Frétt

Frjálsi lífeyrissjóðurinn valinn besti lífeyrissjóður Evrópu í sínum stærðarflokki

Frjálsi lífeyrissjóðurinn valinn besti lífeyrissjóður Evrópu í sínum stærðarflokki

Frjálsi lífeyrissjóðurinn var valinn besti lífeyrissjóður Evrópu í sínum stærðarflokki við hátíðlega athöfn sem haldin var í Barcelona í gær.

Í umsögn dómnefndar fagtímaritsins Investment Pension Europe (IPE), sem veitir verðlaunin árlega, kom meðal annars fram að samhliða öflugri áhættustýringu hafi Frjálsi lífeyrissjóðurinn sýnt framsýni í fjárfestingarákvörðunum sem hefur skilað sér í góðri ávöxtun og ánægðum sjóðfélögum. Þetta er þriðja árið í röð sem Frjálsi lífeyrissjóðurinn vinnur verðlaun IPE.

Frjálsi lífeyrissjóðurinn, sem er í rekstri hjá Arion banka, er með um 51 þúsund sjóðfélaga og eru eignir sjóðsins um 165 milljarðar. Sjóðurinn er einn fárra lífeyrissjóða sem býður sjóðfélögum að ráðstafa hluta af 12% skylduiðgjaldi sínu í séreignarsjóð. Hann hentar þeim sem hafa frjálst val um í hvaða lífeyrissjóð þeir greiða skylduiðgjald og jafnframt þeim sem leggja fyrir í viðbótarlífeyrissparnað.

Investment Pension Europe (IPE) er eitt virtasta tímarit Evrópu um lífeyrismál. Tímaritið veitir þeim lífeyrissjóðum verðlaun sem að mati dómnefndar IPE hafa skarað fram úr í sínu heimalandi og í Evrópu. Breski fyrirtækjalífeyrissjóðurinn British Steel Pension Fund var valinn besti lífeyrissjóður í Evrópu að þessu sinni.

 

Arnaldur Loftsson, framkvæmdastjóri Frjálsa lífeyrissjóðsins, með verðlaunagripinn sem hann fékk afhentan í gær.