Frétt

Hækkun viðbótariðgjalds í 4% frá 1. júlí

Hækkun viðbótariðgjalds í 4% frá 1. júlí

Vakin er athygli á því að frá 1. júlí gefst starfandi einstaklingum á ný kostur á að leggja að hámarki 4% af launum í viðbótarlífeyrissparnað og draga frá skattskyldum tekjum, en þann 1. janúar 2012 var hámarksframlag lækkað tímabundið í 2%. Mótframlag launagreiðanda verður 2% eins og áður. Ef samningur um viðbótarlífeyrissparnað miðast við 2% framlag launþega þarf að skrifa undir breytingu á samningi til að nýta 4% heimildina, annars ætti launagreiðandi að hækka iðgjaldið í 4% frá 1. júlí. Þú getur hækkað viðbótariðgjald þitt í 4% hér.

Leiðréttingin

Frá og með 1. júlí verður jafnframt hægt að nýta viðbótariðgjöld skattfrjálst næstu þrjú árin, til að greiða niður höfuðstól húsnæðislána eða til húsnæðissparnaðar. Skattfrelsið takmarkast við 4% framlag launþega og 2% framlag launagreiðanda, að hámarki 500 þús. kr. á ári hjá einstaklingum og 750 þús. kr. hjá samsköttuðum einstaklingum. Það þýðir að einstaklingar með 694.444 kr. mánaðarlaun eða hærri ná að nýta sér skattleysið að fullu. Það sama gildir um samskattaða einstaklinga með að lágmarki samtals 1.041.667 kr. mánaðarlaun m.v. að launþegi greiði 4% og launagreiðandi 2% og að allt tímabilið sé nýtt.


Mikilvægt er að ganga úr skugga um það hjá vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar eða launagreiðanda að iðgjaldið hækki í 4% ef vilji er til þess að skattleysi viðbótarsparnaðar nýtist að fullu skv. ofangreindu.

Ert þú með viðbótarlífeyrissparnað?

Þeir sem ekki hafa verið að greiða í viðbótarlífeyrissparnað ættu alvarlega að íhuga það og nýta sér þannig skattfrelsið sem þessum úrræðum fylgja. Einstaklingar sem eru í fjárhagserfiðleikum ættu þó að hugsa sig tvisvar um því viðbótarlífeyrissparnaður tapast ekki við gjaldþrot og þá er betra að hafa ekki hreyft við honum.

Nánari upplýsingar um úrræðið er að finna á www.arionbanki.is/leidrettingin. Sótt er um úrræðið á vefsvæði ríkisskattstjóra www.leidretting.is