Frétt

Sjóðfélagalýðræði aukið

Sjóðfélagalýðræði aukið

Stjórn sjóðsins leggur til við ársfund að samþykktum verði breytt á þann veg að nafn Arion banka verði tekið út sem rekstraraðili Frjálsa. Þetta er meginbreyting því allt frá stofnun Frjálsa 1978 hefur nafn rekstraraðila verið bundið í samþykktum sjóðsins. Nú er í fyrsta skipti í 40 ára sögu vikið frá þessu með tillögu um að stjórn verði veitt heimild til þess að gera rekstrarsamning við fjármálafyrirtæki eða annan hæfan aðila um daglegan rekstur sjóðsins.

Það er lykilákvæði í breytingartillögu meirihluta stjórnar, að hyggist stjórn gera breytingar á rekstrarfyrirkomulagi sjóðsins eða vali á rekstraraðila, skuli slík tillaga vera borin undir sjóðfélaga og hljóta samþykki a.m.k. 2/3 hluta greiddra atkvæða. Aukinn meirihluti til breytinga á samþykktum sjóðsins hefur verið reglan hjá Frjálsa frá stofnun. Tillagan er í samræmi við ályktun sem samþykkt var á síðasta ársfundi sjóðsins. Verði hún samþykkt stuðlar hún að sjóðfélagalýðræði, takmarkar vald stjórnar og gerir það engum vafa undirorpið að sjóðurinn hefur fullt frelsi um fyrirkomulag á rekstri sínum.

Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefur frá stofnun útvistað rekstri og eignastýringu til fjármálafyrirtækis. Nýlega ákvað stjórn að framkvæmdastjóri sjóðsins yrði gerður að starfsmanni hans og er hann fyrsti starfsmaður sjóðsins frá upphafi. Jafnframt að innri endurskoðun bankans verði flutt frá rekstraraðilanum, Arion banka, til endurskoðunarfélags. Til að stuðla að gagnsæi var samningur við rekstraraðila gerður opinn öllum á vef sjóðsins. Að loknum ársfundi sjóðsins nk. mánudag, verða allir stjórnarmenn hans kosnir af sjóðfélögum í samræmi við ákvörðun sjóðfélaga í fyrra. Lýkur þá skipun rekstraraðila á minnihluta stjórnar. Jafnframt verður lýðræðið eflt í sjóðnum með heimild stjórnar til að hafa rafrænar kosningar sem auka möguleika sjóðfélaga til þess að hafa áhrif.

Eins og áður sagði verður ársfundurinn haldinn á morgun mánudaginn 13. maí nk. kl. 17:15 í höfuðstöðvum Arion banka að Borgartúni 19. Vænst er góðrar mætingar á ársfundinn.

Frjálsi er fimmti stærsti lífeyrissjóður landsins með um 267 milljarða í hreina eign og um 60 þúsund sjóðfélaga sem hafa valið að greiða í sjóðinn.

Nánari upplýsingar um ársfund Frjálsa.