Frambjóðendur

Samkvæmt samþykktum Frjálsa skal stjórn sjóðsins skipuð sjö sjóðfélögum og þremur til vara, kosnum af sjóðfélögum. Frambjóðandi til aðalstjórnar getur einnig gefið kost á sér til varastjórnar. Nái hann kjöri sem aðalmaður fellur framboðið til varastjórnar niður.

Á þessum ársfundi rennur út kjörtímabil Ásdísar Evu Hannesdóttur og Magnúsar Pálma Skúlasonar í aðalstjórn og Sigurðar H. Ingimarssonar í varastjórn. Þau hafa öll ákveðið að gefa kost á sér til endurkjörs.

Í ljósi samsetningar þeirra stjórnarmanna sem sitja áfram í stjórn er ljóst að í tilfelli aðalmanna til stjórnar skal kjósa einn frambjóðanda af hvoru kyni eða tvær konur. Í tilfelli varamanna skal kjósa eina konu eða karl.

Framboð til stjórnar þarf að liggja fyrir eigi síðar en 14 dögum fyrir ársfund, þ.e. þann 9. maí 2024. Senda skal tilkynningu um framboð á þar til gerðu eyðublaði sjóðsins sem finna má hér fyrir neðan auk nauðsynlegra fylgigagna á netfangið arsfundur@frjalsi.is.

Tilkynning um framboð til stjórnarsetu í Frjálsa 2024 

Nauðsynleg fylgigögn framboða:

  • Afrit af sakavottorði sem hægt er að sækja um hér
  • Búsforræðisvottorð sem hægt er að sækja um hér
  • Kynning á framboði fyrir vefsvæði Frjálsa

Framangreind fylgigögn skulu ekki vera eldri en fjögurra vikna frá auglýstum ársfundi.

Nánari upplýsingar má finna í reglum stjórnar Frjálsa lífeyrissjóðsins um framkvæmd ársfundar og rafræna atkvæðagreiðslu

Hæfisskilyrði til setu í stjórnum lífeyrissjóða

Fjallað er um hlutverk stjórna lífeyrissjóða og hæfisskilyrði sem þeir einstaklingar sem gefa kost á sér til setu í stjórnum lífeyrissjóða í 6. kafla laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Stjórnir lífeyrissjóða bera ábyrgð á rekstri sjóðanna og því er mikilvægt að frambjóðendur til stjórnar séu meðvitaðir um ábyrgð og skyldur stjórnarmanna.

Stjórnir lífeyrissjóðs annast m.a. eftirfarandi verkefni:

  • að móta fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðsins
  • að móta innra eftirlit lífeyrissjóðsins og skjalfesta eftirlitsferla
  • að móta eftirlitskerfi sem gerir sjóðnum kleift að greina, vakta, meta og stýra áhættu í starfsemi sjóðsins að ákveða hvernig innri endurskoðun skuli háttað
  • að setja áhættustefnu og móta eftirlitskerfi með áhættu sjóðsins
  • að láta fara fram tryggingafræðilega athugun á fjárhag sjóðsins
  • að semja ársreikning fyrir hvert reikningsár

Þá taka stjórnir lífeyrissjóða ákvarðanir um ráðstafanir sem teljast óvenjulegar eða mikils háttar.

Einstaklingar sem taka sæti í stjórn þurfa að uppfylla tiltekin hlutlæg skilyrði s.s. um lögræði, fjárhagslegt sjálfstæði og að hafa gott orðspor. Þá mega einstaklingar sem taka sæti í stjórn ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota og mega ekki hafa hlotið dóm á síðustu tíu árum fyrir refsiverðan verknað í tengslum við atvinnurekstur, samkvæmt lagabálkum sem taldir eru upp í 1. mgr. 31. gr. laga nr. 129/1997. Að auki skulu stjórnarmenn uppfylla huglægt hæfisskilyrði um nægilega þekkingu og starfsreynslu til að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt.

Fjármálaeftirlitið (FME) sker úr um hvort stjórnarmenn uppfylli hæfiskröfur laga og því þurfa einstaklingar sem bjóða sig fram til stjórnarsetu að vera reiðubúnir til að þreyta munnlegt hæfismat. Nánari upplýsingar um mat á hæfi má finna á heimasíðu FME. Á grundvelli laga hefur FME ennfremur sett reglur nr. 180/2013 þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd hæfismatsins.

Þá er frambjóðendum sérstaklega bent á grein sem birtist í vefriti Fjármálaeftirlitsins: Hverjir eiga erindi í stjórn lífeyrissjóðs?