Frétt

Tillaga að breytingu á samþykktum Frjálsa lífeyrissjóðsins

Tillaga að breytingu á samþykktum Frjálsa lífeyrissjóðsins

Frjálsa lífeyrissjóðnum hefur borist tillaga að breytingu á samþykktum sem lögð verður fyrir ársfund sjóðsins þann 13. apríl næstkomandi. Tillagan er gerð af Jóni G. Guðbjörnssyni.

Breytingartillaga

Grein 4.1 hljóði svo:

Stjórn sjóðsins skal skipuð fimm sjóðfélögum kjörnum á ársfundi sjóðfélaga til tveggja ára í senn. Skulu þrír kjörnir það ár sem ártal er oddatala en tveir hitt árið. Með sama hætti skal kjósa þrjá varamenn; tvo það ár sem ártal er oddatala en einn hitt árið. Heimilt er starfsmönnum Arion banka að tilnefna, úr sínum hópi, einn af þremur til kjörs það ár sem kosið er um þrjá aðalmenn enda uppfylli sá sem tilnefndur er allar hæfiskröfur til stjórnarsetu sem samþykktir þessar kveða á um og telst þá sjálfkjörinn.

Breytingar þessar taka gildi frá og með ársfundi 2012.

Ákvæði til bráðabirgða: Á ársfundi 2012 verði kosnir tveir aðalmenn og einn varamaður til tveggja ára og þrír aðalmenn og tveir varamenn til eins árs. Jafnframt falli úr gildi eldri umboð til stjórnarsetu.

Greinargerð með tillögunni

Tillögumaður er þeirrar skoðunar að réttur Arion banka til að skipa einstaklinga til setu í stjórn Frjálsa lífeyrissjóðsins sé ótækur og auk þess óþarfur; það séu fullnægjandi tengsl fólgin í samstarfi sjóðsstjórnar og starfsmanna við daglegan rekstur sjóðsins með vísan til samninga um umsýslu bankans með sjóðinn. Skipun handvalinna einstaklinga af stjórn Arion banka til stjórnarsetu í stjórn Frjálsa lífeyrissjóðsins bætir engu þar við. Hins vegar, þó á því geti verið skiptar skoðanir, má ætla að að því sé styrkur að starfsmenn Arion banka eigi fulltrúa í sjóðsstjórninni, svo lengi sem sjóðurinn er forvaltaður í þeim banka. Hvort binda eigi val þess aðila við það að hann komi úr hópi starfsmanna getur verið álitaefni. Starfsmenn gætu mögulega á einhverjum tíma talið annað heppilegra. Telja verður að vel megi komast af með fimm manna stjórn fyrir sjóðinn og ávinningur af því að hafa þá fleiri óljós. Eins ætti að nægja að hafa þrjá varamenn.

Undirritaður lítur á það sem sjálfstætt efni að taka afstöðu til hver skuli vera fjöldi stjórnarmanna og kosningafyrirkomulag og svo hins hvort starfsmenn skuli eiga aðild að stjórn á einn eða annan veg.

Jón G. Guðbjörnsson