Opnað hefur verið fyrir umsóknir um fyrirframgreiðslu viðbótarsparnaðar
18. apríl 2020
Nú er hægt að sækja um fyrirframgreiðslu rafrænt í gegnum Mínar síður. Umsóknartímabilið stendur yfir til og með 1. janúar 2021.
Lesa meiraVið bendum viðskiptavinum á að hægt er að hafa samband eftir þeim leiðum sem koma fram hér fyrir neðan eða í gegnum netspjall.
Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum þá snýr hluti af efnahagsaðgerðum stjórnvalda vegna COVID-19 að fyrirframgreiðslum viðbótarsparnaðar. Um er að ræða sambærilegt úrræði og var í gildi á árunum 2009-2014 og gildir eingöngu um frjálsa séreign úr viðbótarsparnaði.
Hægt er að sækja um fyrirframgreiðslu með rafrænum skilríkjum á Mínum síðum.
Hvar og hvernig sæki ég um fyrirframgreiðslu?
Þú sækir um með rafrænum skilríkjum á Mínum síðum.
Er útgreiðslan opin öllum - óháð aldri?
Já, fyrirframgreiðslan stendur öllum til boða. Hafi sjóðfélagi náð 60 ára aldri þá er hins vegar hentugra að sækja um hefðbundna útgreiðslu vegna aldurs því reglurnar sem um hana gilda eru sveigjanlegri en reglur um fyrirframgreiðslu. Sama má segja um erfðaséreign.
Hver er hámarksfjárhæð sem ég má taka út?
Hámarksfjárhæð fyrirframgreiðslu viðbótarsparnaðar er 12 milljónir kr. fyrir skatt þó aldrei meira en uppsöfnuð inneign sjóðfélaga þann 1. apríl 2020, samanlagt úr sjóðum allra vörsluaðila.
Hvaða lífeyrissparnaður er laus til fyrirframgreiðslu?
Allur viðbótarsparnaður er laus til fyrirframgreiðslu þ.e. frjáls séreign vegna viðbótarsparnaðar. Tilgreind séreign, bundin séreign og frjáls séreign vegna skyldusparnaðar eru hins vegar ekki laus til fyrirframgreiðslu.
Hve há er mánaðarleg greiðsla?
Hámarksfjárhæð á mánuði er 800.000 kr. en hægt er að óska eftir að jafnar mánaðargreiðslur séu lægri.
Á hve langan tíma dreifast greiðslurnar?
Fjárhæðin greiðist út með jöfnum mánaðarlegum greiðslum á allt að 15 mánuðum.
Fyrir hvaða tíma þarf umsókn að berast, til að fá útgreitt í mánuðinum?
Umsóknarfrestur er til 10. dags hvers mánaðar. Greitt er út 15. dag hvers mánaðar. Þú sækir um með rafrænum skilríkjum á Mínum síðum.
Get ég tekið út úr fleiri en einum sjóði?
Já, en aðeins er hægt að taka út 12 milljónir kr. í heildina, samanlagt úr sjóðum allra vörsluaðila. Aðeins er greitt úr einum sjóði í einu, nema þann mánuð sem greiðslum lýkur úr einum sjóði og greiðslur hefjast í öðrum.
Ef ég sæki um 12 milljónir kr. fæ ég þá örugglega 12 milljónir kr.?
Lækki gengi sjóðsins á tímabilinu getur endanleg fjárhæð sem greidd er út orðið lægri en sú fjárhæð sem var laus til fyrirframgreiðslu við gildistöku laganna, þann 1. apríl 2020.
Er of seint fyrir mig að sækja um fyrirframgreiðslu um áramótin?
Nei það er ekki of seint. Umsóknartímabilið er til og með 1. janúar 2021. Ef þú sækir t.d. um útgreiðslu á 12 milljónum kr. þá, færðu útgreiðslur næstu 15 mánuði þar á eftir.
Viðbótarsparnaður er eitt hagstæðasta sparnaðarform sem völ er á
Viðbótarsparnaður er undanþeginn fjármagnstekjuskatti, auk þess sem ekki er greiddur erfðafjárskattur af honum við fráfall. Hins vegar þarf að greiða fjármagnstekjuskatt af ávöxtun almenns sparnaðar og erfðafjárskatt við fráfall. Þá er ekki hægt að ganga að viðbótarsparnaði upp í fjárhagslegar skuldbindingar við gjaldþrot líkt og gildir í hefðbundnum sparnaði.
Þarf ég að greiða tekjuskatt vegna fyrirframgreiðslu?
Já, vörsluaðili sér um að standa skil á tekjuskatti. Ástæðan er sú að viðbótariðgjöld eru dregin af launum áður en tekjuskattur er reiknaður og greiðslu tekjuskatts frestað fram að útgreiðslu. Skatthlutfall í staðgreiðslu skiptist nú í 3 skattþrep nánar á vefsíðu RSK.
Mikilvægt er að sjóðfélagar séu meðvitaðir um í hvaða skattþrepi greiðslan lendir þegar tekið hefur verið tillit til annarra tekna. Líkur eru á að fyrirframgreiðslan lendi í hærra skattþrepi ef tekið er út á meðan sjóðfélagi er með önnur laun. Því kann fyrirframgreiðslu að fylgja skattalegt óhagræði.
Get ég nýtt persónuafslátt?
Já, ef nýta á persónuafslátt þarf að taka það fram í umsókn. Heimilt er að nýta skattkort maka 100% ef um samsköttun er að ræða. Heimilt er að nýta skattkort látins maka í 9 mánuði frá andláti. Persónuafsláttur vegna 2020 er 54.628 kr. á mánuði/655.538 kr. á ári og heimilt er að nýta allan (100%) ónýttan persónuafslátt maka á árinu 2020. Nánar á vefsíðu RSK.
Ef ég nýti mér úrræðið núna, hefur það áhrif á framtíðargreiðslur mínar þegar komið er á eftirlaunaaldur?
Það er viðeigandi að hafa í huga að „eyðist það sem af er tekið“. Einn af kostum viðbótarsparnaðar er að hann getur minnkað þá tekjulækkun sem yfirleitt verður við starfslok. Eðli málsins samkvæmt leiðir fyrirframgreiðsla viðbótarsparnaðar til þess að uppsafnaður sparnaður og útgreiðslur síðar meir verða lægri, sem getur því haft áhrif á lífskjör á eftirlaunaárunum. Það er alltaf góð regla að horfa á heildarmyndina. Ef þörfin fyrir fyrirframgreiðslu nú er brýn, þá er ákvörðunin fljóttekin því þetta getur reynst góð leið til að drýgja tekjur við þær erfiðu aðstæður sem við stöndum frammi fyrir í dag, enda er það tilgangurinn með þessu úrræði. Sumir kjósa hins vegar að fara bil beggja og nýta hluta af heimildinni og eiga hluta til góða við starfslok. Allt eftir þörfum hvers og eins.
Getur kröfuhafi krafist þess að ég óski eftir fyrirframgreiðslu á viðbótarsparnaði mínum?
Nei, kröfuhafa er óheimilt að krefjast þess.
Er viðbótarsparnaður aðfararhæfur?
Nei, viðbótarsparnaður er ekki aðfararhæfur meðan hann er í séreignarsjóði og því ekki hægt að ganga að honum vegna fjárhagslegra skuldbindinga, líkt og gildir um flestar aðrar eignir. Þessi vernd er ekki lengur til staðar á þeirri séreign sem greidd hefur verið úr sjóðnum, inneign á bankareikningi er t.d. aðfararhæf.
Hvenær á fyrirframgreiðsla við og hvenær gæti verið betra að sækja um aðra tegund útgreiðslu?
Ef þú færð framfærsluuppbót samhliða örorkulífeyri frá Tryggingastofnun þá er betra að sækja um fyrirframgreiðslu viðbótarsparnaðar frekar en að sækja um á grundvelli örorku því fyrirframgreiðslan hefur ekki áhrif til lækkunar á framfærsluuppbót. Auk þess dreifist fyrirframgreiðslan á styttri tíma. Það getur hentað sumum betur.
Fyrirframgreiðsla á hins vegar ekki við þegar 60 ára aldri er náð eða þegar sótt er um erfðaséreign. Í þeim tilfellum gilda almennar útgreiðslureglur sem eru rýmri en þær reglur sem gilda um fyrirframgreiðslur.
Hafa fyrirframgreiðslur áhrif á bótagreiðslur?
Fyrirframgreiðslan hefur ekki áhrif á greiðslu húsnæðisbóta, barnabóta, vaxtabóta, atvinnuleysisbóta og greiðslna til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, eða bóta skv. lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega (t.d. framfærsluuppbót örorkulífeyris). Nánar í skilmálum umsóknar.
Af hverju þarf að senda launaseðla til Vinnumálastofnunar þegar sótt er um atvinnuleysisbætur?
Til að Vinnumálastofnun geti metið hvort réttur er til atvinnuleysisbóta þurfa upplýsingar um aðrar tekjur að fylgja umsókn. Því er óskað eftir öllum launaseðlum síðustu tvo mánuði. Gildir jafnt um fyrirframgreiðslur viðbótarsparnaðar og aðrar tekjur, jafnvel þó að fyrirframgreiðslur skerði ekki atvinnuleysisbætur. Sjóðfélagar geta nálgast launaseðla um fyrirframgreiðslur í netbanka.
Ef ég flyt séreign á milli vörsluaðila, eftir að hafa sótt um fyrirframgreiðslu hjá fyrri vörsluaðila, þarf ég þá að sækja um að nýju hjá núverandi vörsluaðila?
Já þú þarft að sækja um hjá núverandi vörsluaðila, ef ætlunin er að fá fyrirframgreiðslu. Umsókn frá öðrum vörsluaðila flyst ekki yfir samhliða flutningi á séreign, hvort sem fyrirframgreiðslur voru hafnar eða ekki. Athugaðu að heildarfyrirframgreiðsla úr viðbótarsparnaði verður þó aldrei hærri en 12 milljónir kr. samtals sem þýðir að ef útgreiðslur hófust hjá fyrri vörsluaðila munu þær greiðslur sem þú fékkst þaðan, dragast frá þeirri upphæð sem þú getur sótt um hjá núverandi vörsluaðila.
Fæ ég senda launaseðla?
Launaseðlar eru aðgengilegir í netbanka sjóðfélaga.
Hvert er upphæðin millifærð við útgreiðslu?
Einungis er leyfilegt að millifæra á bankareikning á kennitölu sjóðfélaga. Prókúra á reikning nægir ekki. Ekki er millifært á erlenda reikninga.
Get ég breytt fyrirframgreiðslu umsókninni minni?
Já, þú getur gert breytingar á Mínum síðum. Ef þú vilt breyta samskiptaleiðum, bankareikningi og skattaupplýsingum velur þú Persónuupplýsingar efst í hægra horni. Ef þú vilt breyta fjárhæð eða fjölda mánaða þá þá velur þú Stöðva fyrirframgreiðslu. Eftir það gerir þú nýja umsókn með því að Sækja um fyrirframgreiðslu. Hafir þú sótt um fyrirframgreiðslu en vilt hætta alfarið við umsóknina velur þú Stöðva fyrirframgreiðslur.
Frjálsi lífeyrissjóðurinn mun koma til móts við þá sjóðfélaga sem sjá fram á erfiðleika við að standa skil á afborgunum lána vegna Covid-19. Til að auðvelda sjóðfélögum að takast á við mögulegar áskoranir framundan býðst þeim að gera hlé á afborgunum lána í allt að þrjá mánuði.
Með greiðsluhléi eru afborganir lána frystar í þrjá mánuði, þ.e. ekki þarf að greiða af láninu næstu þrjá mánuði eftir undirritun. Afborganir og vextir lána leggjast á meðan á höfuðstól lánsins til hækkunar á því. Þessi hækkun á höfuðstól leiðir til hærri afborgana af láninu eftir að greiðsluhléi lýkur.
Ef þörf er á frekari sveigjanleika er farið yfir málin með hverjum og einum.
Í ljósi aðstæðna hvetjum við sjóðfélaga til að nýta rafrænar leiðir til þess að hafa samband.
Vinsamlegast fylltu út formið hérna fyrir neðan. Skrá þarf skuldfærslureikning vegna kostnaðar við þinglýsingu og veðbók.
Við munum hafa samband eins fljótt og aðstæður leyfa.
Nú er hægt að sækja um fyrirframgreiðslu rafrænt í gegnum Mínar síður. Umsóknartímabilið stendur yfir til og með 1. janúar 2021.
Lesa meiraTil að útgreiðsla fyrirframgreiðslu viðbótarlífeyrissparnaðar geti átt sér stað þann 30. apríl næstkomandi þarf umsókn að hafa borist Frjálsa í síðasta lagi 26. apríl.
Lesa meiraEins og fram hefur komið í fjölmiðlum þá snýr hluti af efnahagsaðgerðum stjórnvalda vegna COVID-19 að fyrirframgreiðslum viðbótarsparnaðar. Um er að ræða sambærilegt úrræði og var í gildi á árunum...
Lesa meiraFrjálsi lífeyrissjóðurinn leggur áherslu á að tryggja öryggi sjóðfélaga og starfsfólks og sporna við frekari útbreiðslu Corona veirunnar.
Lesa meiraFrjalsi.is notar vefkökur til að auðvelda þér að vafra um vefinn. Sjá notendaskilmála Frjálsa.
Samþykkja