prósentustigum.

Nánari upplýsingar um ársuppgjörið er að finna í ársreikningi Frjálsa

Nánari upplýsingar um ávöxtun sjóðsins og þróun markaða árið 2019 er að finna hér.

Ársfundur

Vegna samkomutakmarkana í kjölfar COVID-19 þá mun ársfundur sjóðsins fara fram seinna en venjulega. Upplýsingar um fundarstað og fundartíma verða birtar á vef sjóðsins þegar þær liggja fyrir með a.m.k. fjögurra vikna fyrirvara.