Ábyrgar fjárfestingar og stjórnarhættir

Meginhlutverk Frjálsa lífeyrissjóðsins er að ávaxta iðgjöld sjóðfélaga og tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum ævilangan lífeyri.

Eitt af því sem gerir fjárfestingarkosti áhugaverða fyrir Frjálsa er að þeir mæti samtímaþörfum sjóðfélaga, án þess þó að tefla í hættu framtíðarþörfum komandi kynslóða. Í 36. grein lífeyrissjóðalaganna kemur fram að stjórn lífeyrisjóðs skuli móta og kunngera fjárfestingastefnu fyrir sjóðinn í samræmi við reglur laganna en frá árinu 2017 hafa siðferðileg viðmið í fjárfestingum jafnframt verið skilyrði. Frjálsi hefur lagt metnað í verkefnið; aflað þekkingar með því að leita í fræði ábyrgra fjárfestinga og móta sjóðnum stefnu þess efnis frá árinu 2018.

Aðalmarkmið að baki hugmyndafræði ábyrgra fjárfestinga er að stuðla að jákvæðum áhrifum á umhverfið, félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS e. ESG), draga úr áhættu og skila sjálfbærri langtímaávöxtun. Til þessara þátta horfa fjárfestar í auknum mæli þegar fjárfestingarkostir eru greindir og metnir.

abyrgar-fjarfestingar-foss.png (144812 bytes)

Áhrif á umhverfi

Umhverfisleg viðmið snúa meðal annars að frammistöðu og eftirliti í loftslags- og umhverfismálum og því hvernig gætt er að umhverfisáhrifum hverrar fjárfestingar fyrir sig.

abyrgar-fjarfestingar-skrifstofa.png (124966 bytes)

Félagslegir þættir

Félagsleg viðmið taka einkum mið af því hvernig hugað er að málefnum starfsfólks svo og því umhverfi sem það starfar í, s.s. jafnrétti innan fyrirtækja, almennum mannréttindum og öryggi.

abyrgar-fjarfestingar-fundur.png (135686 bytes)

Stjórnarhættir

Stjórnarhættir snúa m.a. að fjölbreytni og fyrirkomulagi stjórna, stjórnun og skipulagi, birgjum, kjörum starfsfólks og aðgerðum gegn spillingu og mútum.

Grunngildi og viðmið

Grunngildi Frjálsa í ábyrgum fjárfestingum eru að félög sem sjóðurinn á eignarhlut í fari að þeim lögum og reglum sem um starfsemi þeirra gilda. Að auki setur sjóðurinn sér viðmið um ábyrgar fjárfestingar með hliðsjón af grunngildum Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð (e. Un Global Compact) og með því vinnur sjóðurinn að Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Verklag ábyrgra fjárfestinga

Við innleiðingu verklags um ábyrgar fjárfestingar í starfshætti sína hefur Eignastýring Arion banka einkum horft til þriggja grunnþátta sjálfbærni þ.e. umhverfisþátta, félagslegra þátta og stjórnarhátta.

Við eignastýringu sjóðsins er tekið tillit til UFS þátta í allri greiningarvinnu á stökum fjárfestingum eða sjóðum og kallað eftir viðeigandi upplýsingum um UFS þætti sem nýttar eru við heildarmat fjárfestingarákvarðana. Stuðst er við UFS áhættumat frá félaginu Reitun til þess að greina ófjárhagslega upplýsingargjöf skráðra innlendra félaga á Aðallista Nasdaq Iceland. UFS áhættumatið er byggt á um 29 undirflokkum sem snúa að umhverfis- og félagsþáttum og stjórnarháttum. Einnig birtir Reitun upplýsingar um kolefnislosun félagana. Við UFS mat á öðrum eignaflokkum en skráðum innlendum félögum er einnig stuðst við greiningu Reitunar. Þau félög sem Reitun tekur ekki út en eru í eignasafni, eru metin út frá stefnum, skýrslum tengdum samfélagslegri ábyrgð og/eða öðrum viðeigandi gögnum. Hvað varðar sjóðastýringarfyrirtæki er spurningarlisti sendur út þar sem markmiðið er að svör taki til stefnu þeirra í ábyrgum fjárfestingum, svo sem hvort félög eru aðilar að UN PRI, til hvaða viðmiða sé horft í fjárfestingum ásamt því hvernig rekstraraðili eða sjóður nálgast samfélagsábyrgð í fjárfestingum.

Megináherslan við UFS mat er á aðrar eignir en eignir í slitaferli, ríkisskuldabréf/sjóði, sjóðfélagalán og fjárfestingarkosti líkt og afleiðusamninga sem fylgja hefðbundnum viðskiptum með fjármálagerninga.

Nánari upplýsingar um samfélagsábyrgð rekstraraðila sjóðsins, Arion banka, má finna hér.

Hluthafastefna 

Hluti af stefnu um ábyrgar fjárfestingar er hluthafastefna sem stjórn hefur sett sjóðnum en í henni eru skilgreindar kröfur sjóðsins til stjórnarhátta í innlendum skráðum félögum þar sem hann er hluthafi. Þar kemur fram hvenær og hvernig sjóðurinn hyggst beita sér sem hluthafi, hvaða kröfur sjóðurinn gerir til þeirra félaga sem hann fjárfestir í ásamt því að stuðla að auknu gagnsæi og trúverðugri aðkomu sjóðsins að félögum sem hann á í. Meðal annars er fjallað um:

  • Gildisvið
  • Samkeppnissjónarmið
  • Val og kröfur til stjórnarmanna
  • Samskipti við stjórnarmenn og stjórnendur
  • Starfskjör

Árlega setur Frjálsi upplýsingar á vefsíðuna um hvernig sjóðurinn greiddi atkvæði á hluthafafundum þeirra félaga sem falla undir stefnuna.

Kolefnisfótspor

Eignastýring Arion banka fyrir hönd sjóðsins hefur stigið frekari skref í greiningu á eignasafni sjóðsins. Meðal annars hefur verið lagt mat á kolefnisfótspor beinnar eignar í innlendum skráðum félögum og hlutfall grænna fjárfestinga í eignasafni sjóðsins áætlað.

Helsta losun gróðurhúsalofttegunda Frjálsa er í gegnum fjárfestingar sjóðsins og á sér stað í gegnum eignarhald í fyrirtækjum, beint og óbeint. Yfirlit um kolefnissporið takmarkast nú við skráð innlend félög en í framtíðinni er stefnt að því að ná enn frekar utan um kolefnisfótspor eignasafnsins. Áætluð nettó CO2 losun vegna beins eignarhlutar í árslok 2021 í innlendum skráðum félögum miðað við tölur frá félögunum fyrir árið 2020 var 1441,2 tonn eða 0,35 tonn á hverja 100 m. kr. í eignasafni Frjálsa í heild sinni, en nánari skiptingu má sjá í neðangreindri mynd.

Kolefnisspor innlendra skráðra hlutabréfa

Grænar fjárfestingar

 Árið 2021 sameinuðust lífeyrissjóðir um flokkun grænna eigna í kjölfar viljayfirlýsingar gagnvart alþjóðlegu samtökunum CIC. Í töflunni hér að neðan má sjá þær eignir Frjálsa sem flokkuðust sem grænar fjárfestingar í árslok 2021. Vinnan við flokkun á heildareignasafni Frjálsa er nú þegar langt komin og verður haldið áfram þar til yfir lýkur.

Grænar fjárfestingar í hlutabréfum

  Heiti félags Hlutfall af heildareignum CIC hæfi - hlutfall*
  HSV eignarhaldsfélag slhf.
0,42% 100%
  Innviðir fjárfestingar slhf.
0,11% 92%
  Jarðvarmi slhf.
0,69% 100%
  Reginn hf. 0,59% 23%
  Stefnir - Íslenski Athafnasjóðurinn I
0,01% 73%

 

Grænar fjárfestingar í skuldabréfum

  Heiti útgefanda Hlutfall af heildareignum CIC hæfi - hlutfall*
  HS veitur hf. - 15.06.2033
0,08% 100%
  Íslandsbanki hf. - 26.11.2025
0,12% 100%
  Landsnet hf. - 15.04.2034 0,23% 100%
  Lánasjóður sveitarfélaga - 04.04.2040
0,04% 100%
  Orkuveita Reykjavíkur hf. - 02.09.2034
0,15% 100%
  Orkuveita Reykjavíkur hf. - 18.02.2042
0,09% 100%
  Orkuveita Reykjavíkur hf. - 18.02.2055
1,67% 100%
  Orkuveita Reykjavíkur hf. - 9.5.2046
0,91% 100%
  RARIK ohf. - 15.12.2035
0,01% 100%
  Reginn hf. - 20.08.2050
0,44% 100%
  Reykjavíkurborg - 21.10.2048
0,37% 100%
  Reykjavíkurborg - 21.8.2040
0,29% 100%

*CIC hæfi segir til um hve hátt hlutfall af markaðsvirði eignar telst til yfirlýsts markmiðs sjóðsins um grænar fjárfestingar gagnvart CIC samtökunum.

Ábyrgar fjárfestingar