Frétt
Ávöxtun Frjálsa árið 2025
22. janúar 2026Þær fjárfestingarleiðir sem eru með hátt hlutfall í skuldabréfum skiluðu hæstu ávöxtun á árinu en nafnávöxtun fjárfestingarleiða var á bilinu 5.8% til 8.6% sem skilar raunávöxtun á bilinu 2.0% til 4.7%. Ávöxtun tryggingadeildar mun liggja fyrir við útgáfu ársreiknings sjóðsins, en óendurskoðuð ávöxtun er birt hér í grafinu.
Markaðsaðstæður síðustu ára undirstrika mikilvægi þess að vera með dreift eignasafn til þess að standast sveiflur á mörkuðum. Frjálsi lífeyrissjóðurinn leggur upp úr því að fjárfesta í ólíkum eignaflokkum, atvinnugreinum og landsvæðum til þess að dreifa áhættu sem mest.
Þróun markaða
Stýrivextir standa nú í 7,25% eftir að hafa lækkað um 1,25 prósentustig og verðbólgan nánast staðist í stað milli ára . Ávöxtunarkrafa skuldabréfa lækkaði almennt yfir árið í takt við efnahagsleg áföll. Hækkun verðbólgu í desember stöðvaði þó lækkunarþróun kröfunnar að hluta. Þrátt fyrir þessar sveiflur var breyting kröfu og verðþróun skuldabréfa í heild nokkuð stöðug á árinu, og ávöxtun ríkisskuldabréfa skilaði nafnávöxtun á bilinu 4,6 %til 8,8%, þar sem styttri bréfin skiluðu hærri ávöxtun en þau lengri.
Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands (OMXI15CAP) sýndi í heildina litla breytingu milli ára. Þrátt fyrir það einkenndist árið af talsverðum sveiflum, þar sem vísitalan lækkaði töluvert í apríl í kjölfar tollastefnu Donalds Trumps. Í kjölfarið náði markaðurinn þó að rétta úr kútnum og endaði vísitalan árið nær óbreytt.
Frammistaða einstakra félaga var engu að síður mjög misjöfn. Marktækur munur kom fram á ávöxtun félaga, þar sem Arion banki skilaði bestu niðurstöðunni á árinu en Alvotech þeirri slökustu.
Erlendir hlutabréfamarkaðir héldu áfram að sýna sterka þróun á árinu 2025 þrátt fyrir áframhaldandi óvissu í alþjóðahagkerfinu, geopólitísk átök og pólitíska áhættu. Heimsvísitala hlutabréfa (MWXO) hækkaði um 19,5% í bandaríkjadal en 7,8% mælt í íslenskum krónum. Ávöxtun hefur verið drifin áfram af fáum stórum tæknifyrirtækjum, þar sem væntingar um áframhaldandi vöxt, þróun og aukna nýtingu gervigreindar hafa verið lykilþættir.
Langtímaávöxtun
Hér fyrir neðan má sjá ávöxtun á ársgrundvelli til 5 ára og 10 ára m.v. 31.12.2025. Þegar horft er á lengri tíma sparnað eins og lífeyrissparnað er mikilvægt að minna sig á að ávöxtun til lengri tíma er það sem mestu máli skiptir og ekki er óeðlilegt að það verði nokkrar sveiflur á milli ára. Þá eru sveiflur í áhættumeiri fjárfestingarleiðunum alla jafnan meiri á milli ára en á móti koma væntingar um hærri langtímaávöxtun.


Áhættudreifing leiðarljós í fjárfestingum
Fjárfestingarleiðirnar hafa mismunandi fjárfestingarstefnu og fela í sér mismunandi áhættu. Við val á leið er rétt að hafa í huga væntanlegan útgreiðslualdur og viðhorf til áhættu. Fjárfest er í mismunandi eignaflokkum, eignum, landssvæðum og gjaldmiðlum til að ná fram áhættudreifingu. Markmiðið er að dreifa áhættunni á þann veg að þótt lækkun verði á ákveðnum eignaflokki, á ákveðinni tegund eigna eða innan ákveðins landsvæðis eru líkur á að hún vinnist að hluta upp í hækkun af öðrum og dragi þannig úr sveiflum á ávöxtun á viðkomandi fjárfestingarleið í heild.
Upplýsingar um ávöxtun, fjárfestingarstefnu og eignasamsetningu leiðanna er að finna á vef sjóðsins.