Frétt

Meðalraunávöxtun Frjálsa lífeyrissjóðsins 3,5% sl. 21 ár

Meðalraunávöxtun Frjálsa lífeyrissjóðsins 3,5% sl. 21 ár

Í nýútkominni grein Gylfa Magnússonar hagfræðings um ávöxtun og áhættu íslenskra lífeyrissjóða kemur fram að meðalraunávöxtun Frjálsa lífeyrissjóðsins (samtrygging og séreign) á tímabilinu 1997-2017 sé 3,5% á ári m.v. bókfært virði eigna. Af þeim 25 sjóðum sem eru til samanburðar er ávöxtun Frjálsa sú 13. hæsta en hafa þarf í huga að uppgjörsaðferðin er ekki sú sama hjá öllum sjóðunum svo ávöxtunartölurnar eru ekki samanburðarhæfar. Í grein Gylfa er borin saman ávöxtun samtryggingardeilda lífeyrissjóða og í tilfelli sjóða sem ráðstafa hluta af skylduiðgjaldi í séreign og hluta í samtryggingu er jafnframt birt samanlögð ávöxtun samtryggingar og séreignar. Í greininni segir að ástæða þessa sé sú að „viðkomandi sjóðir beina sem fyrr segir hluta skylduiðgjalds í séreignarsjóði. Ávöxtun samtryggingardeilda þessara sjóða segir því ekki alla söguna um ávöxtun skylduiðgjalda.“

Frjálsi hefur þá sérstöðu að sjóðfélagar geta greitt allt að 78% af skylduiðgjaldi í erfanlega séreign og 22% í samtryggingu og því mikilvægt að taka tillit til ávöxtunar séreignar við mat á ávöxtun skylduiðgjalda.

Jafnframt er í greininni birtur samanburður á raunávöxtun samtryggingardeilda lífeyrissjóða og „forvera“ m.v. sömu uppgjörsaðferð, þ.e. markaðsverð eigna, á sama 21 árs tímabili þar sem meðalraunávöxtun Frjálsa er 3,7% á ári og sú 11. hæsta.

Greinina má finna inn á efnahagsmal.is.

Endurtekinn ágalli í forsendum Verdicta í samanburði á ávöxtun lífeyrissjóða

Hallgrímur Óskarsson hjá Verdicta hefur í fjölmiðlum að undanförnu vakið athygli á samanburði á ávöxtun samtryggingardeilda lífeyrissjóða fyrir tímabilið 2000-2017 (18 ár). Í samanburðinum kemur fram að meðalraunávöxtun samtryggingardeildar Frjálsa sé 1,9% á ári skv. bókfærðu virði og í 20. sæti af 24 sjóðum. Þessar tölur koma ekki heim og saman við ávöxtunartölur í grein Gylfa og skýrslu ráðgjafafyrirtækisins Analytica. Ástæðan er sú að í samanburði Verdicta er annars vegar tekin með ávöxtun forvera sem hvorki Gylfi né Analytica gera í 18 ára ávöxtunarsamanburðinum og hinsvegar miðað við bókfært virði eigna en ekki leiðrétt fyrir markaðsvirði eins og Analytica gerir. Skýrsla Analytica var unnin að beiðni Frjálsa lífeyrissjóðsins og hefur verið fjallað um hana í frétt á vef sjóðsins.

Samkvæmt útreikningi Analytica er meðalraunávöxtun samtryggingardeildar Frjálsa á tímabilinu 2,7% á ári m.v. að skuldabréf sjóðsins séu gerð upp á markaðsvirði. Meðal annars vegna þess að nokkrir sjóðir gera skuldabréf sín upp á markaðsvirði er nauðsynlegt í samanburði á ávöxtun lífeyrissjóða að reikna hana m.v. þá uppgjörsaðferð, svo að unnt sé að reikna hana á sambærilegan hátt og að samanburðurinn sé sanngjarn. Í skýrslu Analytica segir eftirfarandi:

„Eins og áður hefur verið bent á telur Analytica rangt og beinlínis misvísandi að bera saman ávöxtun lífeyrissjóða sem beita mismunandi uppgjörsaðferð án leiðréttingar til markaðsvirðis.“

Með vísan til ofangreinds telur Frjálsi lífeyrissjóðurinn að samanburðurinn sem Verdicta hefur kynnt sé bæði rangur og misvísandi þar sem útreikningarnir taka ekki mið af markaðsvirði eigna hjá öllum sjóðum.

Forsendur í útreikningi ávöxtunartalnanna hafa jafnframt þann annmarka að ávöxtun sjóða (forvera) sem þeir náðu áður en þeir sameinuðust þeim sjóðum sem eru til samanburðar er tekin með í útreikningi á ávöxtun samanburðarsjóðanna. Þrír lífeyrissjóðir sameinuðust Frjálsa lífeyrissjóðnum á tímabilinu 2000-2017. Það vill svo til að samanlögð ávöxtun forveranna fyrir sameiningu var lægri en ávöxtun Frjálsa. Umrædd reikniaðferð leiðir því til þess að birt ávöxtun sjóðsins skv. samanburðinum reiknast lægri en ella. Sú forsenda að ávöxtun forvera fyrir sameiningar sé tekin með í ávöxtunarútreikning Frjálsa felur í sér að birt ávöxtunartala Frjálsa endurspeglar ekki þá ávöxtun sem sjóðfélagar sjóðsins, sem hafa greitt í samtryggingardeildina á 18 ára tímabilinu, hafa fengið í reynd. Það má ljóst vera að ávöxtun forvera fyrir sameiningu við Frjálsa hefur engin áhrif á þá ávöxtun sem umræddir sjóðfélagar sjóðsins hafa notið og gefur því ranga mynd af ávöxtun sjóðsins að reikna hana með þessum hætti. 

Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefur áður þurft að gera athugasemdir við samanburð Verdicta á ávöxtun lífeyrissjóða og má sjá umfjöllun um það á vef sjóðsins hér.

Frjálsi lífeyrissjóðurinn fagnar allri umræðu og samanburði á ávöxtun og kostnaði lífeyrissjóða. Slík umræða veitir stjórn og starfsfólki, sem og öðrum lífeyrissjóðum, aðhald og getur verið upplýsandi og gagnleg fyrir sjóðfélaga. Það er hins vegar mikilvægt að samanburðurinn sé réttur, sanngjarn og byggður á samanburðarhæfum upplýsingum.

Fréttin var uppfærð 30. janúar 2019.