Frétt

Fjármálaeftirlitið ítrekar að sjóðfélagar sem ráðstafa hluta iðgjalds í séreignarsjóð ráða sjálfir í hvaða séreignarsjóð það verður

Fjármálaeftirlitið ítrekar að sjóðfélagar sem ráðstafa hluta iðgjalds í séreignarsjóð ráða sjálfir í hvaða séreignarsjóð það verður

Í dreifibréfi sem Fjármálaeftirlitið (FME) sendi lífeyrissjóðum fyrr í dag er vakin athygli á að sjóðfélagar sem ráðstafa hluta iðgjalds í tilgreinda séreign ráði sjálfir í hvaða séreignarsjóð það verður. Samkvæmt FME er tilefni bréfsins villandi fréttaflutningur og upplýsingar á heimasíðum lífeyrissjóða þar sem fram hefur komið að sjóðfélögum beri að ráðstafa iðgjaldi í tilgreinda séreign til sama lífeyrissjóðs og tekur við iðgjaldi vegna samtryggingar. Afstaða FME er í samræmi við þá skoðun Frjálsa lífeyrissjóðsins að sjóðfélagar geti valið sér vörsluaðila til að ávaxta tilgreinda séreign sína.

Sjóðfélögum fjölda lífeyrissjóða á almennum vinnumarkaði er heimilað að ráðstafa hluta af skylduiðgjaldi í svokallaða tilgreinda séreign frá 1. júlí 2017. Vegna þessa gerði Frjálsi lífeyrissjóðurinn breytingar á samþykktum til að geta verið valkostur fyrir sjóðfélaga annarra lífeyrissjóða sem vilja ávaxta tilgreinda séreign sína í Frjálsa.

Þegar að breytingar á samþykktum Frjálsa lífeyrissjóðsins hafa verið staðfestar af Fjármálaráðuneytinu þá geta sjóðfélagar annarra lífeyrissjóða gert samning við Frjálsa um greiðslu í tilgreinda séreign. Samkvæmt lögunum skal viðkomandi launagreiðandi eða lífeyrissjóður færa greiðslu samkvæmt ákvörðun sjóðfélaga án sérstaks kostnaðarauka fyrir sjóðfélagann.

Frjálsi lífeyrissjóðurinn fagnar afstöðu Fjármálaeftirlitsins sem er afdráttarlaus.

Frétt um málið á vef Fjármálaeftirlitsins