Frétt

Ávöxtun fjárfestingarleiða Frjálsa lífeyrissjóðsins og þróun markaða á fyrri helming ársins 2017

Ávöxtun fjárfestingarleiða Frjálsa lífeyrissjóðsins og þróun markaða á fyrri helming ársins 2017

Nafnávöxtun fjárfestingarleiða Frjálsa lífeyrissjóðsins síðastliðna 12 mánuði, miðað við lok júní, var á bilinu 2,6% til 5,9%. Meðalnafnávöxtun sjóðsins síðustu fimm ár er á bilinu 4,7% til 8,4%. Sem samsvarar raunávöxtun á bilinu 2,5% til 6,2%. Fyrir einstakar fjárfestingaleiðir gilda ólíkar fjárfestingarstefnur sem skýra muninn á ávöxtun milli fjárfestingarleiða.

Nánari upplýsingar um ávöxtun sjóðsins er að finna hér.

 

Ávöxtun Frjálsa og þróun markaða á fyrri helming árs 2017

Ávöxtun

Frjálsi áhætta, sem er áhættumesta fjárfestingarleið sjóðsins, skilaði 3,6% nafnávöxtun á fyrstu sex mánuðum ársins, sem samsvarar 2,5% raunávöxtun. Jákvæða ávöxtun má rekja til hækkunar á innlendum skuldabréfum og hlutabréfum, en Frjálsi Áhætta er sú leið sjóðsins sem hefur mesta vægi innlendra hlutabréfa, eða um 40% af eignum leiðarinnar um mitt ár.

Frjálsi 1, sem er  stærsta, fjölmennasta og elsta leið sjóðsins skilaði 3,0% nafnávöxtun eða 2,0% raunávöxtun á fyrri helming ársins. Þá jákvæðu ávöxtun má rekja til hækkunar á innlendum hlutabréfum og skuldabréfum.

Frjálsi 2 skilaði 3,5% nafnávöxtun sem jafngildir 2,4% raunávöxtun sem má rekja til hækkunar á innlendum skuldabréfum.

Frjálsi 3, sem er áhættuminnsta fjárfestingarleið sjóðsins skilaði 3,0% nafnávöxtun eða 1,9% raunávöxtun á tímabilinu. Fjárfestingaleiðin samanstendur af skuldabréfum og innlánum. Ávöxtunina má rekja til hækkunar á innlendum skuldabréfum, þá einkum verðtryggðra skuldabréfa, en um mitt ár nam vægi innlendra skuldabréfa um 91% og hlutfall innlána um 8% af eignum leiðarinnar.

Almennt efnahagsumhverfi

Það hefur verið áframhaldandi kraftur í efnahagslífinu á fyrri helmingi ársins og mældist hagvöxtur 5% á fyrsta ársfjórðungi. Hagvöxturinn var aðallega drifinn áfram af einkaneyslu og útflutningi. Atvinnuleysi mældist 2,9% á fyrsta ársfjórðungi og lækkaði um 0,3% milli ára. Uppgangur efnahagslífsins birtist líka í hröðum hækkunum húsnæðisverðs vegna vaxandi eftirspurnar sem er drifin áfram af auknum kaupmætti og fólksfjölgun á sama tíma og framboð hefur ekki tekið við sér sem skildi. Frá desember 2016 til maí 2017 hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 11,4% og stendur árstakturinn í 23,5%. Í mars voru fjármagnshöft að mestu afnumin, en helstu takmarkanir taka til vaxtamunaviðskipta og tiltekinna afleiðuviðskipta. Áhrifin á gengi krónunnar hafa fyrsta og fremst verið auknar sveiflur, enda felst mikil breyting á fjármagnsflæði til og frá landinu og því að innlendir aðilar megi nú fjárfesta nánast að vild erlendis. Að auki spilar inn í að Seðlabankinn hefur dregið mikið úr gjaldeyrisinngripum sínum.

Frá ársbyrjun hefur gengi krónu miðað við gengisvísitölu styrkst um tæp 5% og frá ársbyrjun 2016 nemur styrkingin rúmum 19%. Þessi gengisstyrking hefur allt í senn haft áhrif á útflutning, innflutning og verðlag. Þá virðist sem gengi krónu sé farið að hafa áhrif á ferðamenn sem birtist í að kortaveltutölur benda til að neysla hvers og eins ferðamanns hafi dregist saman í krónum talið. Loks hefur styrking krónunnar haldið aftur af verðbólgu en í júní mældist hún 1,5% en án húsnæðisliðsins mælist 3,1% verðhjöðnun.

Samfara áframhaldandi lítilli verðbólgu og lækkun verðbólguvæntinga hefur Seðlabankinn tvisvar sinnum lækkað vexti í ár, annars vegar í maí og hinsvegar í júní um samtals 0,5%. Meginvextir Seðlabankans, þ.e. vextir á 7 daga bundnum innlánum eru nú 4,5% og hafa þeir lækkað um 1,25% frá því í ágúst á síðasta ári. Síðustu tvær vaxtalækkanir hafa aðallega verið rökstuddar af bættum verðbólguhorfum vegna styrkingar krónunnar og því að raunvextir hafi hækkað vegna lítillar verðbólgu og lágrar verðbólguvæntinga. Verðbólguvæntingar markaðsaðila og fyrirtækja hafa lækkað síðustu misseri og eru innan verðbólgumarkmiða Seðlabankans, sem hefur stutt við vaxtalækkanir Seðlabankans. Næsta ákvörðun peningastefnunefndar verður kynnt 23. ágúst nk.

 

Innlendur hlutabréfamarkaður

Innlendur hlutabréfamarkaður var nokkuð kaflaskiptur á öðrum ársfjórðungi. Í kjölfar uppgjörslotu félaga á fyrsta ársfjórðungi færðist mikill kraftur í annan ársfjórðung og hafði Úrvalsvísitalan til að mynda hækkað um ríflega 12% frá byrjun fjórðungsins og fram í miðjan maímánuð. Uppgjör félaganna á fyrsta ársfjórðungi, sem birt voru á tímabilinu, voru heilt yfir góð og sýndu betri afkomu en á sama tíma í fyrra. Að hluta til má rekja ástæðuna til þess að uppgjörin á fyrsta ársfjórðungi 2016 voru heldur döpur í kjölfar mikilla kostnaðarhækkana, einkum vegna kjarasamningsbundinna launahækkana. Fram til loka fjórðungsins seig markaðurinn aftur niður og endaði Úrvalsvísitalan í 3,1% í lok júní.

 

 

Skuldabréfamarkaðurinn

Skuldabréfamarkaðurinn hefur verið nokkuð stöðugur á fyrri helmingi ársins í samanburði við síðustu ár og hefur ávöxtunarkrafa helstu markflokka ríkisskuldabréfa lækkað samfara lækkun stýrivaxta, lækkun raunvaxta og áframhaldandi lágrar verðbólgu. Þróunin á fyrsta og öðrum ársfjórðungi hefur verið mjög sambærileg með litlum breytingum og svo virðist sem vaxtalækkanir á öðrum ársfjórðungi hafi verið í takti við væntingar markaðarins.

 

 

 

Erlendir markaðir

Eftir talsverða umbrotatíma á erlendum mörkuðum árið 2016, sem litaðist m.a. af sveiflum í olíuverði, titringi í Asíu, forsetakosningum í Bandaríkjunum og Brexit, má segja að ró hafi færst yfir markaði á yfirstandandi ári. Helstu hlutabréfavísitölur í Asíu, Bandaríkjunum og Evrópu hafa hækkað og t.a.m. hækkaði MSCI heimsvísitalan um 17% á fyrri helmingi ársins, þar af um 5% á öðrum ársfjórðungi. Hækkanirnar hafa að einhverju leyti verið drifnar áfram af betri efnahagshorfum á heimsvísu en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur hækkað hagvaxtarspá sína fyrir þróuð ríki tvisvar sinnum á s.l. ári, fyrst í janúar og svo aftur í október. Hagvaxtarspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir árið 2017 stendur því í 3,5% hagvexti á heimsvísu í ár.