Frétt

Athugasemd við fyrirsögn í ViðskiptaMogganum

Athugasemd við fyrirsögn í ViðskiptaMogganum

Tilkynningin hér fyrir neðan var send Morgunblaðinu í gær, 8. maí,  vegna fréttar sem birtist í blaðinu um komandi ársfund sjóðsins.

Athugasemd við fyrirsögn í ViðskiptaMogga 

Stjórn Frjálsa lífeyrissjóðsins gerir athugasemd við fyrirsögn fréttaklausu í ViðskiptaMogganum 8. maí. sl.: „Vilja festa samstarf við Arion banka í sessi“, segir í fyrirsögninni sem endurspeglar ekki áform stjórnarinnar.

Á komandi ársfundi mánudaginn 13. maí nk. leggur stjórn sjóðsins til að samþykktum hans verði breytt á þann veg að nafn Arion banka verði tekið út sem rekstraraðili sjóðsins. Í stað þess verði stjórn veitt heimild til þess að gera rekstrarsamning við fjármálafyrirtæki eða annan hæfan aðila um daglegan rekstur sjóðsins. Það er mikilvægt ákvæði í breytingartillögu stjórnar, að hyggist hún gera breytingar á rekstrarfyrirkomulagi sjóðsins eða vali á rekstraraðila, skuli slík tillaga vera borin undir sjóðfélaga og hljóta samþykki a.m.k. 2/3 hluta greiddra atkvæða, líkt og gildir um breytingar á samþykktum almennt. Tillagan er í samræmi við ályktun, sem samþykkt var á síðasta ársfundi sjóðsins. Verði hún samþykkt er sjóðfélagalýðræði aukið og engum vafa undirorpið að sjóðurinn hefur fullt frelsi um fyrirkomulag á rekstri sínum.

Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefur frá stofnun útvistað rekstri og eignastýringu til fjármálafyrirtækis. Nýlega var framkvæmdastjóri sjóðsins gerður að starfsmanni hans og er hann fyrsti starfsmaður sjóðsins frá upphafi. Ákveðið hefur verið að innri endurskoðun sjóðsins verður flutt frá rekstraraðilanum, Arion banka, til endurskoðunarfélags.  Að loknum ársfundi sjóðsins nk. mánudag, verða allir stjórnarmenn hans kosnir af sjóðfélögum í samræmi við ákvörðun þeirra í fyrra. Lýkur þá skipun Arion banka á minnihluta stjórnar.

Allar ofangreindar breytingar miða að því að skerpa á sjálfstæði sjóðsins og minnka orðsporsáhættu sem útvistunin á rekstri hans felur í sér.

Ásdís Eva Hannesdóttir formaður
Magnús Pálmi Skúlason varaformaður