Frétt

Sérhæfðar fjárfestingar Frjálsa

Sérhæfðar fjárfestingar Frjálsa

Frjálsi leggur áherslu á gagnsæja og góða upplýsingagjöf til sjóðfélaga en sjóðurinn birtir t.d. rekstrarsamning sjóðsins við rekstraraðilann, Arion banka. Framkvæmd hluthafastefnu Frjálsa er jafnframt aðgengileg á vefsvæði sjóðsins ásamt því að Frjálsi heldur úti Lykilupplýsingarsíðu þar sem markmiðið er stöðugt að bæta aðgengi sjóðfélaga að lykilupplýsingum úr starfsemi sjóðsins. Frjálsi var fyrsti lífeyrissjóðurinn sem ákvað eftir efnahagshrunið 2008 að birta sundurliðun á einstökum fjárfestingum á vef sjóðsins og er sundurliðunin uppfærð ársfjórðungslega. Liður í þessari vegferð er neðangreind umfjöllun um sérhæfðar fjárfestingar sjóðsins.

Mikilvægi áhættudreifingar

Í fjárfestingarstefnu Frjálsa hefur það markmið verið haft að leiðarljósi að byggja upp dreift safn verðbréfa. Mikilvægi áhættudreifingar verður seint ofmetið sem grunnþáttur í uppbyggingu eignasafna þar sem fjárfestingartími er langur.

Til að ná fram áhættudreifingu fjárfestir sjóðurinn í ólíkum eignum og eignaflokkum bæði innanlands og erlendis. Áhættudreifingin felur í sér að þrátt fyrir að breytingar á verðþróun einstakra eigna eigi sér stað, þá sé ólíklegt að allar fjárfestingar þróist samtímis á sambærilegan hátt. Með dreifingu og vali mismunandi fjárfestinga í eignasöfnum má því draga úr sveiflum á ávöxtun eigna í heild sinni.

Óhætt er að fullyrða að ef markmið er að hámarka ávöxtun þá er ekki skynsamleg fjárfestingarstefna að taka aldrei áhættu. Í því samhengi er ljóst að þegar áhætta er tekin í fjárfestingum þá leiðir hún stundum til ávinnings en einnig stundum til taps. Markmiðið er að ávinningur af fjárfestingum sem ganga vel sé meiri en tap fjárfestinga sem ganga illa og að eignasafnið í heild skili þar með sjóðfélögum góðri ávöxtun.

Sérhæfðar fjárfestingar eftir efnahagshrunið 2008

Frjálsi hefur um árabil fjárfest hluta af eignasafni sínu í sérhæfðum fjárfestingum. Með sérhæfðum fjárfestingum er almennt átt við fjárfestingar sem fela í sér lengri tíma bindingu, eru óskráðar og illseljanlegri en hefðbundnari fjárfestingar til skemmri tíma. Slíkar fjárfestingar fela oft í sér væntingar um góða ávöxtun en oft er áhættan að sama skapi heldur meiri en þegar fjárfest er t.d. í skráðum verðbréfum. Dæmi um sérhæfðar fjárfestingar eru framtaksfjárfestingar, fasteignafjárfestingar, fjárfestingar í innviðum og öðrum verkefnum.

Eftir efnahagshrunið 2008 lagði Frjálsi töluverða áherslu á innlendar sérhæfðar fjárfestingar. Ástandið var með þeim hætti að innlent fjárfestingarumhverfi umturnaðist á afar skömmum tíma, gjaldeyrishöft voru sett á, skráður markaður verðbréfa féll að stórum hluta og á öðrum mörkuðum, svo sem fasteignamarkaði, var staðan í járnum. Að baki lá það sjónarmið að í flokknum fælust mikil tækifæri og því réttlætanlegt að auka heldur áhættu í eignasöfnum innan skynsamlegra marka.

Árangur sérhæfðra fjárfestinga

Í heild sinni hefur árangur sérhæfðra fjárfestinga frá þessum tíma til dagsins í dag verið góður. Forsendur flestra fjárfestinga hafa gengið eftir en þó eru líka dæmi um að fjárfestingar hafi farið verr en upphaflegar forsendur gerðu ráð fyrir.

Sé litið yfir farinn veg til þeirra fjárfestinga, sjóða og verkefna þar sem líftíma er lokið eða fjárfestingar eru komnar langt á veg er heildarniðurstaðan jákvæð um 3,9 milljarða kr. hjá Frjálsa. Hér á eftir er fjallað stuttlega um þessar sérhæfðu fjárfestingar.

 

*Byggt á nýjustu upplýsingum frá forsvarsmönnum viðkomandi fjárfestinga og með fyrirvara um skekkjur í útreikningum

  • Jarðvarmi: Árið 2011 fjárfesti Frjálsi í HS Orku, sem er innviðafjárfesting í tengslum við sölu endurnýjanlegra orkugjafa. Árleg ávöxtun er um 7%.
  • SF V: Árið 2014 fjárfesti Frjálsi í félagi sem var stofnað utan um fjárfestingu í Festi, sem á sínum tíma var meðal annars verslanirnar Krónan og Elko. Árleg ávöxtun var um 27%.
  • HSV Eignarhaldsfélag: Árið 2015 fjárfesti Frjálsi í HS Veitum, sem er innviðafjárfesting í tengslum við vatnsdreifikerfi. Árleg ávöxtun er um 29%.
  • Fasteignasjóðir SRE I og SRE II: Árið 2011 tók Frjálsi þátt í fasteignasjóðunum SRE I og SRE II á vegum sjóðastýringarfyrirtækisins Stefnis þar sem meðal annars var fjárfest í Icelandair hótelinu á Akureyri, húsnæði Nýherja, Hótel Borg og Advania. Árleg ávöxtun var um 10% og 25%.
  • Framtaksfjárfestingasjóðurinn HORN II: Árið 2013 ákvað Frjálsi að fjárfesta í framtaksfjárfestingasjóðnum Horn II á vegum sjóðastýringarfyrirtækisins Landsbréfa sem meðal annars fjárfesti í félögunum Hvatningu, stærsta eiganda Bláa Lónsins, Fáfni Offshore og Kea hótelum. Árleg ávöxtun er um 25%.
  • Íslenski Athafnasjóðurinn: Árið 2011 ákvað Frjálsi að taka þátt í Íslenska athafnasjóðnum á vegum Stefnis sem meðal annars fjárfesti í Högum og Sjóvá. Árleg ávöxtun um 18%.
  • Íslenski Athafnasjóðurinn II: Árið 2013 fjárfesti Frjálsi í framhaldssjóð Íslenska athafnasjóðsins á vegum Stefnsi, Íslenska athafnasjóðsins II. Hann fjárfesti meðal annars í Festi og Skeljungi. Árleg ávöxtun er um 14%.
  • Edda slhf: Árið 2013 fjárfesti Frjálsi í innlenda framtakssjóðnum Eddu hjá sjóðastýringarfyrirtækinu Virðingu. Sjóðurinn fjárfesti meðal annars í Dominos, Securitas, Marorku og Íslands hótelum. Árleg ávöxtun er um 13%.
  • Veðskuldabréfasjóðir: Á árunum 2014-2017 hefur Frjálsi fjárfest í veðskuldabréfasjóðunum Alda Credit Fund (I, II), Veðskuld (II, III) og Landsbréf Veðskuldabréfasjóð en um er að ræða fjárfestingu í innlendum veðskuldabréfum þar sem undirliggjandi eru meðal annars skuldabréf með veð í fasteignum. Árleg ávöxtun veðskuldabréfasjóðanna er um 6%.
  • Kjölfesta: Árið 2012 fjárfesti Frjálsi í framtakssjóðnum Kjölfestu sem var samstarf Virðingar og ALM ráðgjafar. Sjóðurinn fjárfesti meðal annars í Meniga, Oddi, Senu, Íslands hótel. Árleg ávöxtun er um 0,5%.
  • SF VI slhf: Árið 2014 fjárfesti Frjálsi í SF VI á vegum Stefnis sem var fjárfesting í Gagnaverinu Verne Global á Reykjanesi. Árleg ávöxtun er um -5%.
  • PCC Bakki: Árið 2015 fjárfesti Frjálsi í kísilverksmiðju við Húsavík. Þrátt fyrir að líftíma verkefnisins sé ekki lokið og ekki komið að endapunkti þá hafa erfiðleikar í rekstri og aukin fjárþörf orðið til þess að sjóðurinn gerði síðastliðið ár varúðarniðurfærslu á eigninni sem nam 0,25% af eignum sjóðsins.
  • United Silicon: Árið 2015 fjárfesti Frjálsi í kísilverinu United Silicon í Helguvík á Reykjanesi. Sívaxandi rekstrarerfiðleikar og rökstuddur grunur um sviksemi varð þess valdandi að fjárfestingin tapaðist að endingu að fullu en hún nam rúmlega hálfu prósenti af eignum sjóðsins.

Áhersla á sérhæfðar fjárfestingar erlendis

Í dag eru innlendar sérhæfðar fjárfestingar enn hluti af fjárfestingamengi Frjálsa en eftir afnám gjaldeyrishafta hefur í auknum mæli, verið horft til erlendra sérhæfðra fjárfestinga.

Í fjárfestingarstefnu sjóðsins fyrir árið 2020 var skilgreint sérstakt markmið um fjárfestingu í erlendum sérhæfðum fjárfestingum þar sem horft er til fjárfestinga líkt og framtaksfjárfestinga, fasteignafjárfestinga, fjárfestinga í innviðum svo og í öðrum verkefnum. Stefnt er að því að staða í þessum eignaflokki verði byggð upp á næstu árum.