Frétt

Lífeyrissjóðir óska eftir sakamálarannsókn

Lífeyrissjóðir óska eftir sakamálarannsókn

Stjórnir fimm lífeyrissjóða hafa lagt fram kæru til héraðssaksóknara. Í kærunni er óskað eftir því að embættið taki til lögreglurannsóknar nokkur alvarleg tilvik sem grunur leikur á að feli í sér refsiverð brot af hálfu Magnúsar Ólafs Garðarssonar, fyrrum framkvæmdastjóra og stjórnarmanns United Silicon hf., og eftir atvikum annarra stjórnenda, stjórnarmanna og starfsmanna félagsins.

Kærendur telja að blekkingum hafi verið beitt og átt hafi verið við áætlanir og upplýsingar í þeim tilgangi að fegra stöðu félagsins og leyna þeim kerfisbundnu auðgunarbrotum sem virðast hafa verið stunduð í skjóli félagsins. Ítarlegar athuganir á bókhaldi félagsins bendi til þessa. Grunur sé um skjalafals, fjársvik í tengslum við kaup á búnaði, innheimtu tilhæfulausra reikninga og misnotkun á fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands.  Þá telja kærendur að í ljósi þess sem nú er komið fram að rannsaka þurfi hvort fjármunir félagsins United Silicon hf. hafi mögulega verið nýttir, með ólögmætum hætti, til að fjármagna aðkomu Magnúsar Garðarssonar, eða aðila honum tengdum, að verkefninu.   

Óháð lögfræðiálit

Kæran er lögð fram að fenginni niðurstöðu lögfræðiálits Stefáns Árna Auðólfssonar, lögmanns hjá LMB Mandat, um stöðu sjóðanna vegna fjárfestinga sem tapast við gjaldþrot United Silicon. Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Festa lífeyrissjóður, Eftirlaunasjóður íslenskra atvinnuflugmanna, Lífeyrissjóður starfsmanna Búnaðarbanka Íslands hf. og Brú – lífeyrissjóður (vegna Eftirlaunasjóðs Reykjanesbæjar), óskuðu eftir lögfræðiálitinu til þess að fá úr því skorið til hvaða aðgerða sjóðirnir gætu gripið til að verja hagsmuni sjóðfélaga. Með kærunni er leitað atbeina embættis héraðssaksóknara vegna hagsmuna þessara aðila í tengslum við lögreglurannsókn á meintu misferli í rekstri félagsins United Silicon hf. Kæran fylgir í kjölfar kæru félagsins sjálfs og Arion banka á hendur framkvæmdastjóranum. Sjóðirnir telja að möguleg brot hans snúi að hluta til með öðrum hætti að hagsmunum þeirra en félagsins sjálfs og bankans.  Kærendur telja einnig að þeir hafi sjálfstæða hagsmuni af því að kæra hin grunuðu brot.

Með nær ótakmarkað umboð

Í kærunni er bent á að forsvarsmenn kísilverksmiðjunnar hafi sóst eftir verulegu fjármagni frá kærendum auk þess sem miklir almannahagsmunir hafi verið tengdir uppbyggingunni í Helguvík. Svo virðist sem fyrrum stjórnarmenn, sem flestir voru tengdir fyrrverandi framkvæmdastjóra, sem og nánustu samstarfsmenn, hafi lítið sinnt athafna- og aðgæsluskyldum sínum svo sem hvað varðar aðskilnað starfa og uppáskrift reikninga.  

„…miðað við upplýsingar sem nú eru framkomnar virðist sem stjórn hafi falið Magnúsi Ólafi Garðarssyni nær ótakmarkað umboð til að ráðstafa fjármunum og til að skuldbinda félagið.  Því verður að fara fram á rannsókn á þeim þætti málsins,“ segir í kærunni.

 

 Kæra.pdf