Frétt

Grein eftir formann og varaformann stjórnar Frjálsa um komandi ársfund sjóðsins

Grein eftir formann og varaformann stjórnar Frjálsa um komandi ársfund sjóðsins

 Ásdís Eva Hannesdóttir, formaður stjórnar Frjálsa, og Magnús Pálmi Skúlason, varaformaður, skrifuðu grein um komandi ársfund sjóðsins sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Greinina er að finna hér fyrir neðan.

Frjálsi óbundinn rekstraraðila

Eftir Ásdísi Evu Hannesdóttur og Magnús Pálma Skúlason

Ársfundir lífeyrissjóða eru að öllum jafnaði fámennir og tiltölulega stuttir. Svo var þó ekki á ársfundi Frjálsa lífeyrissjóðsins í fyrra. Þar var fjölmenni á löngum fundi. Vonandi verður einnig góð mæting á ársfundinum, sem haldinn verður næstkomandi mánudag, enda eru margir í framboði til stjórnar og fyrir liggja tillögur frá stjórn og frá einum stjórnarmanni um breytingar á samþykktum sjóðsins.

Það er vel að áhuginn skuli vera mikill enda stendur Frjálsi fyrir frelsi í lífeyrismálum sem hefur reynst mikilvægt í þróun lífeyriskerfisins. Frá stofnun sjóðsins hafa sjóðfélagar getað valið að ráðstafa hluta af skylduiðgjaldi í séreign sem er erfanleg og býður upp á sveigjanlegar útgreiðslur. Enginn lífeyrissjóður, sem er opinn öllum, býður upp á að ráðstafa eins háu hlutfalli skylduiðgjalds í séreignarsparnað. Sjóðfélagar Frjálsa velja að greiða í sjóðinn og eru ekki undir neinni nauðung. Líki þeim ekki starfsemi sjóðsins, þá geta þeir hvenær sem er ákveðið að greiða iðgjöld í annan sjóð og flutt séreign sína úr sjóðnum. Um 60 þúsund sjóðfélagar hafa valið að greiða í sjóðinn og enginn frjáls sjóður er með eins marga virka sjóðfélaga. Á síðasta ári völdu tæplega 23 þúsund sjóðfélagar að greiða iðgjöld til sjóðsins.

Ávöxtun sjóðsins hefur verið góð undanfarin ár. Síðastliðið eitt ár er ávöxtun fjárfestingarleiða sjóðsins 8,2% - 14,1%, sl. 5 ár 5,8% - 8,9% og sl. 10 ár 7,2%-10,7% á ársgrundvelli.

Frjálsi í umbreytingarferli

Stjórn Frjálsa hefur í sameiningu unnið að breytingum á samþykktum sjóðsins, m.a. í ljósi umræðna á síðasta ársfundi og ábendinga frá Fjármálaeftirlitinu um nauðsyn þess að gæta að orðsporsáhættu vegna rekstrarsamnings sjóðsins við Arion banka. Stjórnin leggur til við ársfund að samþykktum verði breytt á þann veg að nafn Arion banka verði tekið út sem rekstraraðili Frjálsa. Þetta er meginbreyting því allt frá stofnun Frjálsa 1978 hefur nafn rekstraraðila verið bundið í samþykktum sjóðsins. Nú er í fyrsta skipti í 40 ára sögu vikið frá þessu með tillögu um að stjórn verði veitt heimild til þess að gera rekstrarsamning við fjármálafyrirtæki eða annan hæfan aðila um daglegan rekstur sjóðsins.

Breytingatillaga eins stjórnarmanns snýr að því að gera stjórnina einráða um að ákveða rekstraraðila. Það er hinsvegar lykilákvæði í breytingartillögu meirihluta stjórnar við samþykktir sjóðsins, að hyggist stjórn gera breytingar á rekstrarfyrirkomulagi sjóðsins eða vali á rekstraraðila, skuli slík tillaga vera borin undir sjóðfélaga og hljóta samþykki a.m.k. 2/3 hluta greiddra atkvæða. Aukinn meirihluti til breytinga á grunnsamþykktum hefur verið reglan hjá Frjálsa og er til þess fallin að skapa festu í stjórnskipan. Tillagan er í samræmi við ályktun sem samþykkt var á síðasta ársfundi sjóðsins. Verði hún samþykkt stuðlar hún að sjóðfélagalýðræði, takmarkar vald stjórnar og gerir það engum vafa undirorpið að sjóðurinn hefur fullt frelsi um fyrirkomulag á rekstri sínum.

Sjóðfélagar kjósa stjórn

Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefur frá stofnun útvistað rekstri og eignastýringu til fjármálafyrirtækis. Nýlega ákvað stjórn að framkvæmdastjóri sjóðsins yrði gerður að starfsmanni hans og er hann fyrsti starfsmaður sjóðsins frá upphafi. Jafnframt að innri endurskoðun bankans verði flutt frá rekstraraðilanum, Arion banka, til endurskoðunarfélags. Til að stuðla að gagnsæi var samningur við rekstraraðila gerður opinn öllum á vef sjóðsins. Að loknum ársfundi sjóðsins nk. mánudag, verða allir stjórnarmenn hans kosnir af sjóðfélögum í samræmi við ákvörðun sjóðfélaga í fyrra. Lýkur þá skipun rekstraraðila á minnihluta stjórnar.

Einhverjir hafa látið að því liggja að það vaki fyrir stjórn Frjálsa að binda sjóðinn enn frekar við Arion banka. Eins og hér hefur verið rakið er það fjarri lagi. Þvert á móti er með tillögum stjórnar verið að ryðja allri bindingu úr samþykktum sjóðsins. Jafnframt verður lýðræðið eflt í sjóðnum með rafrænum kosningum sem auka möguleika sjóðfélaga til þess að hafa áhrif.


Höfundar eru formaður og varaformaður stjórnar Frjálsa.