Frétt

Áherslur fjárfestingarstefnu Frjálsa 2022

Áherslur fjárfestingarstefnu Frjálsa 2022

Stjórn Frjálsa hefur mótað fjárfestingarstefnu fyrir árið 2022 og er hana í heild sinni að finna hér. Síðustu ár hefur áhersla verið á að auka hlutfall og dreifingu erlendra eigna og samhliða hefur verið dregið úr vægi innlendra eigna. Í fjárfestingarstefnu fyrir árið 2022 er haldið áfram á þessari vegferð en samantekið eru helstu breytingar þær að vægi erlendra eigna og hlutabréfa er aukið en á móti er dregið úr vægi skuldabréfa.

Tryggingadeild

Fjárfestingarstefna Tryggingadeildar hefur verið heldur aðhaldssöm í gegnum árin með það að markmiði að lágmarka sveiflur í ávöxtun og líkur á að skerða þurfi réttindi sjóðfélaga. Við mótun stefnu tryggingadeildar hefur jafnframt verið litið til þess að skylduiðgjöldum sjóðfélaga er skipt í tryggingadeild og séreignadeild og geta sjóðfélagar sjálfir valið sér fjárfestingarleið og þar með áhættustig þess hluta iðgjaldsins sem rennur í séreign. Vegna lækkandi vaxtaumhverfis var áhætta tryggingadeildar aukin á síðasta ári og þeirri vegferð er haldið áfram í ár. Þrátt fyrir það er stefna hennar enn aðhaldssöm í samanburði við margar aðrar tryggingadeildir lífeyrissjóða. Breytingar á stefnunni í ár eru gerðar til þess að nýta þau tækifæri sem skapast í lágvaxtaumhverfi og þannig stuðla að hærri langtímaávöxtun. Markmið um hlutfall eignaflokka hjá tryggingadeild breytast eins og hér segir:

  • Innlend skuldabréf lækka úr 59% í 53%
  • Innlend skráð hlutabréf hækka úr 11% í 13%
  • Erlend hlutabréf hækka úr 20% í 22%
  • Erlendar sérhæfðar fjárfestingar hækka úr 5% í 7%

Frjálsi áhætta

Undanfarin ár hefur fjárfestingarleiðin Frjálsi áhætta stækkað töluvert. Á síðasta ári var skerpt nokkuð á áhættu leiðarinnar til að aðgreina hana frekar frá öðrum fjárfestingarleiðum sjóðsins. Helstu áherslur fjárfestingarstefnu 2022 eru að auka vægi hlutabréfa og hlutabréfatengdra afurða og þar með skerpa enn frekar á áhættu leiðarinnar. Fjárfestingu í hlutabréfum og hlutabréfatengdum afurðum fylgir almennt meiri sveiflur í ávöxtun en í skuldabréfum. Að sama skapi er vænt langtímaávöxtun þeirra hærri. Markmið um hlutfall eignaflokka hjá Frjálsa áhættu breytast eins og hér segir:

  • Innlend skuldabréf lækka úr 32% í 28%
  • Innlend skráð hlutabréf hækka úr 21% í 25%
  • Erlend hlutabréf hækka úr 38% í 40%
  • Erlendar sérhæfðar fjárfestingar hækka úr 5% í 6%

Fjárfestingarleiðir Ævilínu - Frjálsi 1, 2 og 3

Markmið um hlutfall eignaflokka hjá fjárfestingarleiðum ævilínu breytast eins og hér segir:

  • Erlendar eignir Frjálsa 1 hækka úr 40% í 42% og Frjálsa 2 úr 20% í 21%
  • Innlend skuldabréf hjá Frjálsa 1 lækka úr 43% í 38% og hjá Frjálsa 2 úr 72% í 69%
  • Innlend hlutabréf hjá Frjálsa 1 hækka úr 17% í 20% og hjá Frjálsa 2 úr 8% í 10% en hækkunin tekur óskipt til skráðra verðbréfa hjá báðum leiðum

Eignir í Frjálsa 3 eru einungis byggðar upp á innlendum skuldabréfum og innlánum. Í fjárfestingarstefnu 2022 eru helstu breytingar þær að vægi í markmiði fasteignaveðtryggðra skuldabréfa lækka úr 18% í 15%. Á móti eykst vægi skuldabréfa sveitarfélaga úr 6% í 9%.

Á eftirfarandi mynd má sjá markmið um eignasamsetningu hverrar leiðar fyrir sig.