Frétt
Vangreidd lífeyrissjóðsiðgjöld vegna ársins 2024
07. október 2025Frjálsi hefur nú sent út greiðsluáskoranir og stofnað kröfur í netbanka vegna ógreiddra lífeyrissjóðsiðgjalda fyrir árið 2024 en greiða þarf iðgjald í lífeyrissjóð af öllum launatekjum/reiknuðu endurgjaldi, ekki bara af grunnlaunum eða aðalstarfi.
Hafir þú fengið kröfu viljum við biðja þig vinsamlega um að greiða hana sem fyrst eða semja um greiðslur eigi síðar en 15. desember 2025. Upplýsingar munu berast í pósti á næstu dögum.
Athugið að mikið álag er á símkerfi okkar þessa dagana svo við höfum tekið saman svör við nokkrum algengum spurningum.
Hvers vegna er að berast krafa frá Frjálsa?
Frjálsi fékk fyrirmæli frá Skattinum um að innheimta vangreidd lífeyrisiðgjöld tekjuársins 2024, en Skatturinn hefur nýlega lokið árlegum samanburði á tekjuskattskilum og lífeyrisgreiðslum.
Hvað er verið að innheimta?
Verið er að innheimta vangreidd iðgjöld vegna ársins 2024, því árlegur samanburður Skattsins leiddi í ljós mismun þ.e. að farist hafi fyrir að greiða iðgjöld fyrir ýmist einn eða fleiri mánuði ársins. Dæmi um ástæður:
- Það gæti hafa vantað greiðslu, skilagrein eða hvorttveggja
- Mótframlag gæti hafa verið rangt
- Skylduiðgjald gæti hafa verið ranglega skráð sem viðbótariðgjald
Hvað á að greiða hátt hlutfall af launum?
Samkvæmt lögum um lífeyrissjóði nr. 129/1997 er lágmarksiðgjald í lífeyrissjóð 15,5% af heildarlaunum. Lífeyrissjóðum ber enn fremur að innheimta 0,10% starfsendurhæfingargjald og skila til VIRK starfsendurhæfingarsjóðs.
Af hverju eru dráttarvextir reiknaðir frá 10. janúar?
Þar sem um er að ræða vangreidd iðgjöld frá árinu 2024 þá er eindagi iðgjaldanna liðinn. Samkvæmt lögum um lífeyrissjóði er gjalddagi tíundi dagur næsta mánaðar eftir launamánuð og eindagi iðgjalda síðasti virki dagur næsta mánaðar eftir launamánuð en dráttarvextir reiknast frá gjalddaga.
Dæmi: iðgjöld vegna launa fyrir mars 2024 voru á eindaga 30. apríl 2024. Launagreiðendum bar því að ljúka greiðslu allra iðgjalda tekjuársins 2024 í síðasta lagi þann 31. janúar 2025. Þar sem greiðsla barst ekki innan tilskilins tíma reiknast dráttarvextir frá og með gjalddaga 10. janúar 2025.
Af hverju er þessi krafa að berast fyrst núna?
Á hverju hausti framkvæmir Skatturinn samanburð á tekjuskattskilum og lífeyrisgreiðslum síðasta árs. Ef samanburður leiðir í ljós mismun þá fá lífeyrissjóðir fyrirmæli um innheimtu frá Skattinum.
Er einhver hætta á að kostnaðurinn verði enn meiri?
Verði krafan ekki greidd fyrir 15. desember 2025, eða um hana samið, verður hún send í frekari innheimtu án viðvörunar. Athugið að slíkt hefur í för með sér aukinn kostnað en það er auðvelt að komast hjá honum ef brugðist er við hratt og örugglega.
Er hægt að semja um að greiðsludreifingu?
Já, aðeins er tekið við óskum um greiðsludreifingu í tölvupósti á skilagreinar@arionbanki.is en taka þarf fram nafn og kennitölu greiðanda. Dráttarvextir halda áfram að reiknast á eftirstöðvar þar til höfuðstóll er að fullu greiddur.
En hvað ef ég fæ kröfu frá SL lífeyrissjóði?
SL lífeyrissjóður hefur jafnframt sent út greiðsluáskoranir, byggðar á upplýsingum frá Skattinum, til þeirra sem greiddu ekkert í lífeyrissjóð vegna ársins 2024. Sé vilji til að greiða frekar í Frjálsa er hægt að óska eftir því að Frjálsi yfirtaki kröfuna.
Til þess að Frjálsi geti yfirtekið kröfu þarf að senda beiðni um yfirtöku í tölvupósti á skilagreinar@arionbanki.is. Beiðninni þarf að fylgja afrit eða mynd af greiðsluáskoruninni frá SL eða skjáskot af kröfu úr netbanka með sundurliðun á höfuðstól, dráttarvöxtum og kostnaði.
Frestur til að yfirtaka kröfur frá SL er til 2. desember 2025.
Fyrir nánari upplýsingar er hægt að hafa samband í síma 444 6500 eða á netfangið launagreidendur@frjalsi.is en öllum tölvupóstum verður svarað eins fljótt og kostur er. Síminn er opinn frá kl. 10-15 alla virka daga. Á frjalsi.is/launagreidendur má finna ýmsar gagnlegar upplýsingar.