Saga Frjálsa lífeyrissjóðsins

Almennt um íslenska lífeyrissjóðakerfið

Íslensku lífeyrissjóðirnir eiga sér mislanga sögu. Rekja má uppruna elstu lífeyrissjóðanna allt aftur til upphafs 20. aldar og var þátttaka í lífeyrissjóðum einna helst bundin við starfsmenn hins opinbera, vissra sveitarfélaga, banka og stærri fyrirtæki. Á almennum vinnumarkaði voru það kjarasamningar sem gerðir voru árið 1969 sem leiddu til stofnunar lífeyrissjóða fyrir launafólk. Með lagasetningu árið 1974 var lögfest skylduaðild allra launþega að starfstéttartengdum lífeyrissjóði. Vinnuveitendum á almennum vinnumarkaði var ennfremur gert skylt að halda eftir af launum iðgjaldahluta starfsfólks og greiða til viðkomandi lífeyrissjóðs ásamt mótframlagi laungreiðanda. Lagasetning árið 1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda útvíkkaði þessa skyldu til sjálfstætt starfandi einstaklinga í atvinnurekstri.

Það var ekki síst þessi síðastnefnda lagasetning sem skapaði forsendur fyrir stofnun séreignarlífeyrissjóða og er Frjálsi lífeyrissjóðurinn („Frjálsi“) elstur þeirra, stofnaður árið 1978. Allar greiðslur sem í hann runnu mynduðu séreign sem erfist við fráfall sjóðfélaga. Starfshópa- og stéttarfélagssjóðir eru hins vegar í flestum tilfellum samtryggingarsjóðir.

Með lífeyrislögum nr. 129/1997 var loks samþykkt heildarlöggjöf um starfsemi lífeyrissjóða. Lögin skilgreina inntak skyldutryggingar lífeyrissjóðakerfisins ásamt ákvæðum um samninga um lífeyrissparnað. Þá setja lögin almenna umgjörð og skilyrði fyrir rekstri lífeyrissjóða.

Stofnun samtryggingardeildar Frjálsa og sérstaða sjóðsins

Ein helsta nýjung lífeyrisslaganna frá 1997 er ákvæði um lágmarkstryggingavernd sem hverjum lífeyrissjóði ber að tryggja sjóðfélögum sínum. Lágmarkstryggingavernd sem lífeyrissjóður veitir, miðað við 40 ára inngreiðslutíma iðgjalds, skal fela í sér 56% af þeim mánaðarlaunum sem greitt er af í mánaðarlegan lífeyri ævilangt frá þeim tíma sem taka hans hefst, þó ekki síðar en frá 70 ára aldri. Þá felst í lágmarkstryggingaverndinni réttindi til örorkulífeyris, ásamt því að maka- og barnalífeyri er jafnað milli sjóðfélaga.

Lífeyrissjóðum ber að tilgreina í samþykktum sínum það iðgjald sem þarf til að standa undir þeirri lágmarkstryggingavernd sem þeir veita. Ef ekki reynist nauðsynlegt að verja öllu lágmarksiðgjaldinu, þ.e. 12%, til öflunar lágmarkstryggingaverndar, getur viðkomandi einstaklingur áunnið sér viðbótartryggingavernd í frjálsri séreign. Þegar til greiðslu lífeyris kemur fær sjóðfélagi þá bæði greiðslu úr samtryggingardeild og af séreign sinni. Sérstaða séreignar er að hún er erfanleg.

Frá 1. júlí 1999 hefur Frjálsi því starfrækt samtryggingardeild fyrir skyldulífeyrissparnað ásamt séreignardeild. Sérstaða Frjálsa felst í að sameina kosti samtryggingar og séreignar með því að tryggja lágmarksellilífeyri úr samtryggingu en bjóða að auki þann kost að hluti skylduiðgjalda fer í erfanlega frjálsa séreign en um hana gilda sveigjanlegri útgreiðslureglur. Frjálsi býður jafnframt upp á þann kost að tryggja hluta af lágmarksellilífeyrir úr svokallaðri bundinni séreign og myndar sú leið ennþá meiri erfanlega séreign fyrir sjóðfélaga.

Nánar má fræðast um þær leiðir sem Frjálsi býður sjóðfélögum sínum hér

Rekstrarfyrirkomulag sjóðsins

Frá stofnun Frjálsa árið 1978 hefur verið kveðið á um aðkomu stofnanda og rekstraraðila að stjórn og umsjón sjóðsins. Þessu hefur nú verið breytt en á ársfundi sjóðsins í maí 2018 var horfið frá því fyrirkomulagi að rekstraraðili skipi aðila í stjórn sjóðsins. Frá og með ársfundi 2019 verða allir stjórnarmenn kjörnir á ársfundi. Frjálsi var stofnaður af Fjárfestingafélagi Íslands, var síðar í umsjá Scandia á Íslandi, Fjárvangs og Frjálsa fjárfestingabankans.

Núverandi aðkoma Arion banka að rekstri sjóðsins er tilkomin vegna kaupa Kaupþings á Frjálsa fjárfestingarbankanum árið 2001 en með þeim kaupum yfirtók Kaupþing réttindi og skyldur gagnvart Frjálsa. Lífeyrissjóðurinn Eining og Séreignalífeyrissjóðurinn voru stofnaðir af Kaupþingi og forvera hans og annaðist bankinn rekstur sjóðanna þar til þeir voru sameinaðir Frjálsa.

Um rekstrarfyrirkomulag Frjálsa er fjallað í sérstökum samningi sem stjórn lífeyrissjóðsins gerir fyrir hönd sjóðsins og sjóðfélaga hans um rekstur og eignastýringu. Samningurinn tekur mið af leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins nr. 6/2014, um útvistun hjá eftirlitsskyldum aðilum, og er gerður á grundvelli sérstakrar stefnu sem stjórn sjóðsins setur sér um útvistun. Samningurinn er ennfremur sendur til Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitið sinnir eftirliti með sjóðnum sem miðar að því að starfsemin sé í samræmi við ákvæði lífeyrislaga, reglugerða og reglna setta samkvæmt þeim og staðfestum samþykktum sjóðsins.

Hægt er að kynna sér efni rekstrarsamningsins hér.