Frétt

Ávöxtun Frjálsa lífeyrissjóðsins á árinu

Ávöxtun Frjálsa lífeyrissjóðsins á árinu

Undanfarin ár á fjármálamörkuðum hafa verið afar sveiflukennd. Árið 2021 var sem dæmi með þeim bestu frá upphafi sjóðsins en árið 2022 markar eitt mest krefjandi ár á fjármálamörkuðum frá fyrri hluta síðustu aldar. Ávöxtun Frjálsa var af þeim sökum neikvæð í öllum fjárfestingarleiðum nema í Frjálsa 3 það árið. Árið í ár fer þó betur af stað en fyrri helming þessa árs var nafnávöxtun fjárfestingarleiða á bilinu 3,5% til 4,3%. Þrálát verðbólga spilar þó veigamikinn þátt og bítur töluvert í raunávöxtun fjárfestingarleiða sem liggur á bilinu -1,7% til -1,0%.

Verðbólga mældist 8,9% í júní og hefur hjaðnað undanfarna mánuði en hún fór hæst upp í 10,2% í febrúar sl. Peningastefnunefnd Íslands hækkaði vexti um 2,75 prósentustig á fyrri helmingi ársins og eru þeir nú 8,75%. Ávöxtunarkrafa bæði óverðtryggðra og verðtryggðra innlendra ríkisskuldabréfa hækkaði jafnframt á tímabilinu.

Gengi krónunnar styrktist um tæp 3% fyrstu sex mánuði ársins samkvæmt gengisvísitölu Seðlabankans sem er vegið virði helstu gjaldmiðla heims gagnvart krónunni.

Á fyrri helmingi þessa árs hélt innlendi hlutabréfamarkaðurinn áfram að lækka eftir miklar lækkanir á síðasta ári. Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands, OMXI10, lækkaði um 6,5% á tímabilinu (31.12.2022 – 30.06.2023). Erlendir hlutabréfamarkaðir hafa, ólíkt þeim innlenda, hækkað á árinu. Á fyrri helmingi ársins hækkaði heimsvísitala hlutabréfa (e. MSCI World Index) um 14,0% í Bandaríkjadal en um 9,5% í íslenskum krónum sökum styrkingar krónunnar á tímabilinu.

Ávöxtun lífeyrissjóða er í eðli sínu háð markaðsaðstæðum hverju sinni, til skamms tíma getur ávöxtunin verið sveiflukennd en vissulega má gera ráð fyrir að sveiflur jafni sig yfir tíma. Á myndunum hér að neðan má sjá meðalávöxtun Frjálsa lífeyrissjóðsins til 5 og 10 ára m.v. 30. júní 2023.

Áhættudreifing leiðarljós í fjárfestingum

Fjárfestingarleiðirnar sem í boði eru hjá Frjálsa hafa mismunandi fjárfestingarstefnu og fela í sér mismunandi áhættu. Við val á leið er rétt að hafa í huga væntanlegan útgreiðslualdur og viðhorf til áhættu. Fjárfest er í mismunandi eignaflokkum, eignum, landssvæðum og gjaldmiðlum til að ná fram áhættudreifingu. Markmiðið er að dreifa áhættunni á þann veg að þótt lækkun verði á ákveðnum eignaflokki, á ákveðinni tegund eigna eða innan ákveðins landsvæðis eru líkur á að hún vinnist að hluta upp í hækkun af öðrum og dragi þannig úr sveiflum á ávöxtun á viðkomandi fjárfestingarleið í heild.

Upplýsingar um ávöxtun, fjárfestingarstefnu og eignasamsetningu leiðanna er að finna á vef sjóðsins.