Frétt

Góð ávöxtun þrátt fyrir heimsfaraldur

Góð ávöxtun þrátt fyrir heimsfaraldur

Ávöxtun tryggingadeildar liggur ekki fyrir fyrr en gerð ársreiknings er lokið.

Óhætt er að segja að árið 2020 hafi verið án hliðstæðu sökum heimsfaraldurs Covid 19 en miklar sveiflur einkenndu ávöxtun á fjármála- og verðbréfamörkuðum. Veruleg lækkun var á hlutabréfamörkuðum á alþjóðavísu á fyrsta ársfjórðungi í kjölfar útbreiðslu faraldursins en viðsnúningur varð svo á mörkuðum það sem eftir lifði árs. Þrátt fyrir neikvæða þróun í helstu hagtölum, svo sem lækkun landsframleiðslu og hækkun verðbólgu og atvinnuleysis þá skiluðu verðbréfamarkaðir fjárfestum almennt góðri ávöxtun. Nafnávöxtun fjárfestingarleiða Frjálsa var á bilinu 7,4%-15,1% sem samsvarar 3,8%-11,2% raunávöxtun.

Annað árið í röð voru erlend hlutabréf sá eignaflokkur hjá Frjálsa sem gerði best á árinu en heimsvísitala erlendra hlutabréfa (e. MSCI World Index) hækkaði um 14,1% í Bandaríkjadal eða um 20,3% í íslenskum krónum vegna veikingar hennar. Einnig var mjög góð ávöxtun á innlendum hlutabréfamarkaði og hækkaði Úrvalsvísitala hlutabréfa um 20,5% á árinu. Fjárfestingarleiðirnar Frjálsi áhætta og Frjálsi 1 eru þær leiðir sem eru með mest vægi hlutabréfa og skiluðu því hæstu ávöxtun á árinu.

Stýrivextir Seðlabankans lækkuðu verulega og lækkunin ásamt öðru leiddi til þess að ávöxtunarkrafa innlendra skuldabréfa lækkaði á árinu sem aftur skilaði sér í góðri ávöxtun á eignaflokknum. Nafnávöxtun verðtryggðra ríkisskuldabréfa var 4,9%-9,4% og óverðtryggðra 5,4%-7,4%.

Gera má ráð fyrir að ríkisskuldabréf skili lægri ávöxtun næstu misseri því ávöxtunarkrafa þeirra hefur lækkað töluvert síðustu ár. Frjálsi hefur í nokkur ár verið á þeirri vegferð að minnka hlutfall ríkisskuldabréfa og auka hlutfall fyrirtækjaskuldabréfa og hlutabréfa á móti með það að markmiði að skila sjóðfélögum hærri langtímaávöxtun.

Langtímaávöxtun

Áhættudreifing leiðarljós í fjárfestingum

Sjóðfélagar Frjálsa hafa val um fjórar fjárfestingarleiðir fyrir séreignarsparnað sem hafa mismunandi fjárfestingarstefnu og fela í sér mismunandi áhættu. Við val á leið er rétt að hafa í huga væntanlegan útgreiðslualdur og viðhorf til áhættu. Fjárfest er í mismunandi eignaflokkum, eignum, landssvæðum og gjaldmiðlum til að ná fram áhættudreifingu. Markmiðið er að dreifa áhættunni á þann veg að þótt lækkun verði á ákveðnum eignaflokki, á ákveðinni tegund eigna eða innan ákveðins landsvæðis eru líkur á að hún vinnist að hluta upp í hækkun af öðrum og dragi þannig úr sveiflum á ávöxtun á viðkomandi fjárfestingarleið í heild. Upplýsingar um ávöxtun, fjárfestingarstefnu og eignasamsetningu leiðanna er að finna á vef sjóðsins.