Frétt

Frjálsi fær alþjóðlega viðurkenningu í 13. sinn

Frjálsi fær alþjóðlega viðurkenningu í 13. sinn

Fagtímaritið Investment Pension Europe (IPE) hefur valið Frjálsa lífeyrissjóðinn besta lífeyrissjóð Evrópuþjóða með færri en milljón íbúa fyrir vinnu í tengslum við ábyrgar fjárfestingar. Frjálsi deilir verðlaununum í ár með öðrum innlendum lífeyrissjóði en þetta eru 13. verðlaun sem Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefur fengið frá IPE frá árinu 2005, sem er mesti fjöldi IPE verðlauna sem íslenskum lífeyrissjóði hefur hlotnast.

Í umsögn dómnefndar segir að sjóðurinn sé frábært dæmi um lífeyrissjóð sem ýtir undir breytingar og nýsköpun í umhverfis-, félagslegum þáttum og stjórnarháttum (UFS) á heimamarkaði sínum.

Frjálsi setti sér stefnu í ábyrgum fjárfestingum árið 2018 sem síðan þá hefur verið framfylgt með virkum hætti. Frjálsi leggur áherslu á að stuðla að jákvæðum áhrifum á umhverfið, félagslega þætti og stjórnarhætti í fjárfestingum sínum. Rekstraraðili sjóðsins hefur fyrir hönd sjóðsins unnið markvisst að því að hvetja forsvarsmenn skráðra íslenskra félaga á Aðallista Kauphallarinnar til að bæta upplýsingagjöf tengda UFS þáttum. Greining var gerð á opinberum ófjárhagslegum upplýsingum félaganna s.l. tvö ár, óskað hefur verið eftir fundum með félögunum og samtöl átt sér stað við forsvarsmenn um niðurstöður greiningarinnar svo og almennt um málefni samfélagsábyrgðar í starfsemi þeirra. Niðurstöður greiningarinnar hafa sýnt fram á að ófjárhagsleg upplýsingagjöf hefur aukist til muna á milli ára hjá félögunum, bæði magn þeirra og gæði, sem auðveldar Frjálsa og öðrum að taka tillit til UFS þátta við fjárfestingarákvarðanir.

Hér má sjá upplýsingar um stefnu Frjálsa í ábyrgum fjárfestingum.

IPE, sem er eitt virtasta tímarit Evrópu um lífeyrismál, hefur veitt verðlaunin árlega frá árinu 2001 og hefur fjöldi þátttakenda og umfang verðlaunanna farið vaxandi. Í ár voru 352 umsóknir frá lífeyrissjóðum í 23 löndum sendar inn til að keppa um 43 verðlaun í mismunandi landsvæða- og þemaflokkum. Til marks um umfang verðlaunanna sinntu 88 einstaklingar dómarastörfum til að úrskurða sigurvegara. Danski lífeyrissjóðurinn Pension Danmark var valinn besti lífeyrissjóður Evrópu að þessu sinni. Nánari upplýsingar um IPE verðlaunin má finna hér.