Frétt
Lífeyrissjóðurinn minnir á mikilvægi reglulegrar eftirfylgni með iðgjöldum
03. október 2025Við viljum minna sjóðfélaga á að skoða reglulega hvort lífeyrisiðgjöld séu í samræmi við launaseðla þar sem ábyrgðin er hjá sjóðfélaganum sjálfum að upplýsa lífeyrissjóð um vangoldin iðgjöld. Það er því ávallt gott að venja sig á þetta en það er sérstaklega mikilvægt ef vinnuveitandi á í rekstrarerfiðleikum eða hættir starfsemi en einnig þegar launþega er sagt upp störfum eða hættir.
Lífeyrissjóðir gera kröfu í Ábyrgðasjóð launa um vangoldin lífeyrisiðgjöld, líkt og fjallað er um í lögum um ábyrgðasjóðinn nr. 88/2003. Ábyrgðasjóður launa ábyrgist lífeyrisiðgjöld sem fallið hafa í gjalddaga eða réttur hefur áunnist á síðustu 18 mánuðum fyrir frestdag eða úrskurðardag um gjaldþrotskipti. Ábyrgðin takmarkast við allt að 15,5% skylduiðgjald og 4% viðbótariðgjald. Sjóðurinn mun því sjá um innheimtuferli lífeyrisiðgjalda en aðeins ef lífeyrissjóðurinn hefur fengið upplýsingar um vangoldin iðgjöld.
Viljum því hvetja sjóðfélaga til að bera saman launaseðla og greidd iðgjöld á lífeyrisyfirlitum í Arion appinu eða á Mínum síðum. Ef upp kemur misræmi skulu sjóðfélagar hafa samband við lífeyrissjóðinn sem allra fyrst til þess að tilkynna um vangoldin iðgjöld.