Frétt

Vegna umfjöllunar um réttindastöðu sjóðfélaga Frjálsa lífeyrissjóðsins í samanburði við tvo aðra lífeyrissjóði

Vegna umfjöllunar um réttindastöðu sjóðfélaga Frjálsa lífeyrissjóðsins í samanburði við tvo aðra lífeyrissjóði

 • Framsetning á réttindastöðu sjóðfélaga Frjálsa í samanburði við Almenna lífeyrissjóðinn og Lífeyrissjóð verzlunarmanna (LIVE), sem frambjóðandi til stjórnar hefur birt og er að finna á ýmsum miðlum, er misvísandi og villandi. Í samanburðinum er gert ráð fyrir að meðalávöxtun sl. fjögurra ára hjá hverjum sjóði verði hin sama á hverju ári næstu 45 ár og útreikningur framtíðarréttinda í samtryggingarsjóði er byggður á henni. Gert er ráð fyrir að framtíðarréttindi sjóðfélaga annars sjóðsins verði 150% hærri en framtíðarréttindi sjóðfélaga Frjálsa eftir 45 ár, m.a. byggt á því að raunávöxtun viðkomandi sjóðs verði 9,9% á ári. Slík vænt langtímaávöxtun verður að teljast óraunhæf, auk þess sem ekki er í samanburðinum tekið tillit til annarra þátta sem hafa áhrif á réttindaávinnslu sjóðfélaga í samtryggingarsjóðum.
   
 • Raunveruleg staða byggt á þróun síðustu 20 ára hjá sjóðunum leiðir í ljós að áætluð réttindastaða sjóðfélaga Frjálsa í samtryggingasjóði er hærri en sjóðfélaga Almenna lífeyrissjóðsins og LIVE.*

Til skýringar eru hér birt tvö dæmi:

1) Lífeyrisréttindi yfir 20 ára tímabil, iðgjöld ekki greidd á tímabilinu

Sjóðfélagi sem átti 100 þús. kr. í mánaðarleg áunnin réttindi árið 2002 og greiddi ekki frekari iðgjöld ætti í dag réttindi að fjárhæð 302 þús. kr. hjá Frjálsa en 227 þús. kr. í Almenna og 252 þús. kr. í LIVE. Ástæðan er mismunandi breytingar á áunnum réttindum á tímabilinu hjá sjóðunum.

2) Ávinnsla lífeyrisréttinda yfir 20 ára tímabil, iðgjöld greidd á tímabilinu

Áætluð réttindi í lok tímabils, m.a. að teknu tilliti til réttindabreytinga sjóðanna:

 • Frjálsi: 3.160 þús. árleg réttindi, eða um 263 þús. kr. á mánuði
 • Almenni: 2.737 þús. árleg réttindi, eða um 228 þús. kr. á mánuði
 • LIVE: 2.762 þús. árleg réttindi, um 230 þús. kr. á mánuði

Forsendur útreikninga í dæmi 2:

 • 28 ára sjóðfélagi þegar greiðslur hefjast árið 2002
 • Árlegt iðgjald breytist í hlutfalli við vísitölu neysluverðs
 • Gert er ráð fyrir einni greiðslu á ári sem nemur 300 þús. kr. sem uppfærist miðað við meðalvísitölu neysluverðs hvers árs
 • Fyrsta ár: 2002, síðasta ár: 2021. Lokaréttindi m.v. meðalvísitölu neysluverðs 2021
 • Taka ellilífeyris hefst við 70 ára aldur
 • Hækkun réttinda á tímabilinu hækki áunnin réttindi sjóðfélaga í samtryggingarsjóði

*Upplýsingar sem útreikningar eru byggðir á eru fengnar úr samþykktum, opinberum ársskýrslum sjóðanna og skýrslu úttektarnefndar Landssamtaka lífeyrissjóða.