Frétt

Leiðrétting á rangfærslum um Frjálsa lífeyrissjóðinn í skýrslu úttektarnefndar

Leiðrétting á rangfærslum um Frjálsa lífeyrissjóðinn í skýrslu úttektarnefndar

Frjálsi lífeyrissjóðurinn vill koma á framfæri leiðréttingu á rangfærslum í skýrslu úttektarnefndar sem lúta að starfsemi Frjálsa lífeyrissjóðsins.

Á bls. 115 er fjallað um kaup og sölu sjóðsins á hlutabréfum í Kaupþingi banka
„Af hlutabréfaeign sinni tapaði Frjálsi lífeyrissjóðurinn mest í Kaupþingi eða 526 mkr. Kaupþing er eina skráða félagið sem sjóðurinn átti hlut í allt tímabilið sem er til skoðunar. Kaup sjóðsins á fyrsta ársfj. 2008 vekja nokkra athygli en þá voru keyptir 1.456 þús. hlutir að verðmæti um 1.169 mkr. Sjóðurinn seldi síðan á öðrum og þriðja ársfjórðungi 2008 samtals 1.384 þús. hluti í Kaupþingi en á mun lægra gengi en bréfin voru keypt á.“

Það er rangt að bréfin hafi verið seld á lægra gengi en þau voru keypt á. Hið rétta er að umrædd bréf voru seld með hagnaði á árinu 2008 en ekki með tapi eins og gefið er í skyn. Sjóðurinn fékk drög að yfirliti um sjóðinn til yfirlestrar til að leiðrétta hugsanlegar rangfærslur og var þetta ein af þeim rangfærslum sem sjóðurinn vakti athygli á og sendi hann úttektarnefndinni ítarlegar upplýsingar um viðskipti bréfanna. Þrátt fyrir þetta hefur textinn ekki verið leiðréttur í lokaeintaki skýrslunnar.

Á bls. 118 er fjallað um stöðu gjaldmiðlasamninga sjóðsins og hvernig hún er færð í ársreikning
„Krafa bankans er óhagstæðari Frjálsa lífeyrissjóðnum um 2.346 mkr. en ef gjaldmiðlasamningarnir væru gerðir upp m.v. gengisvísitöluna 175,0 stig. Það skal enn og aftur áréttað að versta mögulega staða fyrir sjóðinn hefur nú þegar verið færð inn í ársreikning sjóðsins að undanskilinni skuldajöfnunarkröfu sjóðsins að fjárhæð 568 mkr. sem slitastjórn bankans hefur fyrir sitt leyti hafnað. “

Það er rangt að í ársreikningi sjóðsins hafi ekki verið tekið tillit til höfnunar slitastjórnar á skuldajöfnunarkröfu sjóðsins að fjárhæð 568 milljónir króna vegna gjaldmiðlasamninga. Gerð er ítarleg grein fyrir þessu í skýringu 23 á bls. 14 í ársreikningi sjóðsins fyrir árið 2010. Það sama gildir um þessa rangfærslu eins og hina fyrri að sjóðurinn vakti athygli nefndarinnar á henni en þrátt fyrir það var hún ekki leiðrétt í lokaeintaki skýrslunnar.

Á bls. 125 er fjallað um upplýsingagjöf sjóðsins um verðbréfasjóði sem Frjálsi lífeyrissjóðurinn á í
„Það er þó athugunarvert að upplýsingar í ársreikningi eru af skornum skammti að því leyti að ekki kemur fram hvað lífeyrissjóðurinn á í sjóðum Kaupþings. “

Þetta er rangt. Í ársreikningum frá og með árinu 2008 hefur verið birt sundurliðun í skýringum ársreiknings á öllum skuldabréfasjóðum og hlutabréfasjóðum sem Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefur átt í.

Í því samhengi er einnig rétt að nefna að Frjálsi lífeyrissjóðurinn leggur mikla áherslu á gagnsæi eignasafnsins. Ársfjórðungslega eru birtar á vefsíðu sjóðsins upplýsingar um öll einstök verðbréf sjóðsins sem vega meira en 0,1% af stærð hverrar fjárfestingarleiðar. Sjá nánar hér.