Ábyrgar fjárfestingar og stjórnarhættir

Meginhlutverk Frjálsa lífeyrissjóðsins er að ávaxta iðgjöld sjóðfélaga og tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum lífeyri.

Frjálsi lífeyrissjóðurinn telur þá fjárfestingarkosti áhugaverða sem mæta samtímaþörfum sjóðfélaga, án þess þó að tefla í hættu framtíðarþörfum komandi kynslóða.

Aðalmarkmið að baki hugmyndafræði ábyrgra fjárfestinga er að stuðla að jákvæðum áhrifum á umhverfið, félagslega þætti og stjórnarhætti, (UFS e. ESG) draga úr áhættu og skila sjálfbærri langtímaávöxtun. Fjárfestar velja margir hverjir að horfa sérstaklega til þessara þátta þegar fjárfestingarkostir eru greindir og metnir og hefur sá áhugi farið sívaxandi. Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefur ákveðið að horfa til þessara þátta í starfsemi sinni og sett var stefna í þeim efnum árið 2018.

abyrgar-fjarfestingar-foss.png (144812 bytes)

Áhrif á umhverfi

Umhverfisleg viðmið snúa að frammistöðu og eftirliti í loftslags- og umhverfismálum og því hvernig gætt er að umhverfisáhrifum hverrar starfsemi fyrir sig.

abyrgar-fjarfestingar-skrifstofa.png (124966 bytes)

Félagslegir þættir

Félagsleg viðmið snúa að því hvernig hugað er að málefnum starfsfólks svo og því umhverfi sem það starfar í, s.s. jafnrétti innan fyrirtækja, almennum mannréttindum og öryggi.

abyrgar-fjarfestingar-fundur.png (135686 bytes)

Stjórnarhættir

Stjórnarhættir snúa m.a. að fjölbreytni og fyrirkomulagi stjórna, stjórnun og skipulagi, birgjum, kjörum starfsfólks og aðgerðum gegn spillingu og mútum.


Viltu vita meira?

Í brennidepli

Starfsfólk Frjálsa og Eignastýringu Arion banka, rekstraraðila sjóðsins, tekur virkan þátt í innlendri og alþjóðlegri umræðu um málefni ábyrgra fjárfestinga og hefur skrifað fjölda greina ásamt því að hafa tekið þátt í pallborðsumræðum, staðið fyrir fræðslu- og upplýsingarfundum svo og gefið út rit um umboðsskyldu.

Verklag ábyrgra fjárfestinga

Eignastýring Arion banka hefur innleitt verklag ábyrgra fjárfestinga í starfshætti sína þar sem horft er til þriggja grunnþátta sjálfbærni; umhverfis- og félagslegra þátta og stjórnarhátta. Samhliða því er sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð (e. UN Global Compact) hafður til hliðsjónar við eignastýringu Frjálsa. Sáttmálinn er alþjóðleg yfirlýsing/samkomulag sem fyrirtæki eða stofnanir geta haft að leiðarljósi við innleiðingu ábyrgra starfshátta. Í sáttmálanum eru skilgreindar fjórar meginreglur sem taka til mannréttinda, vinnumarkaðsmála, umhverfis og baráttu gegn hvers kyns spillingu og felur í sér vilja til að fylgja 10 grunngildum Sameinuðu þjóðanna um ábyrga starfshætti. Þessi sáttmáli tengist heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun með einum eða öðrum hætti og með því má segja að í starfsemi sjóðsins sé unnið í átt að markmiðunum.

Arion banki er aðili að meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrga bankastarfsemi (e. UN Principles for Responsible Banking), sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð (e. UN Global Compact) og meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (e. UN Principles for Responsible Investment).

Nánari upplýsingar um samfélagsábyrgð rekstraraðila sjóðsins, Arion banka, má finna hér.

Hluthafastefna og stefna um ábyrgar fjárfestingar

Stjórn Frjálsa lífeyrissjóðsins hefur mótað sjóðnum stefnu um ábyrgar fjárfestingar sem markar stefnu sjóðsins um siðferðisleg viðmið í fjárfestingum samkvæmt 36. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Sem hluta af þeirri stefnu hefur stjórn einnig sett sjóðnum hluthafastefnu sem skilgreinir kröfur sjóðsins til stjórnarhátta í innlendum skráðum félögum þar sem hann er hluthafi.

Ábyrgar fjárfestingar

Meginreglur Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (e. UN Principles for Responsible Investment)

Rekstraraðili sjóðsins, Arion banki, er aðili að meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar. Um er að ræða samtök fjárfesta á alþjóðavísu sem vinna að því sameiginlega markmiði að innleiða sex grundvallarviðmið um ábyrgar fjárfestingar.

Árið 2005 kallaði Kofi Annan, þáverandi ritari Sameinuðu þjóðanna, hóp stofnanafjárfesta saman til þátttöku í að þróa meginreglur ábyrgra fjárfestinga. Grundvallarviðmiðin voru kynnt árið 2006 í Kauphöllinni í New York og nýtur PRI stuðnings Sameinuðu þjóðanna.

Meginreglurnar eru eftirfarandi:

  1. Við munum taka mið af umhverfislegum og félagslegum þáttum og stjórnarháttum (UFS) við greiningu fjárfestingarkosta og við ákvörðunartöku.
  2. Við ætlum að vera virkur eigandi sem tekur tillit til UFS bæði í eigendastefnum og í verki.
  3. Við munum kalla eftir viðeigandi upplýsingagjöf um UFS frá aðilum sem við fjárfestum í.
  4. Við munum beita okkur fyrir viðurkenningu á og innleiðingu þessara meginreglna í fjárfestingarstarfsemi.
  5. Við munum vinna saman að því að efla árangur við innleiðingu meginreglnanna.
  6. Við skilum öll skýrslum um starfsemi okkar og upplýsum um árangur við innleiðingu meginreglnanna.

Hluthafastefna og Stefna um ábyrgar fjárfestingar

Stefna Frjálsa lífeyrissjóðsins um ábyrgar fjárfestingar

Frjálsi lífeyrissjóðurinn leggur áherslu á siðferðisleg gildi við fjárfestingarákvarðanir sínar og er meðvitaður um þá staðreynd að fjárfestingarákvarðanir hans hafa áhrif á ólíka hagsmunaaðila og samfélagið í heild sinni. Sjónarmið um langtímafjárfestingarsýn eru í samræmi við langtímaskuldbindingar sjóðsins og fara hönd í hönd með ábyrgum og sjálfbærum viðskiptaháttum. Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefur að leiðarljósi við fjárfestingar að hámarka ávöxtun til langs tíma litið að teknu tilliti til áhættu.

Framkvæmdastjóri sjóðsins, sem stjórn ræður til starfa, stýrir daglegum rekstri sjóðsins. Arion banki hf. (hér eftir nefndur „rekstraraðili“) annast framkvæmd daglegs reksturs sjóðsins í samráði við, og, eftir atvikum, eftir fyrirmælum framkvæmdastjóra sjóðsins.

Ábyrgar fjárfestingar

Ábyrgar fjárfestingar eru fjárfestingar sem auk þess að taka tillit til áhættu og ávöxtunar taka tillit til umhverfis-, samfélags- og stjórnarhátta. Stefna þessi um ábyrgar fjárfestingar markar stefnu sjóðsins um siðferðileg viðmið í fjárfestingum sem lífeyrissjóðum ber að setja sér samkvæmt 36. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Stefnan tekur sérstaklega til umhverfis- og samfélagsþátta í fjárfestingum sjóðsins að undanskildum vísitölusjóðum og ef annað er tekið fram. Varðandi áherslur sjóðsins um stjórnarhætti vísast til hluthafastefnu sjóðsins.

Grunngildi og viðmið

Grunngildi Frjálsa lífeyrissjóðsins í ábyrgum fjárfestingum eru að félög sem sjóðurinn á eignarhlut í fari að þeim lögum og reglum sem um starfsemi þeirra gilda. Auk þessara grunngilda setur sjóðurinn sér viðmið um ábyrgar fjárfestingar með hliðsjón af grunngildum Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð (UN Global Compact). Með því að styðjast við grunngildi UN Global Compact, gegnir sjóðurinn því hlutverki að vinna að Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Viðmiðin fela í sér kröfu sjóðsins til þess að félög í hans eigu;

  • Virði alþjóðleg mannréttindi og eigi ekki hlut í broti á þeim.
  • Virði réttindi aðila á vinnumarkaði. Styðji við félagafrelsi og viðurkenni rétt starfsfólks til kjarasamninga. Eigi ekki þátt í hverskonar nauðungar- og þrælkunarvinnu og styðji við afnám misréttis til vinnu og starfsval.
  • Beiti sér fyrir varúðarreglu í umhverfismálum, hvetji til aukinnar ábyrgðar gagnvart umhverfinu og stuðli að þróun og nýtingu á umhverfisvænni tækni.
  • Beiti sér gegn hverskonar spillingu á borð við kúgun og mútur.

Framkvæmd stefnu

Sem fjárfestir á markaði hefur Frjálsi lífeyrissjóðurinn hagsmuni af því að félög sem hann á eignarhlut í tileinki sér ábyrga og sjálfbæra viðskiptahætti. Sjóðurinn er hlutfallslega stór á innlendum fjármálamarkaði og því er mikilvægt að hann beiti sér sem virkur hluthafi í innlendum félögum og gæti þannig að hagsmunum sínum og sjóðfélaga. Þannig er horft til grunngilda og viðmiða sjóðsins um ábyrgar fjárfestingar við fjárfestingarákvarðanir og vinnu við mótun og endurskoðun fjárfestingarstefnu sjóðsins.

Fjárfestingar sjóðsins á erlendum mörkuðum eru hlutfallslega litlar sem takmarkar getu hans til að beita sér með virkum hætti. Almennt eru erlendar fjárfestingar í sjóðum frekar en í einstökum erlendum félögum. Sjóðurinn gerir þá kröfu til rekstraraðila lífeyrissjóðsins að hann hafi sett sér stefnu í ábyrgum fjárfestingum. Jafnframt gerir sjóðurinn þær kröfur til eignastýringaraðila sem starfa í umboði sjóðsins að þeir kanni stefnu rekstraraðila sjóða í ábyrgum fjárfestingum og hafi það til hliðsjónar við heildarmat á fjárfestingarkostum.

Komi í ljós að félag í eignasafni sjóðsins verði uppvíst af fráviki á grundvelli þessara grunngilda og viðmiða mun sjóðurinn beita sér fyrir því að umrætt félag ráðist í viðeigandi úrbætur. Við slíka ákvörðun er ávallt gætt ýtrustu varfærni þar sem heildarhagsmunir sjóðsins og sjóðfélaga eru hafðir að leiðarljósi.

Endurskoðun og birting

Stefna þessi er endurskoðuð eftir því sem tilefni er til. Framkvæmdarstjóri ber ábyrgð á stefnu þessari í samráði við stjórn og starfsmenn sem starfa við rekstur og eignastýringu sjóðsins. Stefnan er gerð aðgengileg á vef sjóðsins.

Samþykkt á stjórnarfundi Frjálsa lífeyrissjóðsins 21. nóvember 2019.

Hluthafastefna Frjálsa lífeyrissjóðsins

Gildissvið

Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefur að leiðarljósi við fjárfestingar að hámarka ávöxtun til langs tíma litið að teknu tilliti til áhættu. Sjóðurinn leggur áherslu á siðferðisleg gildi við fjárfestingarákvarðanir sínar og er meðvitaður um þá staðreynd að fjárfestingarákvarðanir hans hafa áhrif á ólíka hagsmunaaðila og samfélagið í heild sinni.

Hluthafastefna Frjálsa lífeyrissjóðsins á fyrst og fremst við um innlendar fjárfestingar þar sem sjóðurinn fer með verulegan eignarhlut, þ.e. þar sem sjóðurinn á 5% eða hærri beinan eignarhlut í einstöku félagi, þar sem sjóðurinn er meðal fimm stærstu hluthafa félags, eða þar sem eignarhlutur er 0,5% eða meira af heildareignum lífeyrissjóðsins.

Markmið hluthafastefnu þessarar er að skilgreina þær kröfur sem sjóðurinn gerir að jafnaði til þeirra félaga sem hann fjárfestir í ásamt því að auka gagnsæi sjóðsins sem hluthafi og stuðla að trúverðugri aðkomu lífeyrissjóðsins að viðkomandi félögum.

Framkvæmdastjóri sjóðsins, sem stjórn ræður til starfa stýrir daglegum rekstri sjóðsins. Arion banki hf. (hér eftir nefndur „rekstraraðili“) annast framkvæmd daglegs reksturs sjóðsins í samráði við, og, eftir atvikum, eftir fyrirmælum framkvæmdastjóra sjóðsins.

Samkeppnissjónarmið

Frjálsi lífeyrissjóðurinn leggur áherslu á að félög sem sjóðurinn á eignarhluti í eigi að jafnaði í virkri samkeppni á viðkomandi markaði. Sjóðurinn gerir sér grein fyrir að eignarhald á verulegum hlutum í félögum á sama markaði kallar á sérstaka aðgæslu af hálfu sjóðsins.

Sjóðurinn styður ekki framboð sama stjórnarmanns til stjórnarsetu í stjórn tveggja félaga á sama markaði. Til viðbótar koma fram frekari kröfur hér fyrir neðan er varða stjórnarkjör og samskipti við stjórn og stjórnendur þeirra félaga sem falla undir stefnu þessa.

Hluthafafundir

Frjálsi lífeyrissjóðurinn yfirfer tillögur sem leggja á fyrir hluthafafundi félaga sem falla undir stefnu þessa, tekur afstöðu til þeirra og metur hvort þær samrýmast hagsmunum lífeyrissjóðsins. Almennt munu tillögur stjórnar vera studdar að því gefnu að þær teljist vera til hagsbóta fyrir viðkomandi félag og í samræmi við stefnu þessa.

Framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins fer með atkvæði sjóðsins á hluthafafundum félaga sem falla undir stefnu þessa nema stjórn sjóðsins ákveði annað. Framkvæmdastjóri hefur heimild til að veita öðrum aðila umboð til að fara með atkvæðisrétt sjóðsins.

Sjóðurinn mun gera aðgengilegar upplýsingar um hvernig sjóðurinn greiddi atkvæði á hluthafafundum þeirra félaga sem falla undir stefnu þessa og eru skráð á hlutabréfamarkaði.

Val og kröfur til stjórnarmanna

Frjálsi lífeyrissjóðurinn gerir almennt ekki tillögu um stjórnarmenn fyrir hluthafafund þar sem kosning stjórnar fer fram. Ákveði sjóðurinn að leggja fram slíka tillögu skipar stjórn sjóðsins valnefnd sem tekur ákvörðun um hvaða einstaklinga sjóðurinn styðji til stjórnarsetu í viðkomandi félagi. Slíkt val byggir á faglegu ferli þar sem horft er m.a. til þekkingar og reynslu einstaklinga ásamt samsetningu stjórnar hjá viðkomandi félagi.

Stjórnarmenn og starfsmenn Frjálsa lífeyrissjóðsins og starfsmenn rekstraraðila sem þjónusta sjóðinn taka að jafnaði ekki sæti í stjórnum félaga í umboði lífeyrissjóðsins.

Frjálsi lífeyrissjóðurinn gerir kröfu um að stjórnarmenn í félögum sem falla undir stefnu þessa starfi í samræmi við góða stjórnarhætti, séu sjálfstæðir í störfum sínum og hafa ætíð hagsmuni viðkomandi félags að leiðarljósi.

Lífeyrissjóðurinn leggur áherslu á að stjórn félaga sem falla undir stefnu þessa starfi í samræmi við leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja og gæti að því að jafnvægi sé á milli langtímahagsmuna félagsins og að hámarka virði þess.

Samskipti við stjórnarmenn og stjórnendur

Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefur ekki afskipti af stjórnarstörfum einstaklinga eftir að þeir hafa verið kosnir í stjórn þeirra félaga sem falla undir stefnu þessa. Sjóðurinn leggur áherslu á sjálfstæði stjórnarmanna sé virt sem og þagnar- og trúnaðarskylda sem á þeim hvílir.

Ef lífeyrissjóðurinn þarf að eiga samskipti við stjórn og/eða stjórnendur félags skal það gert í samræmi við verklagsreglur viðkomandi félags. Gæta þarf að slík samskipti séu í samræmi við ákvæði samkeppnislaga og reglur um meðferð innherjaupplýsinga.

Telji sjóðurinn ástæðu til að gera athugasemdir við verklag félags sem fellur undir stefnu þessa mun hann koma ábendingum þar um á framfæri þess efnis. Sé ekki brugðist við slíkum ábendingum kann sjóðurinn að gera grein fyrir afstöðu sinni á hluthafafundi eða með öðrum hætti.

Starfskjör

Við ákvörðun um starfskjör starfsmanna og stjórnarmanna þeirra félaga sem falla undir stefnu þessa á að gæta hófs og líta m.a. til stærðar og umfangs félagsins svo og þeirra starfskjara sem ætla má að bjóðist almennt á þeim markaði sem viðkomandi félag starfar á.

Árangurstengdar greiðslur og/eða valréttir þurfa að hafa skýr og mælanleg markmið og hafa langtímahagsmuni hluthafa að leiðarljósi.

Sjóðurinn gerir þá kröfu að starfskjarastefna félaga uppfylli kröfur hlutafélagalaga og taki mið af leiðbeiningum um stjórnarhætti.

Endurskoðun og birting

Stefna þessi er endurskoðuð af stjórn Frjálsa lífeyrissjóðsins eftir því sem tilefni er til. Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á stefnu þessari í samráði við stjórn og starfsmenn sem starfa við rekstur og eignastýringu sjóðsins. Stefnan er gerð aðgengileg á vef sjóðsins.

Samþykkt á stjórnarfundi Frjálsa lífeyrissjóðsins 28. maí 2019.