Frétt

Góð ávöxtun Frjálsa lífeyrissjóðsins árið 2011

Góð ávöxtun Frjálsa lífeyrissjóðsins árið 2011

Ávöxtun Frjálsa lífeyrissjóðsins var góð á árinu 2011 og allar fjárfestingarleiðir skiluðu góðri ávöxtun á árinu m.v. markaðsaðstæður. Þær leiðir sem fjárfesta meira í innlendum skuldabréfum voru með hæstu ávöxtun vegna mikillar hækkunar á verðtryggðum skuldabréfum en lækkun á erlendum hlutabréfum hafði hinsvegar neikvæð áhrif á ávöxtun þeirra leiða sem hafa fjárfest í erlendum eignum. Upplýsingar um sögulega ávöxtun sjóðsins er að finna hér og upplýsingar um eignasamsetningu einstakra leiða má finna hér.

 

Þróun markaða 2011

Gengisvísitala krónunnar sveiflaðist nokkuð á árinu 2011. Mest var veikingin í upphafi árs en krónan veiktist um 2,5% í janúar. Þá var lítisháttar styrking í mars mánuði ásamt styrkingu á haustmánuðum en á síðasta ári nam veiking krónunnar 4,9% eftir að hafa styrkst um 11,2% árið á undan.

Eins og áður segir var mikil hækkun á verðtryggðum skuldabréfum, og nam meðaltalshækkun verðtryggðra skuldabréfa tæpum 18% á meðan ávöxtun óverðtryggðra skuldabréfa nam um 1%.

Úrvalsvísitala innlendra hlutabréfa lækkaði um 2,6% á síðasta ári. Um miðjan desember hófust viðskipti með hlutabréf Haga en áttföld eftirspurn var eftir bréfum félagsins í hlutafjárútboði þar sem Arion banki seldi um 30% hlut í félaginu. Skráning Haga á markað marka ákveðin tímamót fyrir innlendan hlutabréfamarkað þar sem um er að ræða fyrstu nýskráningu síðan haustið 2008. Útboðsgengið var 13,5 kr. á hlut og stóð í 16,35 við árslok og hafði því hækkað um 21,1% frá skráningu, þar af um 18% á fyrsta degi viðskipta.

Erlend hlutabréf áttu erfitt uppdráttar á síðasta ári. Veikar hagtölur og seinvirk viðbrögð við skuldavandanum á Evrusvæðinu eru helstu orsakavaldarnir en heimsvísitala hlutabréfa (MSCI World Index) lækkaði um 7,6% á síðasta ári. Öllu meiri lækkun var á Norðurlöndunum þar sem MSCI Nordic vísitalan lækkaði um 17,1%.

Nánar má lesa um þróun markaða á árinu 2011 hér.