Spurt og svaraðSpurt-og-svaradTrueFalseFalseFalse/forsida/utgreidslur/spurt-og-svarad/ÚtgreiðslurUtgreidslurTrueFalseFalseFalse/forsida/utgreidslur/
Útgreiðslur

 • 1. Skerða útgreiðslur rétt til barnabóta, vaxtabóta, húsaleigubóta eða atvinnuleysisbóta?
  Greiðslur úr lífeyris- og séreignarsjóðum geta skert rétt til barnabóta, vaxtabóta og húsaleigubóta sem nemur hækkun á tekjuskattstofni. Greiðslur úr séreignarsjóðum skerða ekki atvinnuleysisbætur.

 • 2. Ef ég á réttindi í mörgum lífeyrissjóðum, þarf ég þá að sækja um í þeim öllum?
  Lífeyrissjóðir á Íslandi hafa gert með sér ákveðið samkomulag sem kallað er Samkomulag um samskipti lífeyrissjóða sem m.a. einfaldar umsækjendum að sækja um útgreiðslu lífeyris. Umsækjandi skal skila umsókn um lífeyri í úrskurðarsjóð þ.e. í þann lífeyrissjóð sem greitt hefur verið mest til, eða greitt var til síðast. Úrskurðarsjóðurinn sér svo um að senda umsókn og fylgigögn á aðra þá sjóði sem eru aðilar að Samkomulagi um samskipti lífeyrissjóða, ef umsækjandi á réttindi í öðrum sjóðum. Á þetta jafnt við um umsóknir um útgreiðslu elli-, maka-, barna- og örorkulífeyris. Elli-, maka- og barnalífeyrir er greiddur sjálfstætt út úr hverjum sjóði fyrir sig. Örorkulífeyrir er einnig greiddur sjálfstætt út úr hverjum sjóði fyrir sig nema ef örorkulífeyrisréttindi í öðrum sjóði eru óveruleg þ.e. undir 2 SAL stigum, þá eru þau flutt til úrskurðarsjóðsins og greidd út samhliða örorkulífeyrisréttindum úr þeim sjóði. Umsækjandi þarf því aðeins að sækja um hjá einum lífeyrissjóði, sem er aðili að Samkomulagi um samskipti lífeyrissjóða, sem annast þá upplýsingagjöf til annarra sjóða til að þeir geti hafið útgreiðslu. Athugið að ekki eru allir lífeyrissjóðir landsins aðilar að Samkomulagi um samskipti lífeyrissjóða. Sækja þarf sérstaklega um útgreiðslur lífeyris til þeirra lífeyrissjóða sem ekki eru aðilar að samkomulaginu. Nánari upplýsingar um það á ll.is. Athugið að samkomulag þetta gildir aðeins um útgreiðslu lífeyrisréttinda en ekki séreignar. Sjálfur þarf sjóðfélagi að sækja um í öllum þeim sjóðum sem hann kann að eiga séreign í.
 • 3. Hvernig er útgreiðslum bundinnar séreignar háttað vegna aldurs sjóðfélaga?
  Bundin séreign tryggir sjóðfélaga mánaðarlegan ellilífeyri frá 70-85 ára, en þó má flýta töku bundinnar séreignar til 60 ára aldurs frá og með 1. desember 2009. Ef upphæð bundinnar séreignar er undir viðmiðunarfjárhæð getur sjóðfélagi tekið hana út í eingreiðslu hvenær sem er eftir 60 ára aldur. Viðmiðunarfjárhæð eingreiðslu er 1.265.130 kr. fyrir árið 2017.
 • 4. Getur útgreiðsla viðbótarlífeyrissparnaðar skert bætur frá almannatryggingum?

  Útgreiðsla úr séreign skerðir ekki grunnlífeyri frá Tryggingastofnun, eftir 2009, en hefur hins vegar áhrif á sérstaka framfærsluuppbót og uppbót á lífeyri t.d. vegna mikils lyfjakostnaðar. Þeir sem sjá fram á eftirlaun undir lágmarksframfærslu Tryggingastofnunar ættu því að hugleiða að taka út séreign fyrir 67 ára aldur.

   

 • 5. Borgar sig að óska eftir útgreiðslu viðbótarlífeyrissparnaðar ef ég þarf ekki að nota hann?
  Nei, almennt er ekki hagstætt að taka út lífeyrissparnað og færa yfir á annað sparnaðarform. Ástæðan er sú að hvorki er greiddur fjármagnstekjuskattur af ávöxtun lífeyrissparnaðar né erfðafjárskattur við fráfall ef erfingjar eru maki og börn. Auk þess er ekki hægt að ganga að lífeyrissparnaði vegna fjárhagslegra skuldbindinga líkt og gildir um flestar aðrar eignir.
 • 6. Get ég tekið samtryggingu út þegar mér hentar?
  Samtrygging er greidd út vegna aldurs, örorku og andláts sjóðfélaga. Í samtryggingu mynda iðgjöld ekki sjálfstæða erfanlega eign heldur veita þau ákveðin réttindi. Iðgjöldin greiðast í sameiginlegan sjóð og sumir fá meira úr honum en þeir hafa lagt til, aðrir minna, svipað og tíðkast með aðrar tryggingar. Samtrygging tryggir elli-, maka-, barna- og örorkulífeyri og eru réttindi til lífeyris óháð kyni, heilsufari, hjúskaparstöðu og fjölskyldustærð. 
 • 7. Hvernig er útgreiðslu ellilífeyris háttað?
  Upphæð ellilífeyris þ.e. áunnin réttindi sjóðfélaga, ákvarðast af því iðgjaldi sem greitt hefur verið til samtryggingar lífeyrissjóðs vegna hans. Áunnin réttindi fyrir greitt iðgjald ráðast af vali hans á lífeyrissjóði, samtryggingarleið og aldri hans þegar iðgjald er greitt. Ef sjóðfélagi greiðir t.d. til Frjálsa lífeyrissjóðsins frá 25-65 ára aldurs og laun sem greitt er af eru hin sömu allan tímann er miðað við að ellilífeyrir nemi að lágmarki 56% af þeim launum. Ellilífeyrir úr samtryggingarsjóði er greiddur út mánaðarlega, eftir á, til æviloka. Útgreiðslur ellilífeyris úr samtryggingarsjóði Erfanlegu leiðarinnar hefjast við 85 ára aldur, Frjálsu leiðarinnar við 70 ára aldur og Tryggingaleiðarinnar við 67 ára aldur. Athugið að heimilt er að flýta töku ellilífeyris úr öllum samtryggingarleiðum til 60 ára aldurs og að sama skapi má fresta töku ellilífeyris um 5 ár. Gildir þó ekki um samtryggingu Erfanlegu leiðarinnar, í henni er hægt aðeins hægt að flýta um 3 ár þ.e. frá 85 til 82 ára aldurs. Flýting/frestun hefur áhrif til lækkunar/hækkunar á áætluðum ellilífeyrisgreiðslum. Sjá töflu T2 í samþykktum sjóðins.
 • 8. Hver er viðmiðunarfjárhæð eingreiðslu fyrir árið 2017?
  Viðmiðunarfjárhæð eingreiðslu breytist í hlutfalli við vísitölu neysluverðs í janúar ár hvert og er 1.265.130 kr. fyrir árið 2017. Eingreiðslufjárhæðin gildir nú eingöngu vegna umsókna um útgreiðslu frjálsrar séreignar vegna örorku sjóðfélaga og bundinnar séreignar vegna aldurs sjóðfélaga.
 • 9. Hvernig er útgreiðslum frjálsrar séreignar/viðbótarlífeyrissparnaðar háttað vegna aldurs sjóðfélaga?
  Þegar sjóðfélagi hefur náð 60 ára aldri er frjáls séreign/viðbótarlífeyrissparnaður laus til útgreiðslu. Hægt er að óska eftir mánaðarlegum eða árlegum greiðslum auk eingreiðslu. Áður þurfti að dreifa greiðslum yfir lengra tímabil, en með lagabreytingu í lok desember 2008 rýmkuðust útgreiðsluheimildir til muna. Með frjálsri séreign tryggirðu sjóðfélagi sér útgreiðslur strax eftir 60 ára aldur eða hærri útgreiðslur á fyrstu árunum eftir starfslok með því að taka hana út samhliða ellilífeyrisgreiðslum úr samtryggingu, allt eftir því hvað hentar þegar þar að kemur.
 • 10. Er greiðslumat frá öðrum en Arion banka tekið gilt?
  Nei.
 • 11. Er nauðsynlegt að fá skattaskýrsluna stimplaða frá RSK eða er nóg að sækja skýrsluna rafrænt á RSK?
  Hvort tveggja er tekið gilt.
 • 12. Hvernig er útgreiðslum bundinnar séreignar háttað vegna örorku sjóðfélaga?
  Bundin séreign er ekki greidd út vegna örorku sjóðfélaga.
 • 13. Við útfyllingu lánsumsóknar er spurt um þinglýsta eigendur veðs, er hér átt við seljendur eða umsækjendur láns?
  Hér er hægt að skrá hvort heldur sem er seljendur eða umsækjendur láns.
 • 14. Hvernig er útgreiðslum frjálsrar séreignar/viðbótarlífeyrissparnaðar háttað vegna örorku sjóðfélaga?
  Verði sjóðfélagi öryrki á hann rétt á að fá frjálsa séreign/viðbótarlífeyrissparnað greidda út með jöfnum mánaðarlegum eða árlegum greiðslum, en tekið er mið af örorkuprósentu sjóðfélaga. Útborgun getur í fyrsta lagi hafist þegar vottorð um örorku og orkutap liggja fyrir. Ekki er hægt að fá frjálsa séreign/viðbótarlífeyrissparnað útgreidda vegna endurhæfingaröroku. Ef um 100% örorku er að ræða greiðist inneignin út á 7 árum frá því að umsókn er skilað inn. Árleg útborgun lækkar og úttektartími lengist í hlutfalli við lækkun örorkuprósentu, séreign er t.d. greidd út á 14 árum frá því að umsókn er skilað inn, ef um er að ræða 50% örorku. Þegar upphæð er undir viðmiðunarfjárhæð myndast réttur til eingreiðslu og hefur örorkuprósenta þá engin áhrif. Viðmiðunarfjárhæð eingreiðslu er 1.265.130 kr. fyrir árið 2017. Vakin er athygli á því að þegar sjóðfélagi hefur náð 60 ára aldri gilda útgreiðslureglur vegna aldurs sjóðfélaga. Dæmi: Ef sjóðfélagi með 100% örorku væri 55 ára gamall þegar hann hæfi útgreiðslur myndi hann fá 5*1/7 á árunum 55/56/57/58/59, en þegar hann yrði 60 ára gæti hann óskað eftir að taka afganginn þ.e. 2/7 út í eingreiðslu ef hann óskaði eftir því.
 • 15. Get ég tekið bundna séreign út þegar mér hentar?
  Bundin séreign er greidd út vegna aldurs og andláts sjóðfélaga, en ekki vegna örorku sjóðfélaga.
 • 16. Hvernig er útgreiðslum bundinnar séreignar til erfingja háttað vegna andláts sjóðfélaga?
  Bundin séreign skiptist milli erfingja eftir reglum erfðalaga, en séreign er hjúskapareign. Við andlát sjóðfélaga er bundin séreign laus til útgreiðslu og greiðist 2/3 af heildareign til maka og 1/3 til barna hins látna. Hægt er að óska eftir mánaðarlegum eða árlegum greiðslum auk eingreiðslu. Áður þurfti að dreifa greiðslum yfir lengra tímabil, en með lagabreytingu í lok desember 2008 rýmkuðust útgreiðsluheimildir til muna. Láti sjóðfélagi ekki eftir sig maka eða börn, skal séreignin renna til dánarbús sjóðfélaga, án takmarkana. Leyfi eftirlifandi maka til setu í óskiptu búi hefur ekki áhrif á hvort eða hvenær lífeyrissparnaðurinn er greiddur út. Erfingjar þurfa að skila inn yfirliti um framvindu skipta, en það fæst hjá sýslumanni.
 • 17. Hvernig er útgreiðslum frjálsrar séreignar/viðbótarlífeyrissparnaðar til erfingja háttað vegna andláts sjóðfélaga?
  Frjáls séreign/viðbótarlífeyrissparnaður skiptist milli erfingja eftir reglum erfðalaga, en séreign er hjúskapareign. Við andlát sjóðfélaga er frjáls séreign laus til útgreiðslu og greiðist 2/3 af heildareign til maka og 1/3 til barna hins látna. Hægt er að óska eftir mánaðarlegum eða árlegum greiðslum auk eingreiðslu. Áður þurfti að dreifa greiðslum yfir lengra tímabil, en með lagabreytingu í lok desember 2008 rýmkuðust útgreiðsluheimildir til muna. Láti sjóðfélagi ekki eftir sig maka eða börn, skal séreignin renna til dánarbús sjóðfélaga, án takmarkana. Leyfi eftirlifandi maka til setu í óskiptu búi hefur ekki áhrif á hvort eða hvenær lífeyrissparnaðurinn er greiddur út. Erfingjar þurfa að skila inn yfirliti um framvindu skipta, en það fæst hjá sýslumanni.
 • 18. Hvernig er útgreiðslu makalífeyris háttað?
  Hafi sjóðfélagi greitt iðgjald til sjóðsins í a.m.k. 2 ár á maki sjóðfélaga rétt á makalífeyri við andlát sjóðfélaga. Ef sjóðfélagi og maki hans voru með börn á framfæri sínu fyrir andlátið er makalífeyrir greiddur þar til yngsta barnið er orðið 18 ára. Jafnframt er makalífeyrir greiddur ef maki sjóðfélaga er 50% öryrki eða meira og yngri en 70 ára. Makalífeyrir er greiddur út mánaðarlega, eftir á, til eftirlifandi maka látins sjóðfélaga í a.m.k. 2 ár eftir andlát hans. Makalífeyrir er 50% af áunnum lífeyri. Athugið að ýmist er um að ræða áunnin makalífeyrisréttindi eða framreiknuð makalífeyrisréttindi.
 • 19. Hvernig er útgreiðslu örorkulífeyris háttað?

  Hafi sjóðfélagi greitt iðgjald til lífeyrissjóðs í a.m.k. 2 ár og orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins á hann rétt á örorkulífeyri verði hann fyrir orkutapi sem metið er 50% eða meira af starfsgetu, Örorkulífeyrir greiðist ef óvinnufærni varir í að minnsta kosti 6 mánuði, en ekki er greiddur örorkulífeyrir fyrstu 3 mánuðina sem sjóðfélagi er óvinnufær. Örorkulífeyrir er greiddur út mánaðarlega, eftir á, þar til sjóðfélagi hefur aftur öðlast vinnufærni. Ef orkutap er varanlegt er örorkulífeyrir greiddur fram að töku ellilífeyris. Sjóðfélagi á því rétt á örorkulífeyri til 70 ára aldurs samkvæmt Erfanlegu og Frjálsu leiðinni og til 67 ára aldurs samkvæmt Tryggingaleiðinni. Örorkulífeyrir hefur ekki áhrif til skerðingar á ellilífeyrisréttindum.

 • 20. Hvernig er útgreiðslu barnalífeyris háttað?
  Hafi sjóðfélagi greitt iðgjald til sjóðsins í a.m.k. 24 mánuði á undangengnum 36 mánuðum myndast réttur til barnalífeyris. Barnalífeyrir er greiddur með hverju barni sjóðfélaga undir 18 ára aldri, ef sjóðfélagi er látinn eða örorkulífeyrisþegi. Fósturbörn, stjúpbörn og kjörbörn sjóðfélaga öðlast sama rétt til lífeyris hafi þau verið á framfæri sjóðfélaga við andlát/orkutap. Ef orkutap er minna en 100% skerðist barnalífeyrir í samræmi við örorkuprósentu. Barnalífeyrir er greiddur með barni til 18 ára aldurs. Barnalífeyrir er greiddur til framfæranda barns, mánaðarlega, eftir á.
Til baka