Frétt

Góð ávöxtun og tryggingafræðileg staða Frjálsa lífeyrissjóðsins

Góð ávöxtun og tryggingafræðileg staða Frjálsa lífeyrissjóðsins

Fjármálaeftirlitið hefur gefið út skýrslu með samantekt úr ársreikningum lífeyrissjóða landsins fyrir árið 2011. 

Meðal þess sem fram kemur í skýrslunni eru tölur yfir hreina raunávöxtun tryggingadeilda lífeyrissjóða. Að meðaltali nam hún um 2,3% hjá íslenskum lífeyrissjóðum árið 2011 en til samanburðar var hrein raunávöxtun Frjálsa lífeyrissjóðsins 3,6% á sama tímabili. 

Tryggingafræðilega staða Frjálsa lífeyrissjóðsins er einnig ein sú besta í árslok 2011, eða -0,4%, og eru aðeins þrír sjóðir með betri tryggingafræðilega stöðu í árslok.

Margt fleira áhugavert er að finna í skýrslunni en nálgast má skýrsluna sjálfa hér.

Helstu niðurstöður skýrslunnar eru:

  • Eignir íslenskra lífeyrissjóða sem hlutfall af vergri landsframleiðslu voru í árslok 2011 um 137% og var hlutfallið þá orðið hið sama og það var fyrir fall bankanna. 
  • Heildareignir lífeyrissjóða og vörsluaðila séreignarsparnaðar eru 2.230 milljarðar. 
  • Hrein raunávöxtun samtrygginga og séreignadeilda lífeyrissjóða miðað við neysluverðsvísitölu var 2,5% árið 2011. 
  • Séreignarsparnaður í vörslu lífeyrissjóða og annarra vörsluaðila í árslok 2011 nam 341ma.kr. 
  • Séreignarsparnaður í heild nam um 15% af heildareignum lífeyriskerfisins í árslok 2011. 
  • Samkvæmt lögum um lífeyrissjóði skal vera jafnvægi á milli eigna og skuldbindinga samtryggingadeilda lífeyrissjóða. Samtals voru 21 lífeyrissjóður án ábyrgðar launagreiðenda með neikvæða tryggingafræðilega stöðu í árslok 2011, en aðeins 3 með jákvæða stöðu.

Íslenska lífeyrissjóðakerfið er stórt, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, í alþjóðlegum samanburði. Sé horft til Evrópu er einungis Holland með hærra hlutfall en á eftir Íslandi kemur svo Sviss og Danmörk er í sjötta sæti hvað þetta varðar. Samtryggingarhluti íslenska lífeyrissjóðakerfisins er um 125% af vergri landsframleiðslu, það danska er um 50% og sænska lífeyrissjóðakerfið er síðan um 10% af vergri landsframleiðslu og í áttunda sætinu.

Lífeyrisgreiðslur hins opinbera, þ.e. almannatryggingar, eru lægra hlutfall af vergri landsframleiðslu á Íslandi en í öðrum Evrópulöndum og námu þær um 4% árið 2010. Stór ástæða þessa er sú hversu hátt hlutfall lífeyrisgreiðslna á Íslandi kemur frá lífeyrissjóðum landsmanna en ekki frá almannatryggingum. Hlutfall almannatrygginga var næst lægst í Sviss en þar var það yfir 6% og þar á eftir kemur Holland með tæp 7%. Af þessu má sjá að íslenska lífeyriskerfið er mikilvægur þáttur í því velferðarkerfi sem Íslendingar búa við og einnig mikilvægi þeirra fyrir afkomu ríkissjóða í hverju landi fyrir sig.