Frétt

Skýrsla úttektarnefndar um lífeyrissjóði

Skýrsla úttektarnefndar um lífeyrissjóði

Frjálsi lífeyrissjóðurinn fagnar útgáfu skýrslu úttektarnefndar á starfemi lífeyrissjóða sem var gefin út og kynnt sl. föstudag. Skýrslan inniheldur m.a. úttekt á starfsemi lífeyrissjóða árin 2006 til 2010 og afleiðingar efnahagshrunsins á eignir sjóðanna.

Lærdómur af skýrslunni

Stjórn Frjálsa lífeyrissjóðsins og starfsmenn Arion banka sem koma að rekstri sjóðsins munu á næstu dögum fara vel yfir skýrsluna og taka til greina þær ábendingar skýrsluhöfunda sem sjóðurinn metur að tryggi betur starfshætti, eignastýringu og almennan rekstur sjóðsins til framtíðar.

Tap sjóðanna

Að meðaltali töpuðu lífeyrissjóðirnir 28% eigna sinna eða 480 milljörðum króna. Tap Frjálsa lífeyrissjóðsins var til samanburðar 17,8% eða 11,9 milljarðar. Ætla má að ef Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefði skilað sambærilegu tapi og meðaltap lífeyrissjóðanna í landinu, hefði tap sjóðsins orðið tæplega 7 milljörðum meira.

Myndin hér fyrir neðan sýnir tap lífeyrissjóðanna sem hlutfall af meðalstærð þeirra árið 2008. Lífeyrissjóðir sem eru með lægra hlutfallslegt tap eru allir minni en Frjálsi lífeyrissjóðurinn og í mörgum tilfellum lífeyrissjóðir sveitarfélaga með ábyrgð launagreiðanda sem hafa haft mjög varfærna fjárfestingarstefnu.

20 sjóðir töpuðu meira en 18% eigna sinna, þar af 9 sjóðir meira en 30%, en Frjálsi lífeyrissjóðurinn skipar sér í hóp þess þriðjungs lífeyrissjóða sem segja má að hafi komist einna skást frá efnahagshruninu.

 

Skýringar á hlutfallslega lægra tapi Frjálsa lífeyrissjóðsins

Meginástæða þess að Frjálsi lífeyrissjóðurinn er með hlutfallslega minna tap en flestir aðrir lífeyrissjóðir er að árin 2007 og 2008 var farið í markvissar aðgerðir til að minnka áhættu í eignasafni sjóðsins. Aðgerðirnar miðuðu að því að lækka hlutfall innlendra hlutabréfa og skuldabréfa fjármálastofnana og fyrirtækja en í staðinn að hækka hlutfall verðtryggðra ríkisskuldabréfa. Það voru einmitt fyrrgreind bréf sem sjóðurinn minnkaði verulega í eignasafni sínu sem ollu að stærstum hluta því tapi sem gerð er grein fyrir í skýrslunni, auk þess sem verðtryggð ríkisskuldabréfa hafa skilað mjög hárri ávöxtun frá árinu 2008.

Eins og kemur fram í skýrslunni þá var það mat eignastýringar sjóðsins árið 2007 að hætta væri á gjaldeyriskreppu á næstu misserum með tilheyrandi veikingu á gengi íslensku krónunnar sem myndi leiða af sér lækkun á verði innlendra hlutabréfa og skuldabréfa fyrirtækja og fjármálastofnana. Auk þess myndi verðbólga aukast samfara veikingu krónunnar. Sjóðstjórar gátu þannig á árunum 2007 og 2008 nýtt sér vikmörk í fjárfestingarstefnu til að draga verulega úr áhættu í eignasafni sjóðsins. Ef ekki hefði komið til þessarar áherslubreytinga í eignastýringu hefði tap sjóðsins orðið mun meira. Þess ber að geta að tap sjóðsins var mjög mismunandi eftir fjárfestingarleiðum. T.d. var tap Frjálsa 3, sem hentar eldri sjóðfélögum og þeim sem vilja taka litla áhættu, lítið en leiðin skilaði 23,6% nafnávöxtun á hrunárinu 2008.

Athugasemdir við mat á tapi sjóðanna

Þegar tap lífeyrissjóðanna er metið þarf m.a. að hafa eftirfarandi í huga:

  • Tap sjóðanna vegna lækkunar á virði hlutabréfa er m.v. markaðsvirði þeirra 1. janúar 2008 en ekki 30. september 2008 sem eru síðustu mánaðamót áður en bankahrunið átti sér stað. Ef miðað hefði verið við 30. september 2008 hefði heildartap lífeyrissjóða verið 95 milljörðum lægra skv. útreikningum Landssamtaka lífeyrissjóða.
  • Hlutabréf sem töpuðust í bankahruninu höfðu mörg hver hækkað verulega í verði frá þeim tíma sem þau voru keypt en gera má ráð fyrir að ekki hafi verið innistæða fyrir hækkunum á sumum bréfanna. Tapið er samt reiknað út frá virði bréfanna 1. janúar 2008.
  • Ekki er tekið tillit til hækkunar á eignum sem ekki töpuðust í bankahruninu, t.d. ríkisskuldabréf og innlán.
  • Varúðarafskriftarhlutföll sömu skuldabréfa er mismunandi í sjóðunum í mörgum tilvikum og er ekki tekið tillit til þess í yfirferð um tap sjóðanna, heldur birt tap skv. afskriftarhlutföllum hvers sjóðs.

Úttektarnefndin

Starf úttektarnefndarinnar má rekja til þess að stjórn og varastjórn Landssamtaka lífeyrissjóða samþykktu 24. júní 2010 að óska eftir því við Magnús Pétursson ríkissáttasemjara að hann skipaði þriggja manna nefnd „óháðra, óvilhallra og hæfra einstaklinga“ til að fjalla um fjárfestingarstefnu, ákvarðanir og lagaumhverfi sjóðanna fyrir hrunið. Í framhaldinu skipaði Magnús þrjá menn í úttektarnefndina: Hrafn Bragason, lögfræðing og fyrrverandi hæstaréttardómara sem jafnframt varð formaður nefndarinnar, Guðmund Heiðar Frímannsson, siðfræðing og prófessor við Háskólann á Akureyri, og Héðin Eyjólfsson viðskiptafræðing.

Úttektarnefndin réð í upphafi tvo sérhæfða starfsmenn að verkefninu og síðar bættist sá þriðji við. Nefndarmenn hafa m.a. rætt við fjölda stjórnarmanna, stjórnenda og annarra starfsmanna lífeyrissjóða, kallað eftir upplýsingum og kannað gögn af ýmsu tagi.

Hér er að finna skýrslu úttektarnefndar. Umfjöllun um Frjálsa lífeyrissjóðinn er í 2. bindi á bls. 105-126.