Frétt
Frjálsi lífeyrissjóðurinn hlýtur alþjóðleg verðlaun fyrir bestu samsetningu lífeyrissparnaðar í Evrópu
09. desember 2025Frjálsi var nýlega valinn besti lífeyrissjóður Evrópu í þemaflokknum Uppbygging lífeyrissjóða (e. Defined Contribution and Hybrid Strategies) af fagtímaritinu Investment Pension Europe. Þetta eru sextándu verðlaun Frjálsa í keppninni en hann deilir þeim að þessu sinni með breskum lífeyrissjóði. Það er óhætt að segja að þetta sé mikill heiður fyrir sjóðinn en þetta er í annað sinn sem Frjálsi ber sigur úr býtum í þemaflokki í þessari keppni.
Arnaldur Loftsson, framkvæmdastjóri Frjálsa, segir að um sé að ræða virtustu verðlaun sem sjóðurinn hefur fengið. Samkeppnin sé gríðarlega hörð og margir af stærstu og öflugustu lífeyrissjóðum Evrópu taki þátt í keppninni.
„Verðlaunin eru frábær viðurkenning fyrir þá samsetningu lífeyrissparnaðar sem Frjálsi býður sjóðfélögum sínum þar sem 15,5% af skylduiðgjaldinu er skipt í séreign og samtryggingu. Sjóðfélagar njóta þess að séreignin, sem getur verið allt að 76% af skylduiðgjaldinu, veitir erfanleika og sveigjanleika en samtryggingin mikilvæga tryggingavernd.“
Arnaldur segir enn fremur ánægjulegt að í vitnisburði dómnefndar hafi verið minnst á þá miklu áherslu sem sjóðurinn leggur á að gæta hagsmuna sjóðfélaga sinna. Þá fær Frjálsi hrós fyrir skilvirka stafræna þróun; sjóðfélagar geta með einföldum hætti nálgast upplýsingar um lífeyrissparnaðinn sinn í Arion appinu og framkvæmt þar helstu aðgerðir.
„Frjálsi leggur áherslu á hagstæða samsetningu lífeyrissparnaðar, valfrelsi og stafræna þjónustu fyrir sjóðfélaga og eru þetta þeir þættir sem voru lykillinn að verðlaununum. Verðlaunin eru okkur hvatning til að halda áfram að standa okkur vel í tæknilausnum og daglegum rekstri til að bæta þjónustu enn frekar við sjóðfélaga og launagreiðendur,“ segir Arnaldur.
Í umsögn dómnefndar sagði:
Frjálsi was selected as joint winner in this category for its impressive offering within the tight constraints imposed by the Icelandic pension system – constraints considered prudent given the scale of the country’s economy and currency. The fund has shown notable innovation in creating a pension model that blends collective defined contribution (CDC [samtrygging]) and DC [séreign] features while maintaining a clear focus on member outcomes. Its commitment to member support, combined with effective digitalisation and strong investment design, marks it out as an outstanding example of how a smaller market can still achieve excellence. Frjálsi’s model demonstrates resilience, adaptability, and thoughtful governance, making it a worthy joint winner.
Verðlaunaafhendingin hefur verið haldinn frá árinu 2001 og fór hún að þessu sinni fram í Sevilla á Spáni. Um 460 manns sóttu viðburðinn.

Á myndinni má sjá Arnald Loftsson framkvæmdastjóra Frjálsa með verðlaunin. Hjá honum standa Jeroen M. Tielman frá QStone Capital sem afhenti verðlaunin, Hjörleifur Arnar Waagfjörð, forstöðumaður eignastýringar fagfjárfesta á Mörkuðum hjá Arion og Sigrún Hauksdóttir, forstöðumaður þróunar og reksturs á Mörkuðum hjá Arion.
IPE er eitt virtasta tímarit Evrópu um lífeyrismál og hefur veitt verðlaunin árlega frá árinu 2001. Hér má lesa sér betur til um verðlaunin.