Ársfundur 2021

Ársfundur Frjálsa verður haldinn fimmtudaginn 10. júní 2021 kl. 17:15
í höfuðstöðvum Arion banka, Borgartúni 19.*

 
Allir sjóðfélagar eru velkomnir á fundinn en einnig verður hægt að fylgjast með fundinum í gegnum vefstreymi. Innskráning fer fram með rafrænum skilríkjum. Vegna núgildandi sóttvarnarreglna er grímuskylda á fundinum og þurfa sjóðfélagar að skrá sig á fundinn hér fyrir neðan.

Sjóðfélagar eru minntir á að taka með sér skilríki með mynd og hvattir til að mæta tímanlega.

Tillögur um breytingar á samþykktum sjóðsins verða birtar á vef sjóðsins, frjalsi.is, tveimur vikum fyrir ársfund.

Í fyrsta sinn verður boðið upp á rafræna og skriflega kosningu til aðalstjórnar, sjá hér.

Upplýsingar um stjórnarkosningarnar og framboðsfrest má finna hér.

* Fundarstaður er birtur með fyrirvara um breytingar vegna samkomutakmarkana. Ef fundarstað verður breytt verður það auglýst á vefsíðu sjóðsins og í dagblöðum.

Dagskrá

  1. Skýrsla stjórnar
  2. Kynning ársreiknings
  3. Kosning stjórnar og varamanna
  4. Tryggingafræðileg athugun
  5. Fjárfestingarstefna sjóðsins
  6. Kjör endurskoðanda
  7. Tillögur um breytingar á samþykktum sjóðsins
  8. Laun stjórnarmanna
  9. Önnur mál

Skráning á fundinn

 

Upplýsingaefni

 

Tillögur stjórnar um breytingar á samþykktum sjóðsins verða birtar 2 vikum fyrir ársfund. Önnur fundargögn verða birt þegar þau liggja fyrir.

Ársreikningur Frjálsa 2020 

Reglur stjórnar Frjálsa lífeyrissjóðsins um framkvæmd ársfundar og rafræna atkvæðagreiðslu til stjórnar

Samkvæmt samþykktum Frjálsa skal stjórn sjóðsins skipuð sjö sjóðfélögum og þremur til vara, kosnum af sjóðfélögum. Þá geta frambjóðendur til aðalstjórnar kosið að gefa einnig kost á sér í varastjórn.

Á fundinum verða kjörnir tveir aðalmenn til þriggja ára, einn varamaður til þriggja ára og einn varamaður til eins árs. Hafi sjóðfélagi þegar kosið aðalstjórnarmenn í rafrænni kosningu fyrir ársfundinn gildir sú kosning og því ekki hægt að breyta atkvæðinu í skriflega hluta kosninganna.

Framboð til stjórnar þarf að liggja fyrir eigi síðar en 14 dögum fyrir ársfund, þ.e. 27. maí 2021. Senda skal tilkynningu um framboð á þar til gerðu eyðublaði sjóðsins auk nauðsynlegra fylgigagna á netfangið arsfundur@frjalsi.is.

Á þessum ársfundi rennur út kjörtímabil Ásdísar Evu Hannesdóttur og Magnúsar Pálma Skúlasonar í aðalstjórn og Sigurðar H. Ingimarssonar í varastjórn. Auk þess hefur Hrafn Árnason sagt sig úr varastjórn sjóðsins og er því kosið um nýjan varamann sem sitja mun út kjörtímabil Hrafns, þ.e. fram að ársfundi 2022.

Sá frambjóðandi til varamanns sem fær flest atkvæði er kjörinn til þriggja ára og sá sem hlýtur næstflest atkvæði er kjörinn til eins árs.

Í ljósi samsetningar þeirra stjórnarmanna sem sitja áfram í stjórn er ljóst að í tilfelli aðalmanna til stjórnar skal kjósa einn frambjóðanda af hvoru kyni eða tvær konur. Í tilfelli varamanna skal kjósa einn frambjóðanda af hvoru kyni eða tvo karla.

Upplýsingar um frambjóðendur til stjórnar sem þeir hafa sent sjóðnum má nálgast hér fyrir neðan með því að smella á nafn viðkomandi.

Sjóðfélagar geta kosið í aðalstjórn með rafrænum hætti. Rafræn kosning hefst kl. 12:00 á hádegi miðvikudaginn 2. júní 2021 og stendur yfir til kl. 12:00 á hádegi miðvikudaginn 9. júní 2021.

Tengill á kosningarvef verður aðgengilegur hér þegar kosning hefst.

Sjóðfélagi skráir sig inn með rafrænum skilríkjum eða með íslykli.

Sjóðfélagar geta kosið í aðalstjórn með skriflegri kosningu á ársfundinum sjálfum ef þeir kjósa ekki með rafrænum hætti fyrir fundinn. Samanlögð niðurstaða rafrænnar og skriflegrar kosningar verður kynnt á ársfundinum.

Kosning varamanna, kjör endurskoðanda, kosning um tillögur um breytingar á samþykktum og laun stjórnarmanna munu jafnframt fara fram skriflega á ársfundinum.

Umboð eru ekki heimil í rafrænni kosningu en heimil í skriflega hluta kosninganna á ársfundinum sjálfum.

Sjóðfélagi getur endurtekið og breytt kosningu að vild á meðan rafræn kosning er opin. Síðasta rafræna kosning sjóðfélaga er sú sem gildir.

Frekari aðstoð er hægt að fá hjá lífeyrisráðgjafa í síma 444-6090.

Ef sjóðfélagi getur ekki mætt á fundinn getur viðkomandi veitt öðrum einstaklingi skriflegt umboð til að fara með atkvæðisrétt sinn. 

Umboð eru ekki heimil í rafrænni kosningu.

Mælst er til þess að form sjóðsins hér fyrir neðan sé notað.

Umboð fyrir ársfund Frjálsa lífeyrissjóðsins

Atkvæðamagn sjóðfélaga fer eftir inneign þeirra í séreignarsjóði við næstliðin mánaðamót og hlutfallslegri inneign í tryggingadeild við næstliðin áramót. Stjórnarmenn eru kosnir með meirihlutakosningu. Ef sjóðfélagi kýs einn frambjóðanda fara öll atkvæði sjóðfélaga til þess frambjóðanda. Ef merkt er við tvo eða fleiri fá þeir öll atkvæði sjóðfélagans óskipt.

Nánar er fjallað um fyrirkomulag kosninga í reglum stjórnar Frjálsa lífeyrissjóðsins um framkvæmd ársfundar og rafrænna kosninga til stjórnar.

Frambjóðendur 

Upplýsingasíða fyrir frambjóðendur er aðgengileg hér fyrir neðan.

Opna upplýsingasíðu fyrir frambjóðendur

Nánari upplýsingar um fyrirkomulag fundarins er að finna í reglum stjórnar Frjálsa lífeyrissjóðsins um framkvæmd ársfundar og rafræna atkvæðagreiðslu til stjórnar.