Lán

Til að geta fengið lán hjá Frjálsa er skilyrði að eiga séreign eða réttindi í sjóðnum sem myndast hafa með greiðslu skyldusparnaðar eða viðbótarsparnaðar. Aðeins er lánað til kaupa á íbúðarhúsnæði og til endurfjármögnunar á eldri lánum hjá sjóðnum.

Hámarkslán er 20 milljónir fyrir einstakling en 40 milljónir fyrir hjón eða sambýlisfólk ef báðir aðilar eru sjóðfélagar. Lánstími er 5 til 40 ár og öll lán eru án uppgreiðslugjalds. Sjá lánareglur Frjálsa.

Verðtryggð lán með breytilegum vöxtum

 • Vextir nú 2,15%*
 • Vaxtaendurskoðun á 3ja mánaða fresti*

Verðtryggð lán með föstum vöxtum út lánstíma

 • Vextir nú 3,50%*

Óverðtryggð lán með föstum vöxtum til 3ja ára

 • Vextir nú 5,60%*

*Skoða vaxtaþróun Frjálsa.

Fjármálaráðgjafar Arion banka  í útibúum bankans í Borgartúni 18 og Bíldshöfða 20 í Reykjavík og Smáratorgi 3 í Kópavogi sinna afgreiðslu lána Frjálsa og veita lánaráðgjöf.

Óska eftir lánaráðgjöf

Sjóðfélögum Frjálsa býðst að nýta sér rafrænt greiðslumat Arion banka. Að greiðslumati loknu má fylla út lánsumsókn.

Teiknuð mynd - ský og rigningardropar

Reikna lán


Útreikningur og niðurstaða reiknivélarinnar er aðeins til viðmiðunar og byggir eingöngu á þeim forsendum sem gefnar voru upp.
Lántökugjald 75.000 kr.
Veðflutningur
7.997 kr.
Veðbandslausn
7.197 kr.

 Að öðru leyti gildir verðskrá rekstraraðila.

Lánareglur Frjálsa lífeyrissjóðsins

 1. Umsækjendur þurfa að eiga séreign eða réttindi í Frjálsa lífeyrissjóðnum sem myndast hafa með greiðslu þeirra á lágmarksiðgjaldi eða viðbótariðgjaldi af launum eða öðru endurgjaldi þeirra fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu í sjóðinn, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
   
 2. Lántakendur geta valið um jafngreiðslulán (annuitet) eða lán með jöfnum afborgunum.
   
 3. Þá stendur lántakendum til boða að taka verðtryggð lán með vöxtum sem eru breytilegir, verðtryggð lán með föstum vöxtum út lánstímann og óverðtryggð lán með föstum vöxtum til þriggja ára í senn, eða blöndu af þessum möguleikum.

  Verðtryggð lán – breytilegir vextir

  Breytilegir vextir verðtryggðra lána sjóðsins eru endurskoðaðir á þriggja mánaða fresti, þann 15. febrúar, 15. maí, 15. ágúst og 15. nóvember. Vaxtabreytingar eru reiknaðar og tilkynnt um þær einum mánuði fyrir gildistöku, þ.e. 15. janúar, 15. apríl, 15. júlí og 15. október. Stjórn áskilur sér rétt til að breyta vöxtum með skemmri fyrirvara, að því marki sem slíkar breytingar leiða af þáttum sem sjóðurinn hefur ekki stjórn á.

  Við ákvarðanir á breytilegum vöxtum sjóðsins er tekið mið af meðalávöxtunarkröfu verðtryggðra skuldabréfa útgefinna m.a. af Íbúðalánasjóði, bönkum og fjármálastofnunum á Íslandi, ríkissjóði Íslands eða sveitarfélögum síðustu þrjá almanaksmánuði, að viðbættri álagningu sjóðsins vegna útlánaáhættu og rekstrarkostnaði í tengslum við lánveitingar sjóðsins. Stjórn áskilur sér rétt til að líta til annarra viðmiða eins og vaxta sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir á vefsíðu sinni, breytinga á ávöxtunarkröfu á ríkisskuldabréfum á markaði og sögulegrar og væntrar verðbólgu. Gildandi vextir eru birtir á vefsíðu sjóðsins.

  Verðtryggð lán – fastir vextir

  Fastir vextir verðtryggðra lána eru ákvarðaðir af stjórn sjóðsins. Fastir vextir taka ekki breytingum á lánstíma. Gildandi vextir á nýjum lánum eru birtir á vefsíðu sjóðsins.

  Óverðtryggð lán

  Óverðtryggðir vextir lána eru ákvarðaðir af stjórn sjóðsins og eru þeir fastir til þriggja ára í senn. Að þeim tíma liðnum endurskoðar stjórn sjóðsins vexti lánsins. Þegar kemur að endurskoðun vaxta getur lántaki valið hvort hann vill að vextir verði aftur festir í 3 ár eða breytt yfir í önnur lánsform sem bjóðast hjá sjóðnum á þeim tíma án lántökukostnaðar. Gildandi vextir á nýjum lánum eru birtir á vefsíðu sjóðsins.
   
 4. Verði skuldaraskipti á láninu og nýr skuldari er ekki sjóðfélagi hækka vextir lánsins um 1,0 prósentustig.

 5. Eftirfarandi ákvæði gilda um lánsfjárhæð:

  - Einstaklingar: 1-20 milljónir kr.
  - Hjón eða einstaklingar í óvígðri sambúð: 1-40 milljónir kr. en skilyrði er að báðir séu sjóðfélagar sbr. 1. gr. reglnanna.
   
  Aldrei skal heildarlánsupphæð vera hærri en svo að ný lán að viðbættum eftirstöðvum eldri lána frá lífeyrissjóðnum, uppreiknuðum með verðbótum, sé hærri en hámarksfjárhæð skv. ofangreindu.
   
 6. Lánstími er 5-40 ár. Gjalddagar eru 2-12 á ári. Lántakendur greiða kostnað af greiðslu afborgana skv. verðskrá Frjálsa lífeyrissjóðsins. Boðið er upp á allt að 12 mánaða afborgunarleysi fyrsta árið en þá eru eingöngu greiddir vextir.
   
 7. Lánin eru uppgreiðanleg án kostnaðar hvenær sem er á lánstímanum.
   
 8. Lánað er til að fjármagna kaup á íbúðarhúsnæði og gegn veði í viðkomandi íbúðarhúsnæði lántaka. Einnig er heimilt að lána til byggingar íbúðarhúsnæðis en þá að uppfylltum þeim skilyrðum sem fram koma í 9. gr. reglna þessara um byggingarstig o.fl. Ekki er lánað gegn veði í ósamþykktu húsnæði, þ.e. krafa er að veðið sé íbúð sem fellur undir byggingarreglugerð sem íbúðarhúsnæði. Heimilt er að taka veð í íbúðarhúsnæði á byggingarstigi, sbr. kröfur í 9. gr.Að jafnaði eru ekki veitt lán til lántaka með veði í fleiri en tveimur fasteignum.

  Ekki fæst lánað fyrir endurfjármögnun eldri lána, nema að um sé að ræða eldri lán tekin hjá Frjálsa lífeyrissjóðnum. Við endurfjármögnun eldri lána Frjálsa lífeyrissjóðsins er ekki gerð krafa um færslu veðréttar fremst í veðbók, sbr. 9. gr. Ef nýtt lán sjóðsins færist ekki framar í veðröð við endurfjármögnun skal það haldast á þeim veðrétti sem þau eldri voru á. Hámarkslánsfjárhæð við endurfjármögnun er sú fjárhæð sem nemur eftirstöðvum eldra láns sem á að greiða upp. Að öðru leyti gilda sömu reglur og gilda um nýjar lánveitingar skv. reglum þessum.
   
 9. Gerð er krafa um að lánum sjóðsins sé þinglýst fremst í veðbók viðkomandi fasteignar. Veðsetning í fasteign getur að hámarki verið 70% af kaupverði. Í sérstökum tilfellum áskilur sjóðurinn sér þó rétt til að miða við fasteignamat og/eða verðmat löggilts fasteignasala. Slíkt verðmat er á kostnað lántaka en sjóðurinn getur ætíð lagt sjálfstætt mat á forsendur verðmats. Húseignir í smíðum þurfa að vera komnar með fokheldisvottorð (byggingarstig 4) og smíðatryggingu til að vera tækar til veðtöku. Veðsetning fullfrágenginna eigna má aldrei vera hærri en 100% af brunabótamati og lóðarmati.
   
 10. Ef fasteign sem setja á til veðtryggingar láninu er jafnframt að hluta eða að öllu leyti í eigu maka sjóðfélaga eða sambúðarmaka, er áskilið að viðkomandi eigandi verði meðlántaki (samskuldari) að umbeðnu láni. Meðlántaki þarf ekki að uppfylla skilyrði 1. gr., en þarf hins vegar að vera maki eða sambúðarmaki sjóðfélaga. Aðrir en maki sjóðfélaga eða sambúðarmaki geta ekki orðið meðlántakar.
   
 11. Með umsókninni þurfa að fylgja þær upplýsingar og þau gögn sem farið er fram á lánsumsókn sjóðsins. Lántakandi greiðir kostnað við lánshæfismat og greiðslumat. Komi í ljós að lánshæfi sé ábótavant eða skuldastaða sé með þeim hætti að vafi leiki á greiðsluhæfi lántakanda getur sjóðurinn lækkað umbeðna lánsfjárhæð eða hafnað lánveitingu.
   
 12. Lántökugjald og annar kostnaður við lántöku og skilmálabreytingar er skv. verðskrá Frjálsa lífeyrissjóðsins.

Þrátt fyrir ofangreindar lánareglur áskilur Frjálsi lífeyrissjóðurinn sér rétt til að hafna lánsbeiðnum.

Samþykkt á stjórnarfundi Frjálsa lífeyrissjóðsins 27. mars 2019. Reglur þessar koma í stað eldri lánareglna og gilda um ný lán frá og með næsta virka degi sem og þegar veitt lán eftir því sem við á.

Spurt og svarað