Frétt

Frjálsi lífeyrissjóðurinn fær alþjóðlega viðurkenningu í 14. sinn

Frjálsi lífeyrissjóðurinn fær alþjóðlega viðurkenningu í 14. sinn

Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefur verið valinn besti lífeyrissjóður Evrópuþjóða með færri en milljón íbúa árið 2022 fyrir tæknilausnir og vinnu í tengslum við ábyrgar fjárfestingar. Það er fagtímaritið Investment Pension Europe (IPE) sem veitir verðlaunin. Þetta er í 14. sinn sem IPE verðlaunar Frjálsa frá árinu 2005, sem er mesti fjöldi IPE verðlauna sem íslenskum lífeyrissjóði hefur hlotnast.

Auk þess var Frjálsi einn af þremur lífeyrissjóðum sem var tilnefndur sem besti lífeyrissjóður Evrópu en verðlaunin hlaut sænski sjóðurinn AP4. Þetta er í fyrsta sinn sem Frjálsi er tilnefndur í þessum aðalflokki og mikill heiður fyrir sjóðinn og hvatning til að gera enn betur.

Í umsögn IPE kom m.a. fram að Frjálsi hafi náð góðum árangri í samanburði við lífeyrissjóði í Evrópu sem eru sambærilegir að stærð. Sjóðurinn hafi nýtt nýstárlegar tæknilausnir til að bæta upplifun sjóðfélaga og er þar vísað til þess hvernig Arion appið nýtist einstaklingum annars vegar til að gerast sjóðfélagar í Frjálsa og hins vegar til að hafa yfirsýn og gera breytingar á lífeyrissparnaði sínum. Auk þess var nefnt að Frjálsi hafi verið leiðandi í tilteknum þáttum ábyrgra fjárfestinga, m.a. með því að eiga í samskiptum við innlend félög til að bæta ófjárhagslega upplýsingagjöf þeirra sem skilað hafi góðum árangri. IPE tiltekur einnig það gagnsæi sem Frjálsi viðhefur með því að birta á vef sjóðsins upplýsingar um hvernig hann ráðstafar atkvæði sínu á hluthafafundum félaga sem hann á eignarhluti í.

Einar Gylfi Harðarson, sérfræðingur hjá Mörkuðum Arion banka og Arnaldur Loftsson, framkvæmdastjóri Frjálsa lífeyrissjóðsins, taka við verðlaunum Frjálsa sem besti lífeyrissjóður Evrópuþjóða með færri en eina milljón íbúa.

Upplýsingar um Frjálsa í Arion appinu má nálgast hér.

Upplýsingar um stefnu Frjálsa um ábyrgar fjárfestingar má nálgast hér.

IPE, sem er eitt virtasta tímarit Evrópu um lífeyrismál, hefur veitt verðlaunin árlega frá árinu 2001. Í ár sendu lífeyrissjóðir frá 23 löndum inn umsóknir í keppnina til að keppa um 42 verðlaun í mismunandi landsvæða- og þemaflokkum. Til marks um umfang verðlaunanna sinntu 80 einstaklingar frá 21 landi dómarastörfum til að úrskurða sigurvegara. Nánari upplýsingar um IPE verðlaunin 2022 má finna hér í sérstakri rafrænni útgáfu fagtímaritsins.