Frétt

Frjálsi áhætta - Af hverju að taka áhættu?

Frjálsi áhætta - Af hverju að taka áhættu?

Frjálsi áhætta er ein fjögurra fjárfestingarleiða sem Frjálsi lífeyrissjóðurinn býður upp á fyrir séreignarsparnað. Leiðin var stofnuð árið 2008 til að auka valmöguleika sjóðfélaga og gera þeim kleift að ráðstafa séreignarsparnaði sínum í áhættusamari fjárfestingarleið með von um hærri langtímaávöxtun.

Vegna gjaldeyrishafta reyndist erfitt að auka vægi erlendra eigna að ráði fyrr en höftin voru afnumin árið 2017. Í kjölfar þessa hefur vægi erlendra eigna í fjárfestingarstefnu Frjálsa áhættu aukist úr 12% í fjárfestingarstefnu ársins 2017 í 47% í stefnu þessa árs.

Frjálsi áhætta er sú fjárfestingarleið hjá sjóðnum sem fjárfestir mest í erlendum eignum en einnig sú leið þar sem hlutfall innlendra og erlendra hlutabréfa er hæst.

Áherslur Frjálsa áhættu í dag

Fjárfestingu í hlutabréfum og hlutabréfatengdum afurðum fylgir almennt meiri áhætta en í skuldabréfum. Færa má rök fyrir því að með áhættusamari fjárfestingum sé mögulegt að ná fram hærri langtímaávöxtun þó skammtímasveiflur geti vissulega orðið meiri.

Innlend hlutabréf

Undir flokk innlendra hlutabréfa heyra ásamt skráðum hlutabréfum, óskráð hlutabréf og sérhæfðar innlendar hlutafjárfjárfestingar. Fjárfestingarstefna leiðarinnar leggur upp með að um 80% af hlutabréfasafni Frjálsa áhættu sé að jafnaði í skráðum hlutabréfum en 20% í óskráðum. Undir skráð hlutabréf falla hlutabréf félaga í Kauphöll Íslands (Nasdaq OMX Iceland), félög skráð í erlendum kauphöllum með starfsemi á Íslandi og hlutabréfasjóðir sem fjárfesta í framangreindum félögum. Sérhæfðar innlendar hlutafjárfjárfestingar fela gjarnan í sér væntingar um hærri ávöxtun. Þar er oftast um lengri tíma bindingu fjármuna að ræða og gera má ráð fyrir heldur meiri áhættu en fylgir hefðbundnari fjárfestingum.

Erlend hlutabréf

Stærstur hluti erlendra fjárfestinga Frjálsa áhættu er í hlutabréfum. Markmið stýringar erlendra hlutabréfa er að ná betri ávöxtun en heimsvísitala hlutabréfa sem sjóðurinn hefur skilgreint sem sinn árangursmælikvarða fyrir eignaflokkinn. Erlenda hlutabréfasafninu er skipt upp í tvo hluta: kjarna og krydd (e. core-satellite). Markmið kjarnahlutans er ná nokkrum umframárangri í samanburði við heimsvísitölu með sem lægstum kostnaði. Hann samanstendur einkum af vísitölusjóðum og kauphallarsjóðum (e. ETF) sem fylgja heimsvísitölu hlutabréfa með því að beita hlutlausri stýringu. Ennfremur er notast við vel dreifða sjóði með virkri stýringu þar sem alla jafna er ekki að vænta umtalsverðra frávika frá heimsvísitölunni. Markmið kryddhlutans er að ná heldur meiri árangri en heimsvísitala hlutabréfa en í kjarnahluta með því að fjárfesta í sjóðum þar sem virkri stýringu er beitt. Í þessum hluta safnsins er heldur meira svigrúm en í kjarnahluta, þ.e. möguleiki á að taka stöður í einstaka landssvæðum, atvinnugeirum eða fjárfestingarstílum (t.d. vaxtarfélögum eða virðisfélögum) í þeim tilgangi að nýta markaðsaðstæður til að skila ávöxtun umfram viðmiðunarvísitölu.

Nýr eignaflokkur var skilgreindur í fjárfestingarstefnu síðasta árs, erlendar sérhæfðar fjárfestingar, til að auka fjölbreytni og breikka erlenda eignasafnið enn frekar. Þegar hefur verið fjárfest í eignaflokkum á sviði framtaks-, innviða- og fasteignafjárfestinga.

Við val á fjárfestingarleið er nauðsynlegt að taka upplýsta ákvörðun og kynna sér þá valkosti sem standa til boða. Frjálsi áhætta er tilvalin fyrir þá sjóðfélaga sem kjósa að taka heldur meiri áhættu en vilja freista þess á móti að langtímaávöxtun verði hærri. Leiðin hentar vel þeim sem hafa tímann fyrir sér í sparnaði og þekkja vel eðli verðbréfamarkaða. Auk þess geta sjóðfélagar flutt hluta af séreign sinni í leiðina og ávaxtað þannig séreign sína í fleiri en einni fjárfestingarleið.