Frétt

Hæsta raunávöxtun frá 2003

Hæsta raunávöxtun frá 2003

Það er ánægjulegt að greina frá því að á árinu 2019 skilaði fjárfestingarleiðin Frjálsi 1 sinni hæstu raunávöxtun frá árinu 2003, eða 12,4%. Það ár skilaði leiðin 16% raunávöxtun sem er sú hæsta í 41 árs sögu leiðarinnar. Frjálsi 1 er langstærsta og fjölmennasta leið Frjálsa lífeyrissjóðsins með eignir að fjárhæð um 140 milljarða í eigu tæplega 50 þúsund sjóðfélaga. Frjálsi áhætta, sem var stofnuð árið 2008, skilaði 13,7% raunávöxtun sem er næsthæsta ávöxtun frá stofnun leiðarinnar.

Árið 2019 var að flestu leyti hagfellt fyrir Frjálsa lífeyrissjóðinn. Nafnávöxtun fjárfestingarleiða sjóðsins var 6,2% til 16,7% á árinu sem samsvarar 3,4% til 13,7% raunávöxtun.

Að baki er viðburðaríkt ár á fjármálamörkuðum en sá eignaflokkur sem hækkaði mest á árinu voru erlend hlutabréf. Þrátt fyrir tíðindi í alþjóðlegum málum á borð við viðskiptastríð Bandaríkjanna og Kína og útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu skilaði heimsvísitala hlutabréfa 25,2% hækkun mælt í Bandaríkjadal sem þýðir um 30,2% í íslenskum krónum vegna veikingar krónunnar.

Ávöxtun á innlendum skuldabréfamarkaði var mjög góð á árinu en helstu drifkraftar voru lækkandi raunvaxtastig og lækkun á verðbólguálagi sem leiddi til hækkunar á virði skuldabréfa. Ávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa var 5,3% til 23% og ávöxtun verðtryggðra 3,7% til 8,9%. Lengstu skuldabréfin gáfu bestu ávöxtunina og óverðtryggð skuldabréf gerðu almennt betur en verðtryggð vegna lækkunar á verðbólguálagi.

Viðsnúningur átti sér stað á innlendum hlutabréfamarkaði eftir erfitt árferði undanfarin misseri en Úrvalsvísitala hlutabréfa hækkaði um 31,4% á árinu. Hækkun vísitölunnar orsakast þó að miklu leyti af gengisþróun Marel sem vegur stóran hlut í vísitölunni.

Ávöxtun fjárfestingarleiða Frjálsa árið 2019

  • Frjálsi Áhætta skilaði 16,7% nafnávöxtun og 13,7% raunávöxtun
  • Frjálsi 1 skilaði 15,4% nafnávöxtun og 12,4% raunávöxtun
  • Frjálsi 2 skilaði 10,4% nafnávöxtun og 7,5% raunávöxtun
  • Frjálsi 3 skilaði 6,2% nafnávöxtun og 3,4% raunávöxtun

Ávöxtun Frjálsa Tryggingadeildar liggur ekki fyrir fyrr en gerð ársreiknings er lokið.
 

 

Nánari upplýsingar um ávöxtun Frjálsa er að finna hér.