Frétt
Starfsemi Frjálsa árið 2024
08. apríl 2025Góð ávöxtun og metfjöldi greiðandi sjóðfélaga
Rekstur Frjálsa gekk vel á árinu 2024, góð ávöxtun og metfjöldi greiðandi sjóðfélaga einkenndi árið. Ársreikningur sjóðsins fyrir árið 2024 liggur nú fyrir og er aðgengilegur hér. Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:
- Hrein eign Frjálsa nam 532,8 milljörðum kr. og stækkaði sjóðurinn um 78,3 milljarða kr. eða um 17,2%. Hrein eign fjárfestingarleiða í séreignadeild var 354,3 milljarðar kr. og hrein eign tryggingadeildar var 178,5 milljarðar kr.
- Heildariðgjöld voru 35,6 milljarðar og hækkunin nam um 14,5% á milli ára.
- Metfjöldi sjóðfélaga sem greiddi iðgjöld í sjóðinn á árinu var 27.726 samanborið við 26.401 á fyrra ári. Fjöldi sjóðfélaga sem átti séreign eða réttindi í lok árs var 72.640 og fjölgaði þeim um 2.763 á árinu.
- Lífeyrisgreiðslur hækkuðu um 16,9% milli ára og námu 9,6 milljörðum kr. Lífeyrisþegar voru 7.341. Greiddir voru 1,7 milljarðar kr. af viðbótarsparnaði inn á höfuðstól lána eða til öflunar íbúðarhúsnæðis.
- Nýjum lánveitingum fjölgaði á milli ára. Á árinu voru afgreidd 276 lán að fjárhæð 8.144 milljónir. Af nýjum lánum voru 30% óverðtryggð og 70% verðtryggð.
- Hreinar fjárfestingartekjur sjóðsins námu 54,8 milljörðum. Nafnávöxtun fjárfestingarleiða var á bilinu 8,9% til 15,3% og raunávöxtun á bilinu 4,0% til 10,0%. Nánari upplýsingar um ávöxtun og þróun verðbréfamarkaða er að finna hér.
- Kostnaðarhlutfall sjóðsins, þ.e. hlutfall rekstrarkostnaðar og beinna fjárfestingargjalda af meðalstöðu hreinnar eignar lækkaði og var 0,21%, samanborið 0,22% árið 2023.
- Í árslok 2024 voru eignir umfram áunnar skuldbindingar (áunnin staða) -4,8% og núvirt framtíðariðgjöld umfram núvirtar framtíðarskuldbindingar (framtíðarstaða) voru 2,8%. Heildareignir umfram heildarskuldbindingar (heildarstaða) voru -1,1%. Tryggingafræðileg staða Frjálsa lífeyrissjóðsins er innan lagalegra marka og þarf því ekki að gera breytingar á réttindum sjóðfélaga.
Nánari upplýsingar um ársuppgjörið er að finna í ársreikningnum.
Lykilupplýsingar hafa nú verið uppfærðar á vefsíðu sjóðsins til samræmis við upplýsingar í ársreikningi.