Frétt

Vegna umfjöllunar um ávöxtun og kostnað Frjálsa í samanburði við Almenna lífeyrissjóðinn í fjölmiðlum

Vegna umfjöllunar um ávöxtun og kostnað Frjálsa í samanburði við Almenna lífeyrissjóðinn í fjölmiðlum

  • Ávöxtun Frjálsa eftir kostnað er hærri en hjá Almenna lífeyrissjóðnum skv. samanburði á vef Landssamtaka lífeyrissjóða
  • Misvísandi framsetning á muni á kostnaði sjóðanna vegna fjárfestinga

Í fréttum Bylgjunnar sl. sunnudag kom fram sú gagnrýni að munur á kostnaði Frjálsa lífeyrissjóðsins og Almenna lífeyrissjóðsins vegna fjárfestinga sjóðanna væri að jafnaði 500 milljón kr. á ári.

Samhengi á milli ávöxtunar og kostnaðar

Rétt er að taka fram að sú framsetning á kostnaði sjóðanna er misvísandi. Munur á heildarkostnaði sjóðanna 2019 var 245 milljónir kr. eða 0,06 prósentustig (sjá töflu).

Það sem skiptir sjóðfélaga þó mestu máli er langtímaávöxtun eftir kostnað en ekki ávöxtun einstakra ára. Á vef Landssamtaka lífeyrissjóða er að finna samanburð á 5 og 10 ára ávöxtun allra lífeyrissjóða, þ.m.t. samtryggingardeilda Frjálsa og Almenna og einstakra fjárfestingarleiða þeirra í séreignadeild. Samanburðurinn sýnir að ávöxtun samtryggingar og séreignaleiða Frjálsa er jafnhá eða hærri en sambærilegra leiða hjá Almenna. 

Nánari upplýsingar um kostnað

Við samanburð á kostnaði lífeyrissjóða er hann að jafnaði reiknaður sem hlutfall af eignum svo hægt sé að meta áhrif hans á ávöxtun og bera hann saman á milli lífeyrissjóða sem eru ólíkir að stærð. Kostnaður sem tengist stýringu eigna er breytilegur og helst í hendur við stærð sjóða. Þess vegna er heildarkostnaður stærri sjóða yfirleitt hærri í krónum en kostnaður minni sjóða. T.d. eru áætluð fjárfestingargjöld LSR, stærsta lífeyrissjóðsins, 2,3 milljarðar árið 2019 en Frjálsa 597 milljónir. Sem hlutfall af eignum er þessi kostnaður Frjálsa þó lægri.

Kostnaði lífeyrissjóða er skipt í rekstrarkostnað, bein fjárfestingargjöld og áætluð fjárfestingargjöld. Rekstrarkostnaður og bein fjárfestingargjöld, sem oft kallast beinn kostnaður, eru gjaldfærð í ársreikningi undir yfirliti um breytingar á hreinni eign (rekstrarreikningi). Greint er frá áætluðum fjárfestingargjöldum í skýringum en þau hafa verið dregin frá fjárfestingartekjum í rekstrarreikningi.

  • Rekstrarkostnaður er t.d. hluti af umsýsluþóknun vegna útvistunar á rekstri, launakostnaður, kostnaður vegna tölvukerfa og endurskoðunar og ýmis lögbundin gjöld.
  • Bein fjárfestingargjöld eru t.d. vörsluþóknun, kostnaður vegna verðbréfasviðskipta og kostnaður vegna útvistunar á eignastýringu til fjármálafyrirtækis.
  • Áætluð fjárfestingargjöld, oft kölluð óbein fjárfestingargjöld, endurspegla kostnað við rekstur sjóða sem lífeyrissjóðir fjárfesta í hjá sjóðastýringarfélögum og dregst frá ávöxtun sjóðanna.

Sundurliðun á kostnaði Frjálsa og Almenna árið 2019

  Frjálsi


Hlutfall af meðaleign á markaðsvirði   Almenni


Hlutfall af meðaleign á markaðsvirði
  Mismunur


Mismunur í %

Rekstrarkostnaður
488.593
0,18%
   753.910
0,30%
   -265.317
-0,12%
Bein fjárfestingargjöld
317.470
0,12%
  17.849
0,01%
  299.621
0,11%
Samtals gjaldfært
806.063
0,30%
  771.759
0,31%
  34.304
-0,01%
                 
Áætluð fjárfestingargjöld
596.926 0,23%
  386.264
0,15%
  210.662
0,07%
                 
Heildarkostnaður
1.402.989
0,53%
  1.158.023
0,46%
  244.966
0,06%

Fjárhæðir í þúsundum króna

Rekstarkostnaður og bein fjárfestingargjöld (beinn kostnaður)

Stærsti einstaki kostnaðarliður Frjálsa er umsýsluþóknun sjóðsins til Arion banka fyrir rekstur og eignastýringu en hann nam 0,24% af meðaleignum. Kostnaðinum er skipt þannig að 60% er rekstrarkostnaður og 40% eru bein fjárfestingargjöld. Sá hluti sem er færður undir bein fjárfestingargjöld er vegna þess hluta útvistunar til Arion banka sem tengist eignastýringu sjóðsins. Almenni er með eigið starfsfólk sem sinnir eignastýringu og því ekki með sérstakan kostnaðarlið vegna útvistunar undir beinum fjárfestingargjöldum en kostnaður vegna eignastýringar sjóðsins (t.d. launakostnaður og kostnaður vegna tölvukerfa sem tengjast eigna- og áhættustýringu) bókast því sem hluti af rekstrarkostnaði.

Samanburður á samanlögðum beinum og áætluðum fjárfestingargjöldum sjóðanna, þar sem munar um 510 milljónum kr., gefur því misvísandi niðurstöðu um kostnað sjóðanna vegna fjárfestinga þeirra. Með sama hætti væri samanburður á rekstrarkostnaði sjóðanna misvísandi þar sem kostnaður Frjálsa er 265 milljón kr. lægri en hjá Almenna.

Til að bera saman kostnaðarhlutfall sjóðanna vegna þess hluta kostnaðar sem eru gjaldfærður í rekstrarreikningi þarf að leggja saman rekstrarkostnað og bein fjárfestingargjöld. Rekstarkostnaðarhlutfall Frjálsa var 0,01% lægra en hjá Almenna árið 2019 miðað við markaðsvirði meðaleigna sjóðanna á árinu.

Áætluð fjárfestingargjöld (óbeinn kostnaður)

Ástæðan fyrir 211 milljón kr. mismun á áætluðum fjárfestingargjöldum sjóðanna árið 2019 (0,06 prósentustig) er fyrst og fremst að Frjálsi fjárfestir meira í svokölluðum virkum sjóðum hjá sjóðastýringarfyrirtækjum sem hafa það markmið að gera betur en markaðurinn yfir lengra tímabil. Virkir sjóðir eru yfirleitt heldur dýrari en óvirkir sjóðir sem hafa það markmið að ná sama árangri og markaðurinn í heild að frádregnum kostnaði. Það hefur verið sýn Frjálsa til margra ára að virkir sjóðir skili hærri langtímaávöxtun en óvirkir sjóðir þegar tekið hefur verið tillit til alls kostnaðar þeirra.