Frétt

Tillögur stjórnar Frjálsa um nýja stjórnskipan sjóðsins

Tillögur stjórnar Frjálsa um nýja stjórnskipan sjóðsins

Stjórn Frjálsa lífeyrissjóðsins ákvað á fundi sínum 21. mars síðastliðinn að leggja til að breyta samþykktum sjóðsins um skipan stjórnar hans á komandi ársfundi þann 30. maí nk. Stjórnarformaður sjóðsins gerði á ársfundi 2017 grein fyrir viðhorfum um þetta efni í ræðu sinni og voru þau rædd. Stjórnskipan Frjálsa hefur síðan verið til umfjöllunar á stjórnarfundum í vetur og hefur stjórnin samþykkt tillögur að nýju fyrirkomulagi.

Tillögur stjórnar um nýja stjórnskipan Frjálsa fela það meðal annars í sér að í stað þess að fjórir af sjö stjórnarmönnum séu kosnir á ársfundum en þrír skipaðir af rekstraraðila sjóðsins verði allir stjórnarmenn kosnir af sjóðfélögum. Eftir að aðlögunartímabili breytinganna lýkur muni þriðja hvert ár kosið um þrjá stjórnarmenn til þriggja ára en hin tvö árin kosið um tvo stjórnarmenn, einnig til þriggja ára skv. tillögunni.

Samhliða þessum breytingum verði faglegri valnefnd komið á fót sem auglýsi eftir framboðum og fari með ráðgefandi hlutverk við mat á hugsanlegum stjórnarmönnum. Gert er ráð fyrir að í valnefnd verði þrír einstaklingar sem hafi til að bera reynslu og þekkingu á mannaráðningum, stjórnarstörfum og lífeyrismálum. Stjórn Frjálsa skipi einn í valnefnd, rekstraraðili annan og sá þriðji verði valinn af utanaðkomandi aðila. Nefndin leggi mat á m.a. hæfni, reynslu og þekkingu umsækjenda með hliðsjón af þeim kröfum sem gerðar eru varðandi samsetningu stjórna lífeyrissjóða. Jafnframt verði valnefndinni gert að gæta að nauðsynlegri breidd í stjórninni, hvað varðar þessa þætti, sem og lögbundnum kynjahlutföllum, við tillögu sína fyrir ársfund.

Að loknu þessu ferli leggi nefndin fram rökstudda tillögu um framboð sem birt verði fyrir hvern ársfund. Gera tillögur stjórnar Frjálsa ráð fyrir að skilyrði vegna framboða til stjórnarsetu haldist óbreytt og að öllum sjóðfélögum verði því áfram heimilt að bjóða sig fram, þótt tillaga valnefndar færi eftir atvikum rök fyrir vali á öðrum frambjóðendum.

Markmiðið með skipun valnefndar er að minnka hugsanlega orðsporsáhættu sem kann að fylgja skipun rekstraraðila í stjórn. Tillögurnar eru til þess fallnar að skapa gagnsætt fyrirkomulag við stjórnarkjör, auka sjóðfélagalýðræði og tryggja sjóðfélögum áreiðanlegar forsendur til þess að taka upplýsta ákvörðun um val í stjórn á ársfundi sjóðsins.

Ef breytingartillögurnar verða samþykktar á ársfundinum í maí mun breytt tilhögun við skipan stjórnar taka gildi á ársfundi 2019.