Frétt

Ársuppgjör Frjálsa lífeyrissjóðsins 2017

Ársuppgjör Frjálsa lífeyrissjóðsins 2017

Helstu niðurstöður ársuppgjörs Frjálsa lífeyrissjóðsins voru eftirfarandi:

  • Hrein eign Frjálsa lífeyrissjóðsins í lok árs 2017 var 210,5 milljarðar kr.
  • Á árinu greiddu 22.430 sjóðfélagar um 16,5 milljarða iðgjöld til sjóðsins og hefur fjöldi greiðandi sjóðfélaga og fjárhæð iðgjalda í sjóðinn aldrei verið hærri.
  • Árið 2017 var hagfellt ár fyrir Frjálsa lífeyrissjóðinn þegar horft er til ávöxtunar. Nafnávöxtun séreignadeilda sjóðsins var á bilinu 5,8% til 6,9% og 5 ára meðaltal nafnávöxtunar 4,7%-7,9%.
  • Tryggingafræðileg staða tryggingadeildar sjóðsins er óbreytt milli ára. Staðan er traust en eignir umfram heildarskuldbindingar í lok árs eru 1,9%.
  • Ný lán til sjóðfélaga námu um 15 milljörðum, sem er tæplega 60% aukning milli ára.
  • Frjálsi lífeyrissjóðurinn var valinn í fjórða sinn besti lífeyrissjóður Evrópu á meðal Evrópuþjóða með færri en milljón íbúa af fagtímaritinu Investment Pension Europe (IPE). Frá árinu 2005 hefur Frjálsi lífeyrissjóðurinn fengið 11 verðlaun frá IPE sem er mesti fjöldi verðlauna sem íslenskum lífeyrissjóði hefur hlotnast.

Nánar um niðurstöður ársuppgjörs sjóðsins

Áframhaldandi vöxtur Frjálsa lífeyrissjóðsins

Hrein eign til greiðslu lífeyris nam um 210,5 milljörðum í árslok og stækkaði sjóðurinn um 13,5% á milli ára. Stærð séreignadeilda var 146,6 milljarðar og stærð tryggingadeildar 63,9 milljarðar.

Sterk tryggingafræðileg staða

Tryggingafræðileg staða samtryggingarsjóðs var óbreytt á milli ára. Staðan er traust því eignir umfram heildarskuldbindingar voru í lok árs 1,9%. Lítið vantaði upp á að ávöxtun sjóðsins næði 3,5% viðmiði á árinu, en þróun tryggingafræðilegra þátta vóg upp það sem upp á vantaði í ávöxtun.

Nafnávöxtun tryggingadeildar var 4,8% og raunávöxtun 3,0%, Fimm ára meðaltal nafnávöxtunar var 6,4% og fimm ára meðaltal raunávöxtunar var 4,2%.

Mikill vöxtur iðgjalda og lífeyris

Iðgjöld sjóðfélaga og launagreiðenda námu 16,5 milljörðum og jukust um 20,4% frá árinu áður. Lágmarksiðgjöld voru 13,6 milljarðar og viðbótariðgjöld 2,9 milljarðar.

Lífeyrisgreiðslur úr séreignadeildum og tryggingadeild voru um 2,9 milljarðar og hækkuðu um 4,2% á milli ára. Þar af nam lífeyrir séreignadeilda 2,3 milljörðum og tryggingadeildar 616 milljónum.

Iðgjöldum ráðstafað inn á höfuðstól lána eða til öflunar íbúðarhúsnæðis námu um 732,1 milljónum sem er 0,9% lækkun frá árinu 2016.

Tugir þúsunda sjóðfélaga velja að greiða í Frjálsa lífeyrissjóðinn

Heildarfjöldi sjóðfélaga sem eiga séreign eða réttindi í sjóðnum í árslok var 56.590 og fjölgaði þeim um 4,9%. Fjöldi sjóðfélaga sem völdu að greiða í sjóðinn á árinu 2017 var 22.430 sem er 7,15% hækkun frá árinu áður.
Fjöldi sjóðfélaga sem fékk greitt úr sjóðnum var 3.479 á árinu 2017 og fjölgaði þeim um 7,9% á milli ára.

Mikil aukning lífeyrissjóðslána

Mikil aukning var í lífeyrissjóðslánum til sjóðfélaga en þau eru með veði í fasteignum. Ný lán námu um 15 milljörðum. Afgreidd voru 686 lífeyrissjóðslán samanborið við 441 árið áður og var meðallánsfjárhæð um 22 milljónir kr. Í lok árs voru lánin tæp 12% af hreinni eign sjóðsins en voru um 7% í lok árs 2016.

Nánari upplýsingar um ávöxtun Frjálsa lífeyrissjóðsins og þróun markaða árið 2017 er að finna í meðfylgjandi skjali.

Ávöxtun Frjálsa lífeyrissjóðsins og þróun markaða árið 2017