Frétt
Ávöxtun Frjálsa á fyrstu níu mánuðum ársins
24. október 2025
Eftir mjög sterka ávöxtun á mörkuðum árið 2024 hefur orðið viðsnúningur árið 2025. Þær fjárfestingarleiðir sem vega þyngst í skuldabréfum hafa skilað hæstu ávöxtun það sem er af árinu en nafnávöxtun fjárfestingarleiða var á bilinu -0,3% til 5,3% sem skilar raunávöxtun á bilinu -3,7% til 2,2%. Ávöxtun tryggingadeildar mun liggja fyrir við útgáfu ársreiknings sjóðsins.
Árið 2024 var mjög jákvætt ár, þar sem þær fjárfestingarleiðir sem vega þyngst í hlutabréfum skiluðu hæstu ávöxtun á því tímabili. Nafnávöxtun árið 2024 var á bilinu 8,9% til 15,3% sem skilaði raunávöxtun á bilinu 4,1% til 10,5%.
Markaðsaðstæður síðustu ára undirstrika mikilvægi þess að vera með dreift eignasafn til þess að standast sveiflur á mörkuðum. Frjálsi lífeyrissjóðurinn leggur upp úr því að fjárfesta í ólíkum eignaflokkum, atvinnugreinum og landsvæðum til þess að dreifa áhættu sem mest.
Þróun markaða
Fyrstu níu mánuðir ársins 2025 hafa einkennst af aðlögun eftir viðburðaríkt ár 2024. Þótt vaxtastig sé enn hátt og þrálát verðbólga, þá hefur öflug ferðaþjónusta skapað jákvæðari markaðsaðstæður. Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur haldið stýrivöxtum óbreyttum í 7,5%, í samræmi við væntingar markaðarins og næsta vaxtaákvörðun peningastefnunefndar verður 19. nóvember nk. Verðbólga sl. 12 mánuði mælist nú 4,1% (3,2% án húsnæðis) og hefur hjaðnað milli ára þó hún sé enn yfir markmiði Seðlabankans.
Efnahagsumsvif hafa dregist lítillega saman á árinu og meðalatvinnuleysi á fyrstu níu mánuðum ársins stendur í 4,1% og jókst um 0,6% á milli ára. Hagvöxtur helst þó áfram jákvæður og Hagstofa Íslands spáir 2,2% vexti á árinu 2025. Ferðaþjónustan hefur verið drifkraftur hagkerfisins og styrkt útflutningsgrunn þjóðarbúsins, á meðan krónan hefur haldist sterk. Verðbólguþrýstingur er þó enn til staðar, aðallega drifinn áfram af launahækkunum og spennu á húsnæðismarkaði.
Á hlutabréfamörkuðum hefur þróunin verið blendin. Vísitalan S&P 500 hefur hækkað um 14,8% í bandaríkjadal en 0,2% í íslenskum krónum og MSCI heimsvísitala um 16,2% í bandaríkjadal en aðeins 1,4%, í íslenskum krónum á fyrstu níu mánuðum ársins, drifin áfram af áframhaldandi vexti tæknifyrirtækja og væntingum um frekari vaxtalækkanir erlendis. Þróun á innlendum markaði hefur verið neikvæð, þar sem hlutabréfavísitalan OMXI15 hefur lækkað um 10%. Einungis fimm félög í kauphöllinni hafa sýnt jákvæða ávöxtun á fyrstu 9 mánuðum ársins. Þetta má rekja til varfærni fjárfesta og hamlandi áhrifa hárra vaxta á innlenda fjárfestingu og áhættuþol.
Þróunin á skuldabréfamarkaði hefur verið fremur stöðug það sem af er ári. Á styttri endanum hefur ávöxtunarkrafa verðtryggðra ríkisskuldabréfa hækkað, en óverðtryggðra lækkað lítillega. Á lengri endanum hefur ávöxtunarkrafa óverðtryggðra bréfa hins vegar hækkað. Afleiðingin er flatari vaxtarferill sem endurspeglar væntingar markaðarins um áframhaldandi háa vexti sem þó fara lækkandi á næstu misserum.
Langtímaávöxtun
Hér fyrir neðan má sjá ávöxtun á ársgrundvelli til 5 ára og 10 ára m.v. 30.09.2025 . Þegar horft er á lengri tíma sparnað eins og lífeyrissparnað er mikilvægt að minna sig á að ávöxtun til lengri tíma er það sem mestu máli skiptir og ekki er óeðlilegt að það verði nokkrar sveiflur á milli ára. Þá eru sveiflur í áhættumeiri fjárfestingarleiðunum alla jafnan meiri á milli ára en á móti koma væntingar um hærri langtímaávöxtun.


Áhættudreifing leiðarljós í fjárfestingum
Fjárfestingarleiðirnar hafa mismunandi fjárfestingarstefnu og fela í sér mismunandi áhættu. Við val á leið er rétt að hafa í huga væntanlegan útgreiðslualdur og viðhorf til áhættu. Fjárfest er í mismunandi eignaflokkum, eignum, landssvæðum og gjaldmiðlum til að ná fram áhættudreifingu. Markmiðið er að dreifa áhættunni á þann veg að þótt lækkun verði á ákveðnum eignaflokki, á ákveðinni tegund eigna eða innan ákveðins landsvæðis eru líkur á að hún vinnist að hluta upp í hækkun af öðrum og dragi þannig úr sveiflum á ávöxtun á viðkomandi fjárfestingarleið í heild. Upplýsingar um ávöxtun, fjárfestingarstefnu og eignasamsetningu leiðanna er að finna á vef sjóðsins.