Frétt

Samkomulag um að ljúka máli með sátt

Samkomulag um að ljúka máli með sátt

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME) hefur birt gagnsæistilkynningu þar sem fram kemur að stofnunin og Frjálsi lífeyrissjóðurinn hafi lokið máli með sátt. Tildrög málsins eru að mannleg mistök leiddu til þess að rekstraraðili sjóðsins, Arion banki, tilkynnti ekki tímanlega til Kauphallar um breytingar á eignarhlut Frjálsa í Reitum fasteignafélagi hf. Vegna sölu á eignarhlut í félaginu þann 17. nóvember 2021 fór eignarhluturinn úr 5,05% í 4,99% en tilkynna þarf um breytingar ef eignarhlutur fer yfir eða undir m.a. 5% mörk eigi síðar en fjórum dögum eftir viðskiptin.

Frjálsi og Arion banki höfðu frumkvæði af því að tilkynna um brotið til FME og nú fyrir skömmu var samið um að sjóðurinn greiddi 1,2 milljónir kr. sektargreiðslu í ríkissjóð. Við mat á sektarfjárhæð var m.a. horft til þess að Frjálsi átti frumkvæði að því að tilkynna um brotið og gripið hefur verið til aðgerða til að koma í veg fyrir að sambærilegt brot geti átt sér stað. Þá var einnig horft til þess að Frjálsi hefur ekki áður fengið sekt vegna brots gegn ákvæðum laga á fjármálamarkaði.

Þess ber að geta að Arion og Frjálsi hafa samið um að bankinn greiði Frjálsa fjárhæð sem nemur sektargreiðslunni á grundvelli rekstrarsamnings bankans og sjóðsins.